Fyrsti barnakórinn sem fór utan í söngferð

TÓNDÆMI – 32
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Barnakór Akureyrar braut blað í tónlistarsögu Íslands árið 1954 þegar haldið var til Noregs í söngferð. Varð hann þar með fyrsti íslenski barnakórinn sem fór úr landi sérstaklega í þeim tilgangi, og vakti mikla athygli í Álasundi, Voss og Bergen.
Björgvin Jörgensson hafði stofnað kórinn við Barnaskóla Akureyrar og stjórnaði. Ferðin kom þannig til að í Álasundi, vinabæ Akureyrar í Noregi, stóð til að setja upp mikla sýningu um allt sem snerti fiskveiðar, formaður sýningarnefndar hafði heyrt í íslenskum barnakór í útvarpinu og hrifist af. Komst svo að því að þetta var hinn akureyrski kór Björgvins og þá fóru hjólin að snúast.
Er kórinn starfandi?
Í óbirtu handriti um ferðina kemur fram að í október 1953 hringdi í kórstjórann Helgi Valtýsson, rithöfundur, sem var búsettur á Akureyri og spurði hvort kórinn væri starfandi þennan vetur og hvort stjórnandanum þætti hann góður að þessu sinni. „Ég var hissa á spurningunni og svaraði að mér fyndist kórinn óvenju góður og ég hefði frábæra einsöngvara. Hann þakkaði fyrir upplýsingarnar og sagðist mundu hafa samband við mig seinna,“ skrifar Björgvin Jörgensson.
Bæjarstjórinn í Álasundi hafði hringt í Helga, kunningja sinn, og beðið hann að grennslast fyrir um málið. Þar ytra vildu menn fyrir alla muni fá kórinn til að koma fram á sýningunni.
Eftir fund með foreldrum barnanna og miklar æfingar um veturinn fóru 29 börn utan ásamt þremur starfsmönnum Barnaskóla Akureyrar og eiginkonum þeirra. Það voru Björgvin kórstjóri og Bryndís Böðvarsdóttir, Hannes J. Magnússon skólastjóri og Sólveig Einarsdóttir, Tryggvi Þorsteinsson, yfirkennari og Rakel Þórarinsdóttir. Flogið var til Óslóar og þaðan haldið með lest til Álasunds.
Kórinn kom fram nokkrum sinnum og hlaut afbragðs undirtektir. Strax fyrsta kvöldið í Álasundi sungu börnin á fiskveiðisýningunni – Fiskerimessen, fyrir nokkur þúsund manns, langtum fleiri en þau höfðu nokkru sinni áður sungið fyrir. Gekk þó allt eins og í sögu. Daginn eftir kom kórinn fram í Alþýðuhúsinu, stærsta samkomuhúsi bæjarins í boði húsmæðrafélags Álasunds. Þar var húsfyllir, og viðbrögðin ekki síðri en kvöldið áður.
Meira um þessa sögulegu ferð í næstu viku
Barnakór Akureyrar 1954, fyrir utanlandsferðina sögulegu.
Aftasta röð frá vinstri: Hildur G. Júlíusdóttir, Ásgerður Ágústsdóttir, Gerður Hannesdóttir, Sigrún Björnsdóttir, Þórunn Árnadóttir, Björgvin Jörgensson, Jóna Edith Burgess, Anna Guðrún Jónasdóttir, Agnes Svavarsdóttir og Dagný Hermannsdóttir.
Næsta röð frá vinstri: Arngrímur B. Jóhannsson, Friðrik Árnason, Engilbert Jensen, Stefán H. Jónasson, Gunnlaugur Guðmundsson, Árni Sigurbjörnsson, Jónas Valgeir Torfason, Ingvi Jón Einarsson, Guðmundur Steingrímsson.
Næst fremsta röð frá vinstri: Sigurjón R. Þorvaldsson, Ásgerður Snorradóttir (veiktist og komst ekki með í utanlandsferðina), Hafliði Ólafsson, Inga Ó. Haraldsdóttir, Sverrir Leósson, Dýrleif Bjarnadóttir, Bergþóra Gústafsdóttir.
Fremsta röð frá vinstri: Valrós Þórsdóttir, Súsanna Möller, Margrét Guðmundsdóttir, Helga Haraldsdóttir, Margrét V. Jónsdóttir.