Arngrímur var sagður hrífandi sóprandrengur

TÓNDÆMI – 33
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Ferð Barnakórs Akureyrar til Noregs árið 1954 var söguleg, eins og fram kom á þessum vettvangi í síðustu viku; hann varð þar með fyrsti íslenski barnakórinn sem fór utan í þeim tilgangi að syngja opinberlega.
Kórinn var fenginn til að syngja á stórri fiskveiðisýningu í Álasundi, vinabæ Akureyrar, og kom einnig fram í Voss og Bergen.
Fyrsta kvöldið eftir komuna til Álasunds söng kórinn fyrir nokkur þúsund á Fiskerimessen og daginn eftir í Alþýðuhúsinu, stærsta samkomuhúsi bæjarins.
Arngrímur B. Jóhannsson og Anna Guðrún Jónasdóttir sungu einsöng með Barnakór Akureyrar.
Óhætt er að segja að höfundar greinar sem birtist í blaðinu Sunnmörerposten hafi hrifist af kórnum, og þá ekki síst einsöngvurunum tveimur. Þar sagði, eftir tónleikana í Alþýðuhúsinu: „Aðdáanlegastir voru hinir björtu sópranar. Og þá er sjálfsagt að vekja athygli á hinum hrífandi sóprandreng, Arngrími B. Jóhannssyni, sem söng einsöng í ekki færri en þremur lögum. Eins og stendur í ljóðinu Glaður drengur: „Af slíkum dreng má vænta mikils“, ef honum tekst að varðveita sína hreinu og töfrandi rödd yfir gelgjuskeiðið.“
Blaðið heldur áfram:
„Hrifningin braust út í ofsafengnu lófataki, þegar hann hafði sungið Sunnudagur selstúlkunnar eftir Ole Bull, sem auðvelt var fyrir þá sem tala nýnorsku að skilja af orðahljóðan íslenskunnar að var: Seterjentens Söndag.
Hinn sólóistinn, Anna Guðrún Jónasdóttir, söng aðeins eitt lag. Rödd hennar lá á dýpra sviðinu, en hafði sérstaka hlýju og fyllingu til að bera.
Það var ekki síst við undirleik kórsins undir sólósöngvana að kórinn sýndi sínar bestu hliðar,“ segir í blaðinu Sunnmörerposten.
Arngrímur Brynjar Jóhannsson lagði sönginn ekki fyrir sig heldur varð frumkvöðull í flugmálum; hann var um árabil einn þekktasti flugstjóri landsins og stofnaði á sínum tíma flugfélagið Atlanta ásamt þáverandi eiginkonu sinni.
Anna Guðrún Jónasdóttir starfaði lengi sem prófessor í stjórnmála- og kynjafræði við háskólann í Örebro í Svíþjóð.
- Í SÍÐUSTU VIKU – FYRSTI BARNAKÓRINN SEM FÓR UTAN Í SÖNGFERÐ
ATHUGIÐ - í upphaflegri grein kom fram að Anna Guðrún hefði lengi starfað við háskólann í Lundi í Svíþjóð, en það hefur nú verið leiðrétt.