Stofnuðu hljómsveit til að komast frítt á útihátíð

TÓNDÆMI – 37
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Fjölmargar hljómsveitir hafa verið starfræktar á Akureyri í gegnum tíðina. Meðlimir hafa tekið sig misalvarlega eins og gengur, til dæmis er óhætt að segja að gleðin og glensið hafi verið í hávegum þegar Skriðjöklar voru annars vegar.
Hljómsveitin var stofnuð 1983 af nokkrum vinum á Akureyri, í því skyni að taka þátt í hljómsveitakeppni á Atlavíkurhátíð Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) í Hallormsstaðaskógi um verslunarmannahelgina – en einkum og sér í lagi til þess að komast ókeypis inn á hátíðina!
Stúlkur! Skriðjöklar á ferð. - Hluti auglýsingar um dansleik Skriðjökla um miðjan níunda áratuginn.
Skriðjöklar urðu í þriðja sæti keppninnar í Atlavík 1983, tóku þátt á ný árið eftir en voru aftarlega á merinni á hátíðinni það ár, þegar Bítillinn Ringo Starr vakti mesta athygli sem heiðursgestur. Það var svo 1985 sem Skriðjöklar sigruðu í hljómsveitakeppni í Atlavík um verslunarmannahelgina. Þessi mikla gleðisveit var orðin býsna þekkt enda hafði hún tekið að sér að leika á böllum hér og þar um landið mánuðina á undan. Varð hún ein sú vinsælasta á þeim vettvangi í nokkur ár, þekkt fyrir galsa og mikla stemningu.
Misvanir
Menn voru misvanir hljóðfæraleik en ekki kom til greina að skilja neinn útundan þegar haldið var í Atlavík; sumir spiluðu, aðrir dönsuðu eða sinntu öðru. Þegar Skriðjöklar sigruðu í keppninni eystra voru átta manns á sviðinu; söngvarinn Ragnar „Sót“ Gunnarsson, Jóhann Ingvason hljómborðsleikari, Jón Haukur Brynjólfsson bassaleikari, gítarleikararnir Jakob Jónsson og Kolbeinn Gíslason, Eggert Benjamínsson trommari og dansararnir Logi Már Einarsson (sem nú er menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra) og Bjarni Bjarnason, sem einnig sungu. Utan sviðs var Guðmundur „Guddli“ Þorsteinsson, hönnuður og miðasölumaður hópsins. Vert er að geta þess að einn stofnenda hljómsveitarinnar var Þráinn Brjánsson, trommari, en Eggert tók fljótlega við hlutverki hans.
Umfjöllun DV um hljómsveitakeppnina í Atlavík árið 1985 þegar Skriðjöklar báru loks sigur úr býtum.
Aðrir sem áttu eftir að leika í sveitinni tímabundið voru trommarinn Geir Rafnsson, Jósef Friðriksson á hljómborð, Kristján Edelstein á gítar, Sigfús Örn Óttarsson á trommur og Tómas Tómasson á gítar.
Hugmyndin að hljómsveitinni varð til í bæjarvinnunni hjá Hilmari Gíslasyni sumarið 1983. „Kobbi og Logi stungu upp á þessu við okkur Bjarna Bjarnason í einum matartímanum. Sagan segir að það hafi verið til að komast frítt inn á útihátíðina í Atlavík með því að taka þátt í hljómsveitarkeppninni þar – og sú saga er sönn!“ segir Jón Haukur Brynjólfsson. „Við vorum dæmdir úr leik fyrir svindl, tókum aftur þátt 1984 og lentum í neðsta sæti, unnum svo keppnina 1985 og upp úr því komst þetta á flug.“
Hljómsveitin starfaði af miklum krafti frá 1984 til 1989 og aftur 1992 til 1994, lék á dansleikjum þar sem gleðipopp réð ríkjum og síðan hefur hópurinn komið saman einstaka sinnum, til dæmis á 150 ára afmæli Akureyrar 2012.
Bjarni Hafþór Helgason var hirðskáld Skriðjökla og samdi meðal annars sum vinsælustu lög hljómsveitarinnar og textana líka: Tengja, Hryssan mín blá, Aukakílóin og Mikki refur.
- Skriðjöklar gáfu út sex hljómplötur, tvær breiðskífur (LP) og fjórar litlar. Þær fyrrnefndu voru Er Indriði mikið erlendis, 1987, og Búmm tsjagga búmm, 1993. Fyrsta plata hljómsveitarinnar var Var mikið sungið á þínu heimili?, sem kom út 1985, þá kom Manstu eftir Berlín, bollan ðín, 1986, Á landsmót kom á markað 1987, og Þetta er svívirða við greiðendur afnotagjaldanna árið 1988.
- Ef rýnt er í mynd af plötunni Manstu eftir Berlín bollan ðín hér að ofan má sjá að útgefandi er félagið Jiðskröklar. Mun þetta fyrsta platan sem það félag gaf út og líklega má segja stefnt sé að mikilli útgáfu eða það a.m.k. gefið í skyn, því platan er númeruð 0000001 ...