Björgvin Guðmundsson og Kantötukórinn

TÓNDÆMI – 39
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Björgvin Guðmundsson, tónskáld og söngstjóri, stofnaði Kantötukórinn haustið 1932 á Akureyri. Hann var þá nýfluttur til landsins eftir margra ára dvöl erlendis, lengstum í Kanada, og hugsaði sér kórinn fyrst og fremst til þess að flytja eigin tónverk. Var Kantötukórinn áberandi í íslensku tónlistarlífi, en hann var starfandi með hléum í liðlega tvo áratugi.
Björgvin, sem fæddur var og uppalinn á Vopnafirði, flutti frá Kanada til Akureyrar ásamt Hólmfríði eiginkonu sinni og dótturinni Margréti haustið 1931 og hóf störf sem söngkennari við Barnaskóla Akureyrar og menntaskólann.
Björgvin Guðmundsson tónskáld
Karlakór Akureyrar og Geysir voru þá báðir starfandi en enginn blandaður kór, fyrir utan kirkjukórinn. Megnið af tónlist Björgvins var skrifuð fyrir blandaðan kór, hann starfaði með slíkum í Vesturheimi og hafði mikinn áhuga á að koma á fót sameiginlegum kór karla og kvenna á Akureyri. Sá draumur Björgvins rættist því strax árið eftir að hann fluttist til bæjarins. Konur fengu þarna kærkomið tækifæri, nokkuð var um nemendur Björgvins í menntaskólanum og barnaskólanum auk þess sem félagar í Geysi gengu til liðs við kór Björgvins, þar á meðal Ingimundur Árnason söngstjóri Geysis og formaður hans, Þorsteinn Þorsteinsson, þótt sá kór héldi jafnframt sínu striki. Áskell Snorrason, stjórnandi Karlakórs Akureyrar, hafnaði hins vegar samstarfi við Björgvin og hans fólks. Stofnaði Áskell raunar fljótlega kvennakórinn Hörpu, en sá varð ekki langlífur.
- Kantötukórinn vorið 1933 þegar hann flutti hátíðarkantötu Björgvins Guðmundssonar við hátíðarljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi í tvígang í Nýja bíói á Akureyri.
- Efsta röð frá vinstri: Kristján Jónsson, Ingimundur Árnason, Þorgeir Gestsson, Örn Snorrason, Steinþór Gestsson, Jakob Hafstein, Unndór Jónsson, Sveinbjörn Finnsson, Gaston Ásmundsson, Stefán Halldórsson og Guðmundur Gunnarsson.
- Önnur röð að ofan, frá vinstri: Páll Jónsson, Gunnar Magnússon, Gunnar Pálsson, Hreinn Pálsson, Hermann Stefánsson, Jón Norðfjörð, Gunnar Jónsson, Snorri Sigfússon, Stefán Gunnbjörn Egilsson, Tómas Tryggvason, Jón Steingrímsson, Sigtryggur Benediktsson, Þorsteinn Þorsteinsson frá Lóni, Friðgeir H. Berg og þeir Sveinn Bjarman og Vigfús Sigurgeirsson við hljóðfærið.
- Næst fremsta röð frá vinstri: Svava Jónsdóttir, Þóra Steindórsdóttir, Brynja Hlíðar, Ingibjörg Jónsdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir Schiöth, María Hallgrímsdóttir, Þórhildur Steingrímsdóttir, Guðbjörg Þorsteinsdóttir, Matthildur Olgeirsdóttir, Guðrún Bíldal, Svava Stefánsdóttir, Anna Steindórsdóttir, Kristín Guðlaugsdóttir og Rósa Þorsteinsdóttir.
- Fremsta röð frá vinstri: Steinunn Jónasdóttir, Lovísa Pálsdóttir, Sigurjóna Pálsdóttir, Þorbjörg Halldórs frá Höfnum (við hljóðfærið), Hulda Benediktsdóttir, Margrét Steingrímsdóttir, Þórunn Þorsteinsdóttir, Ingibjörg Steingrímsdóttir, Sigurjóna Jakobsdóttir, Lára Jóhannsdóttir, Guðrún Jóhannesdóttir, Anna Snorradóttir, Brynhildur Steingrímsdóttir, Rósa Gísladóttir og Filippía Þorsteinsdóttir. Fyrir framan sitja Davíð Stefánsson og Björgvin Guðmundsson.
Upphaf umfjöllunar Dags um flutning Alþingishátíðarkantötunnar í Nýja bíói.
Rúmlega 30 manns mættu á fyrstu æfingu hins nýja kórs Björgvins, 23. október 1932, í Menntaskólanum á Akureyri en eftir töluverðar mannabreytingar sungu 56 á fyrstu tónleikunum, 28 af hvoru af kyni; Alþingishátíðarkantata Björgvins, Íslands þúsund ár, var þá flutt í Nýja bíói, föstudagskvöldið 31. mars 1933. Verkið hafði hann sent í samkeppni sem haldin var í tengslum við Alþingishátíðina 1930. Einsöngvarar á þessum fyrstu tónleikum voru Hermann Stefánsson, Hreinn Pálsson og Gunnar Pálsson. Vigfús Sigurgeirsson og Þorbjörg Halldórs frá Höfnum léku á flygla en Sveinn Bjarman á orgel. Haldnir voru fernir tónleikar og voru viðtökur afar góðar. „Kantatan er stórfellt tónverk. Má óhætt fullyrða, að flutningur hennar er hinn mesti músík-viðburður, sem gerst hefir á Akureyri,“ sagði í lesendabréfi sem birtist í Degi.
Það var svo 7. maí að haldinn var fundur og „samþykkt tillaga þess efnis, að kórinn gerði sig að félagi, sem hefði það að markmiði að flytja íslenska tónlist og þá ekki síst tónlist Björgvins Guðmundssonar. Einnig fékk kórinn nafn sitt á þessum fundi og hét eftir það Kantötukór Akureyrar,“ segir Haukur Ágústsson í bókinni Ferill til frama, ævisögu Björgvins Guðmundssonar.
Margir þekktir söngmenn störfuðu með Kantötukór Akureyrar í upphafi, til dæmis fjórmenningarnir í MA-kvartettinum, bræðurnir Steinþór og Þorgeir Gestssynir frá Hæli, Jón frá Ljárskógum og Jakob Hafstein.
Meira um Kantötukórinn og Björgvin Guðmundsson síðar.