Bardagi KA og ÍA á Sanavelli í maí 1981

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 88
KA-menn taka á móti Akurnesingum í gríðarlega mikilvægum leik í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Því er ekki úr vegi að birta gamla mynd úr leik liðanna; varnarjaxlinn Erlingur Kristjánsson skallar þarna að marki ÍA á „gamla, góða“ Sanavellinum, grjóthörðum malarvelli á milli höfuðstöðva Útgerðarfélags Akureyringar og Slippstöðvarinnar, laugardaginn 16. maí 1981, í 1. umferð efstu deildar Íslandsmótsins.
„Á sjötta hundrað manns voru mættir á Sana-völlinn síðastliðinn laugardag er KA lék sinn fyrsta leik á keppnistímabilinu gegn skagamönnum. Áhorfendur jafnt sem leikmenn heimaliðsins máttu sætta sig við ósanngjarnt tap 1-0 auk þess að horfa upp á tvo af fastamönnum liðsins þá Elmar og Donna meiðast.“
Þannig hófst umsögn Akureyrarblaðsins Íslendings um leikinn. Þeir sem meiddust voru Elmar Geirsson, fyrirliði KA, sem fór af velli snemma leik og „Donni“ er Jóhann Jakobsson, sem varð að yfirgefa völlinn þegar seinni hálfleikur var nýhafinn.
Myndin hér að neðan, úr sama leik, var gamla íþróttamyndin á Akureyri.net 6. apríl á síðasta ári. Skemmtileg mynd, ekki síst vegna þess hve vel hún sýnir „áhorfendastúku“ þess tíma, það sem útsýnið var sérlega gott – a.m.k. fyrir þá sem sátu í öftustu „sætaröð“.
- Smellið á myndina til að sjá umfjöllunina með henni á sínum tíma.
Annar frá hægri er Þórsarinn Sigurður heitinn Lárusson, sem þá lék í vörninni hjá ÍA, og er einnig á mynd dagsins – númer 4. Sonur hans, Lárus Orri Sigurðsson, er þjálfara Akurnesinga í dag.
Mynd: Skapti Hallgrímsson