Fara í efni
Menning

Flokkurinn hafði mikil áhrif en hætti svo bara

Baraflokkurinn á tónleikum á Akureyri árið 1983. Frá vinstri: Jón Arnar Freysson, Þór Freysson, Ásgeir Jónsson, Sigfús Óttarsson og Baldvin H. Sigurðsson.

TÓNDÆMI – 43

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net hefur frá því í nóvember 2024 rifjað upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast á miðvikudögum._ _ _

Baraflokkurinn var vinsæll meðal íslenskra ungmenna á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar. Hjómsveitin, sem var sú kunnasta frá Akureyri á þessum tíma, starfaði af miklum krafti frá 1981 til 1984, hélt fjölda tónleika víðs vegar um landið og gaf þá út þrjár hljómplötur.

Fyrsta plata Baraflokksins kom út sumarið 1981 sem fyrr segir og bar nafn hljómsveitarinnar. Þar var boðið upp á nýbylgjurokk, eins og Þór gítarleikari Freysson hefur lýst tónlistinni; stundum var talað um kuldarokk. Næst kom platan Lizt, sumarið 1982; þar var tónlistin á nýrómantískum nótum og á þeirri þriðju, sem kallaðist Gas og kom út 1983, lék hljómsveitin fönkskotna nýbylgju, eða nýrómantík. Upptökustjóri var ætíð sá sami, Tómas M. Tómasson, bassaleikari Þursaflokksins og Stuðmanna. Fyrsta platan var tekin upp í Hljóðrita, sú næsta Grettisgati, hljóðveri Þursaflokksins og sú þriðja í Bray Sound Studio skammt frá Lundúnum.

Ásgeir Jónsson stofnandi og söngvari Baraflokksins. Hér er hann á tónleikum Baraflokksins í Hofi árið 2010. Ásgeir lést árið 2022, aðeins 59 ára að aldri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þekktustu lög Baraflokksins eru: Matter of time af Gas plötunni, Catcher coming af þeirri fyrstu og tvö af Lizt; I don´t like your style og Motion, en það síðastnefnda lék hljómsveitin í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík eftir Friðrik Þór Friðriksson, sem frumsýnd var 1982. Sama sumar lék sveitin á Melarokki, tónlistarhátíð sem fram fór á Melavellinum, gamla íþróttavellinum við Suðurgötu í Reykjavík.

Það var Ásgeir Jónsson söngvari sem stofnaði Baraflokkinn. Fyrstir til samstarfs við hann voru Baldvin H. Sigurðsson bassaleikari og Árni Henriksen trommuleikari, en fljótlega gengu þeir Freyssynir, bræðurnir Þór gítarleikari og Jón Arnar, sem lék á hljómborð, til liðs við bandið.

Árni lék á fyrstu plötu sveitarinnar en hætti síðla árs 1981 og á nýju ári settist Sigfús Örn Óttarsson við trommusettið, einungis 14 ára. Hann er sá eini úr Baraflokknum sem gerði tónlistina að ævistarfi og hefur leikið með nokkrum sveitum, til að mynda Rikshaw, Mannakornum, Jagúar og Stjórninni.

Upphaflegi Baraflokkurinn, frá vinstri: Þór Freysson, Jón Arnar Freysson, Ásgeir Jónsson, Árni Henriksen og Baldvin H. Sigurðsson.

Baraflokkurinn kom fyrst fram 7. mars 1981 í Nýja bíói við Ráðhústorg á Akureyri, ásamt hljómsveitinni Tortímingu og var það í fyrsta skipti í fimm ár sem rokkhljómsveitir á Akureyri tóku sig saman og héldu tónleika. 

Mánuði eftir tónleikana í Nýja bíói kom Baraflokkurinn fram á ný þegar hann lék með Utangarðsmönnum í Dynheimum, Sjallanum og Nýja bíói og ekki leið á löngu þar til Pálmi Guðmundsson tók upp sex lög með hljómsveitinni í hljóðveri sínu, Stúdío Bimbó á Akureyri. Í millitíðinni hafði Bubbi Morthens, sem hafði hrifist mjög af hljómsveitinni, hvatt Steinar Berg til að gefa hljómsveitinni gaum.

„Við sendum þessar prufuupptökur til Steinars Berg í Reykjavík og eftir að við héldum tónleika á Hótel Borg í maí héldum við á fund hans og gerðum plötusamninginn við fyrirtæki Steinars. Í júní tókum við upp fyrstu plötuna okkar í Hljóðrita í Hafnarfirði undir stjórn Tómasar M. Tómassonar, hún kom á markaði í ágúst og seldist ágætlega,“ segir Þór Freysson.

Baraflokkurinn í Hofi árið 2010: Þór Freysson gítarleikari, trommarinn Sigfús Óttarsson, Ásgeir Jónsson söngvari, bassaleikarinn Baldvin H. Sigurðsson og Jón Arnar Freysson hljómborðsleikari. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Baraflokkurinn flutti eins og hann lagði sig til Reykjavíkur haustið 1984 en smám saman fjaraði undan hljómsveitinni. Hún fór í frí um jólin 1984 og það frí stóð í raun alla tíð, þótt hún kæmi einstaka sinnum fram.

Árið 2000 var gefin út safnplatan Zahír og kom hljómsveitin saman á ný af því tilefni og hélt tónleika á veitingastaðnum Gauki á Stöng í höfuðborginni. Þá hafði hún ekki sést á sviði í 16 ár.

Árið 2010 hélt Baraflokkurinn upp á 30 ára afmæli sitt með tvennum eftirminnilegum tónleikum á Akureyri, í menningarhúsinu Hofi og á Græna Hattinum. Á 150 ára afmæli Akureyrarbæjar árið 2012 kom Baraflokkurinn svo enn og aftur fram, á afmælistónleikum í Gilinu, ásamt fleiri akureyrskum hljómsveitum. 

Svanasöngurinn

Baraflokkurinn kom síðast fram með Ásgeir söngvari innanborðs á Græna Hattinum á Akureyri á páskum 2018. Ásgeir lést árið 2022, aðeins 59 ára að aldri.

Svanasöngur Baraflokksins var á tónlistarhátíðinni Eyrarrokki í október á síðasta ári, þar sem hljómsveitin kom fram í minningu Ásgeirs. „Við viljum heiðra minningu Geira og þegar þetta tækifæri bauðst að koma fram á Eyrarrokki þáðum við það með þökkum. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur í Baraflokknum að fá þetta tækifæri til að loka hringnum á Akureyri, 44 árum eftir að bandið varð til þar í þessari útgáfu,“ sagði Þór Freysson gítarleikari hljómsveitarinnar við Akureyri.net í aðdraganda þessa lokadans sveitarinnar.

  • Frétt akureyri.net eftir Eyrarrokk á síðasta ári:

Litríkur lokasprettur Baraflokksins

Baraflokkurinn á tónleikunum í Hofi haustið 2010, þegar 30 ára voru síðan sveitin kom fyrst fram - og 25 ár síðan hún lék síðast í heimabænum. Frá vinstri: Ásgeir Jónsson, Þór Freysson, Baldvin H. Sigurðsson, Sigfús Örn Óttarsson og Jón Arnar Freysson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Meira um Baraflokkinn síðar