Fara í efni
Menning

„Í tónlistarskóla læra börn öguð vinnubrögð“

Frá afmælishátíð Tónlistarskólans í Hofi 2016, þegar 70 ár voru frá stofnun skólans. Daníel Þorsteinsson stjórnaði fjölmennri sveit nemenda sem kom fram. Mynd: Skapti Hallgrímsson

TÓNDÆMI – 44

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net hefur frá því í nóvember 2024 rifjað upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast á miðvikudögum._ _ _

Píanóleikararnir Þyrí Eydal og Þórgunnur Ingimundardóttir kenndu í áratugi við Tónlistarskólann á Akureyri. Þórgunnur hóf þar störf sama ár og skólinn var stofnaður, 1946, en Þyrí ári síðar og hún kenndi lengst allra við skólann, samfleytt í 46 ár.

Þyrí er látin en Þórgunnur, sem er orðin 99 ára, býr enn á Akureyri. Hún telur það þátt í góðu uppeldi barna að stunda tónlistarnám og báðar lýstu raunar þeirri skoðun í viðtali við Dag árið 1996 í tilefni 50 ára afmælis skólans. Sögðu það líka „örugglega mjög hollt“ að læra á hljóðfæri.

Þær kynntust snemma. „Ég var orðin 12 ára þegar ég byrjaði að læra og Þyrí var fyrsti kennarinn minn, þá nýútskrifuð úr Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ég var með fyrstu nemendum hennar og kennslan fór fram heima hjá henni á Gilsbakkaveginum,“ sagði Þórgunnur fyrir nokkrum árum við þann sem þetta skrifar.

Píanókennararnir Þyrí Eydal, til vinstri, og Þórgunnur Ingimundardóttir hófu störf við Tónlistarskólann skömmu eftir stofnun hans og kenndu í áratugi – Þyrí samfleytt í 46 ár.

Þyrí sagði frá því á sínum tíma að hún sótti píanótíma í mörg ár en fimmtán ára, að afloknu gagnfræðaskólanámi, fór hún til Reykjavíkur til að læra hatta- og skermasaum. „Um tíma föndraði ég við hattana, en svo fór að ég innritaði mig í Tónlistarskólann í Reykavík og útskrifaðist þaðan að loknu þriggja vetra námi. Aðalkennarinn minn var Árni Kristjánsson, bróðir Gunnars í Verslun Eyjafirði, sem var þekktur kaupmaður á Akureyri í gamla daga. Eftir að ég kom norður aftur sótti ég einkatíma hjá Árna þegar hann dvaldi á sumrum hjá bróðurnum og fjölskyldu hans,“ sagði Þyrí í Degi við annað tækifæri.

Margrét Eiríksdóttir var fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri. Fjallað var um hana í Tóndæmi í mars á þessu ári, sjá hér: Margrét „vel menntuð og mikill listamaður“.

Margrét Eiríksdóttir, fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri.

Skólinn var settur í fyrsta skipti 20. janúar 1946 og um haustið hóf Þórgunnur að kenna þar, en hún lauk prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík um vorið. Hún starfaði með töluverðum hléum til 1994 en Þyrí, sem hóf störf við skólann 1947 kenndi þar óslitið til 1993 – í 46 ár.

„Tónlistarskólinn var mjög heppinn að fá Margréti sem fyrsta skólastjóra, hún var sérlega vel menntuð og frábær kennari,“ segir Þórgunnur. Margrét var fyrst hérlendis til að taka upp það stigakerfi í tónlistarkennslu sem enn er notað, en því hafði hún kynnst er hún nam við Royal Academy of Music í London.

Þorgerður Eiríksdóttir lést af slysförum 1972 í London, þar sem hún var við framhaldsnám, aðeins 18 ára að aldri.

Í fyrstu var aðeins kennt á píanó í skólanum en kennsla á orgel bættist við eftir að Jakob Tryggvason kom að skólanum. „Í nokkur ár var alltaf fenginn prófdómari frá Englandi til þess að dæma stigspróf og það sýnir að frá upphafi ríkti metnaður við skólann og ég hygg að þessi metnaður hafi verið ríkjandi í starfi skólans alla tíð,“ sagði Þórgunnur í viðtalinu við Dag á sínum tíma.

Þær lögðu áherslu á að tónlistarkennsla byrji sem fyrst. „Í Tónlistarskóla læra börn öguð vinnubrögð og það sýnir sig í námsárangri í öðrum skólum að tónlistarnám hefur mikið gildi,“ sagði Þórgunnur. 

Ekki gerðu þær upp á milli nemenda skólans, „en vildu þó minnast á ákaflega efnilegan nemanda, Þorgerði Eiríksdóttur, sem lést af slysförum 1972 í London, þar sem hún var við framhaldsnám,“ sagði í Degi á sínum tíma. Fjölskylda Þorgerðar stofnaði sjóð í minningu hennar til að styrkja efnilega nemendur til framhaldsnáms í tónlist, og enn eru tónleikar haldnir árlega í nafni sjóðsins.