Hangið aftan í

EYRARPÚKINN - 14
Þegar bílstjórinn elti mig niður Eyrarveginn vætti ég buxurnar og æpti Mamma mamma!
Steini Villa og Rúni Jóhanns hlógu en stóðu mér ekki á sporði þegar ég skutlaði mér á vængjabíl Guðmundar Karls og hékk í suðrað Turni þó doksi æki Norðurgötuna sikksakk.
Gómuðu fáir A 100 þegar yfirlæknirinn spýtti í á Norðurgötuhorni. Þarna kemur Guðmundur Karl á hundrað, teikum hann strákar!
Og fylgdu marblettir á mjöðmum og hnjám og ótal skrámur leik okkar.
Þarna kemur kolabíllinn! hrópuðum við þegar kolabíllinn kom másandi af Tanganum og mátti fara í langferðir á poka á palli og nutum hvíldar og útsýnis.
Þá voru olíubílarnir vinsælir með stuðarana svo hátt uppi að hanga mátti aftan í þeim standandi en víða stóð grjót úr götum og margt bar að varast auk bráðra ökumanna, ekki síst í Gilinu í hálku með bíla í bak.
Þá vildu vettlingar festast við stuðarana og voru Stebbi Rut og Keli seinheppnir með glófa sína þrátt fyrir hlaup upp alla Tryggvabraut.
Stebbi í Eyrarvegi 16 hnyklaði brýrnar og útmálaði hvurnin hann tæki í rassgatið á okkur sem við smugum kattarlegir kringum gráan Ópel Stefáns sem við kölluðum Stebba á 80.
Best að hanga aftan í á gúmmískóm Iðunnar, svörtu slöngugúmmurunum, því á útlensku skónum urðu hvítir sólarnir svartir þegar menn báru saman brennda botna sína.
En það létum við ekki á okkur fá á Norðurgötuhorninu í veiðilegri stórhríð jólalegri.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Hangið aftan í er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.


Eldhúsdagsumræður

Lýsið frá Tona og Jónda

„Ég yfirgaf ekki Rússland, Rússland yfirgaf mig“

„Við erum einu skrefi frá því að sagan endurtaki sig“
