Vinsæll kvartett en þó í raun ekki til fyrstu árin!

TÓNDÆMI – 38
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Kvartett sem kenndur var við karlakórinn Geysi á Akureyri – Geysiskvartettinn – varð vinsæll, en var þó í raun ekki til fyrstu árin!
Það var haustið 1968 að beðið var um fjóra söngmenn úr Geysi til að syngja viðlag inn á plötuna Unga kirkjan sem Æskulýðssamband kirkjunnar í Hólastifti stóð að. Fyrir valinu urðu Aðalsteinn Jónsson 1. tenór, Guðmundur Þorsteinsson 2. tenór, Birgir Snæbjörnsson 1. bassi og Sigurður Svanbergsson 2. bassi. Það var svo ekki fyrr en 1979 að Geysiskvartettinn söng 14 lög inn á hljómplötu. „Ár liðu og lagið Ég helga þér kristur heyrðist oft í óskalagaþáttum. Þá var þessi kvartett, sem raunar var ekki til, beðinn að syngja á fjáröflunarsamkomu,“ segir í söngskrá afmælistónleika árið 1982, þegar Geysir fagnaði 60 ára afmæli. „Í skyndi var leitað til Jakobs Tryggvasonar organista og kenndi hann áðurnefndum söngbræðrum nokkur lög sem sungin voru við góðan orðstýr. Þetta spurðist og brátt tóku beiðnir um söng að berast víðvsegar að. Færðust þeir fimm æ meira í fang, héldu þeir t.d. söngskemmtun á Akureyri, sem endurtaka þurfti vegna mikillar aðsóknar. Kvartettinn söng svo víða um land við undirleik Jakobs, ætíð við góðar undirtektir.“
Vert er að geta þess að Geysiskvartettinn tók þátt í norrænni kvartettakeppni skömmu fyrir sextugsafmæli kórsins og hreppti þriðju verðlaun.
Umslag plötu Geysiskvartettsins sem Tónaútgáfan gaf út árið 1978. Sitjandi, frá vinstri, Birgir Snæbjörnsson, Jakob Tryggvason og Guðmundur Þorsteinsson. Standandi, Aðalsteinn Jónsson, til vinstri, og Sigurður Svanbergsson.