Fara í efni
Íþróttir

Frjálsíþróttamenn á Akureyrarvelli

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 90

Gamli, góði íþróttavöllurinn við Hólabraut – Akureyrarvöllur – var mörgum kær um árabil en það fallega svæði hefur að mestu verið ónotað síðustu ár. Það iðar hins vegar af lífi í dag og á morgun á meðan fjölskylduhátíðin Ein með öllu stendur yfir. Tónlistarveislan Öll í einu er þar í kvöld og annað kvöld verða þar Sparitónleikar, sem svo eru kallaðir, og að þeim loknum flugeldasýning Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri.

Því er tilvalið að gamla íþróttamyndin að þessu sinni sé tekin á Akureyrarvelli. Þarna er hópur frjálsíþróttamanna saman kominn og á miða sem myndinni fylgdi er ritað Maí boðhlaup. Nokkrir þessara kappa eru auðþekktir; á myndinni eru til dæmis Leifur Tómasson, Einar Helgason, Jón Stefánsson, Stefán Haukur Jakobsson (Dúddisen), Skjöldur Jónsson og Garðar Ingjaldsson.

Kannast lesendur við fleiri á myndinni? Jafnvel hvenær hún gæti verið tekin og af hvaða tilefni? Gaman væri að fá ábendingar á netfangið skapti@akureyri.net.