Daníel og Birkir kljást í „gamla daga“

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 86
Það er líklega umdeilt hvað er gamalt og hvað ekki? Hugtakið loðið og teygjanlegt, og skoðanir mismunandi. Því er spurt: Er þessi ljósmynd gömul? Líklega ekki í hefðbundnum skilningi en hún er dregin fram í tilefni þess að nú standa yfir tvær miklar knattspyrnuveislur á Akureyri. KA-mann halda árlegt N1 mót fyrir 5. aldursflokk stráka og Þórsarar standa fyrir Pollamóti Samskipa, hátíð þar sem eldra knattspyrnufólk eða heldra kemur saman til knattspyrnuleikja og skemmtunar.
Myndin er tekin 30. júní árið 2015 og er því aðeins 10 ára; gömul eða ekki, látum það liggja á milli hluta að þessu sinni. Hún er tekin í 1:1 jafntefli Þórs og KA á Íslandsmóti 3. flokks. Drengirnir tveir sem eru í aðalhlutverki á myndinni eru þekktir knattspyrnumenn, hvorugur er þó í herbúðum uppeldisfélagsins um þessar myndir, og gætu mæst í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, á Víkingsvellinum í Fossvogi sunnudaginn 20. þessa mánaðar. Ljóshærði KA-maðurinn vinstra megin á myndinni er Daníel Hafsteinsson, leikmaður Víkings, og Þórsarinn með boltann er Birkir Heimisson, sem nú leikur með Val. Daníel er fæddur 1999 en Birkir er árinu yngri.