Fara í efni
Pistlar

Að eldast með reisn

TRÉ VIKUNNAR - XXXVII

Mannfólkið á margt sameiginlegt með öðrum lífverum. Tré eru þar ekki undantekning. Sumt í lífshlaupi manna og trjáa er mjög áþekkt, þótt tré eigi erfiðara með að færa sig úr stað. Við, eins og flest tré, eigum okkar æskuskeið þar sem við vöxum og þroskumst hratt. Með auknum aldri hægir á vexti. Eins með trén. Svo hendir það okkur mörg að þegar við hættum að vaxa „norður-suður“ förum við að vaxa „austur-vestur“. Það geta trén líka gert. Svo eldumst við og eigum það til að verða dálítið hrukkóttari með aldrinum. Sama á við um trén.

Um þennan þroska trjáa og manna verður fjallað í þessum pistli. Fleira er sameiginlegt í þroska okkar og trjánna en til að komast að því hvað það er, er nauðsynlegt að lesa til enda.



Börkur trjáa er mismunandi eftir aldri og tegundum trjáa. Myndin tekin í Pentland Hills í Skotlandi í október 2021. Mynd: Sig.A.

Húðin

Við höfum húð en ekki börk eins og trén. Húðin er stærsta líffæri mannsins og myndar eins konar landamæri milli líkamans og umhverfisins í kring. Hún heldur vökva inni í líkamanum og verndar innri líffærin. Húðin er fyrsta hindrun aðskotaefna, sjúkdóma, baktería og aðskotadýra sem kunna að öðrum kosti að brjótast inn í líkamann. Þetta eru alveg sömu hlutverk og börkurinn hefur hjá trjánum. Ef við værum ekki með húð þá dræpumst við. Það á einnig við um trén. Þegar við vöxum þarf húðin að gera það líka svo við pössum í hana. Þess vegna þurfum við að endurnýja húðina. Sama á við um trén.

Birkið í Leyningshólum myndar klóna eins og hér má sjá. Hver stofn hefur sama erfðaefni og sá næsti. Barkarlitur birkitrjáa getur verið mjög mismunandi, rétt eins og húðlitur okkar manna. Myndir: Sig.A.

Vöxtur og viðhald

Á hverju ári vaxa tré upp á við á sama tíma og stofninn bætir við sig og þykknar. Þetta má sjá með því að skoða árhringi trjáa. Þegar vöxtur hefst á vorin er hann meiri en þegar líður á sumarið. Þessi mikli vöxtur skapar að jafnaði ljósari við. Þegar líður á sumarið hægir á þvermálsvextinum og um leið dökknar viðurinn. Að lokum stöðvast vöxturinn alveg og auðvelt er að sjá þessi skil í viðnum. Þannig má telja árhringi til að áætla aldur trjáa ef og þegar þau eru felld.

 

Bretti úr lerki. Yst má sjá börkinn, síðan kemur ljós viður sem kallast rysja og gulari kjarnviður. Sjá má árhringina en algengara er að sjá þá þegar sneiðin er tekin þvert á stofninn. Þá sjást hringirnir. Mynd: Sig.A.

 

Samanburður á árhringjum trjáa og fingrafari manna. Myndina á The Minds Journal og hefur hún víða birst.

En hvernig fer tréð að því að bæta við sig þvermálsvexti án þess að sprengja „húðina“ (sem við köllum börk) utan af trénu? Það gerir það með stöðugri endurnýjun, rétt eins og mannskepnan gerir með sína húð.

Ysta lag húðarinnar köllum við yfirhúð eða húðþekju. Þar er þunnt hornlag sem að mestu er gert úr dauðum þekjuvefsfrumum. Dýpra eru þær lifandi og skipta sér stöðugt til að endurnýja ysta lagið. Ysta lagið, bæði hjá trjám og okkur, er í raun dautt og við missum dauðar húðfrumur í ótrúlegu magni. Á hverjum degi missum við tugþúsundir húðfruma eða jafnvel enn meira. Svipuð endurnýjun á sér stað hjá trjánum en flyksurnar sem falla af berkinum eru að jafnaði stærri en húðfrumurnar sem við losnum við. Að vísu er þetta mjög misjafnt eftir tegundum trjáa. Sum tré missa næfurþunnar næfrar á meðan aðrar missa þykkari börk. Alltaf eru þó flyksurnar stærri en húðfrumur. Sum tré henda af sér berki sem getur orðið meira en 20 cm í þvermál (Wohlleben 2016 bls. 61-62). Vel má sjá þessar barkarflögur á jörðinni í vel þroskuðum skógum, einkum eftir stórrigningar samfara miklum vindi.

 
Horft upp eftir gömlum stofni lerkitrés ofan við Gömlu gróðrarstöðina. Mynd: Sig.A.

Annað sem er misjafnt á milli trjáa er tímaskalinn sem þessi losun fer fram á. Sum tré henda nánast stanslaust frá sér hluta af ysta laginu. Stundum svo mikið að það liggur við að hægt sé að ráðleggja flösusjampó. Önnur tré eru aðhaldssamari. Vegna þessa verður meiri munur á berkinum milli tegunda með auknum aldri. Hjá mörgum trjám er börkur ungra trjáa mjúkur og sléttur eins og barnsrass en krumpast og springur á ýmsa vegu þegar tréð eldist. Þau tré sem halda unglegum berki lengur eru þau tré sem eru duglegri að losa sig við dauðar frumur. Hin verða hrukkóttari. Sem dæmi má nefna að þintré halda unglegum berki mun lengur en til dæmis furur, sem eru þó af sömu ætt. Eftir því sem tréð er tregara til að endurnýja börkinn, þeim mun sprungnari getur hann orðið með auknum aldri.



Börkur á stóru sitkagrenitré á Eyrinni á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Engum dettur í hug að skaða húð annarra sér til skemmtunar. Það sama ætti að eiga við um tré. Við eigum ekki að skemma börkinn. Eftir því sem sárin eru dýpri (hvort sem er á húð eða berki) þeim mun erfiðara er að græða þau. Mjög sambærilegt ferli fer í stað í líkama okkar og í trjám þegar loka þarf sárum og mikilvægið er alveg það sama.

 
Næfrar (et. næfur) á birki. Þess vegna segjum við að eitthvað sé næfurþunnt. Mynd: Sig.A.

Öldrun húðarinnar

Þegar við eldumst má gera ráð fyrir að húðin taki upp á því að krumpast. Almennt telja fræðimenn að það sé þó ekki endilega öldrunin sjálf sem veldur hrukkumyndun heldur útfjólubláir geislar sólar (Þuríður Þorbjarnardóttir 2003). Að minnsta kosti virðast þeir skipta meira máli en sjálf öldrunin. Því hefur verið haldið fram að það sama eigi við um öldrun barkarins hjá sumum trjám (Wohlleben 2016 bls. 64). Hvað sem því líður á svipað ferli sér stað hjá trjám og okkur. Ung tré hafa oftast sléttan börk en þegar þau eldast myndast hrukkur í börkinn. Þær byrja að jafnaði neðst á stofninum, enda er þar elsti hluti trésins. Svo er æði misjafnt hvernig „hrukkurnar“, sem við gjarnan köllum sprungur, líta út hjá trjám. Oft má greina á milli skyldra trjátegunda á því hvernig stofninn eldist. Má nefna ilmbjarkir og hengibjarkir sem dæmi.

 
Stofnar trjáa geta verið býsna umfangsmiklir. Gaman er að bera þennan stofn saman við stofninn á næstu myndum, en mannlega fyrirmyndin er einstök og ekki hægt að bera hana saman við aðrar mannverur. Mynd: Sig.A. 

Eins og aðrar gerðir öldrunar hefst þessi á misjöfnum tíma. Það á bæði við innan tegunda (rétt eins og hjá mannfólkinu sem allt tilheyrir sömu tegund) og milli tegunda. Sem dæmi má nefna að beyki getur haldið unglegum silfurgráum berki í hundruðir ára. Börkur þeirra flagnar svo mikið að endurnýjunin er hröð. Þar með passar stofninn vel inn í „húðina“ og engar sprungur myndast. Með aldri trjánna dregur úr þessari endurnýjun. Þetta má ekki eingöngu sjá á sprungum og glufum í berkinum, heldur líka á vexti ásæta á trjánum. Þörungar og skófir vaxa miklu frekar á eldri berki en ungum. Þessar ásætur geta stundum verið mikið skraut í skógum og á það bæði við um íslenska og erlenda skóga. Áður hefur verið fjallað um ásætur í skógum, bæði íslenskum og erlendum.

 
Ásætur á eldgömlum gljávíði í Reykjavík. Á yngri trjám endurnýjar börkurinn sig það mikið að erfitt er fyrir ásætur að vaxa. Mynd: Sig.A.

Skalli og grá hár

Hjá mannfólkinu er það ekki bara húðin sem eldist. Hárið gerir það líka. Það gránar með auknum aldri og dettur jafnvel af. Mjög misjafnt er hvenær þetta ferli hefst hjá okkur og ráða þar sennilega bæði erfðir og umhverfi. Það sama á við um trén, þótt þau séu að mestu hárlaus. Við getum samt sagt að laufkróna trjánna minni dulítið á hárið á okkur. Að vísu getum við ekki ljóstillífað með hausnum og stöndum trjánum þar að baki. Margar tegundir lauftrjáa ganga hraðar í gegnum gráháratímabilið en mannfólkið. Þau gera þetta árvisst. Í stað þess að laufin gráni fá þau haustliti. Þeir eru dálítið tilkomumeiri en „haustlitir“ höfuðhára en í báðum tilfellum verður litabreytingin þegar líður á seinni hlutann. Hjá trjánum er það seinni hluti hvers vaxtatímabils en hjá okkur er það haustið í lífi hvers og eins.

 
Haustlitir við Mógilsá. Mynd: Sig.A.
 

Misjafnt er á hvaða aldri hár gránar hjá fólki. Það er líka misjafnt hvenær tré fá haustliti, jafnvel þó þau séu af sömu tegund. Hjá okkur gránar ekki allt hárið jafnt. Aftara reynitréð roðnar ekki allt á sama tíma. Það má segja að það sé með rautt í vöngum. Mynd: Sig.A.

 

Þrjár hengibjarkir sem að öllum líkindum eru úr sömu sáningu. Ein er ekkert farin að gulna, önnur í fullum haustlitum og sú þriðja sköllótt. Mynd: Sig.A. 

 
Mismunandi greinabygging á rauðgreni í Kjarnaskógi sem gróðursett var árið 1953. Þegar rauðgreni eldist fer það gjarnan að láta greinar sínar hanga. Þótt þessi tré séu gróðursett sama árið er aðeins eitt þeirra farið að sýna þetta þroskamerki. Sama má segja um þroskamerki okkar manna sem felast í skalla og gráu hári. Misjafnt er hvort og hvenær þau sjást hjá okkur. Mynd: Sig.A.

Við sem könnumst við það að efsti hluti líkama okkar (hárið) vex ekki eins mikið og áður eigum það sameiginlegt með trjám. Eftir því sem árin færast yfir verður vöxtur toppgreina minni. Að jafnaði gerist þetta þó heldur seinna hjá trjánum en okkur. Oft ekki fyrr en eftir hundrað til nokkur hundruð ár. Greinarnar verða veikari og hættara við að brotna í vindi en þróttmeiri greinar. Smám saman drepast efstu greinar trjánna og falla af. Að auki fara smágreinar smám saman að drepast, hægt og rólega, þegar tréð eldist. Samhliða þessu minnkar geta þess til að flytja næringarefni um tréð. Þetta getum við vel séð á gömlum reynitrjám á Íslandi. Þau eru að fá skalla. Sumt fólk fer í eins konar fegrunaraðgerðir sem felast í því að lita grá hár eða með því að klippa og greiða hárið. Við sendum líka tré í fegrunaraðgerðir. Við gerum það með því að klippa af dauðar greinar. Reyndar lögum við líka stundum vöxt trjáa með svona aðgerðum. Það þekkist líka hjá mannfólkinu.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Hinn fágæti rúmenareynir og ný ættkvísl reynitrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
09. október 2024 | kl. 12:00

Fóa og Fóa feykirófa

Pétur Guðjónsson skrifar
08. október 2024 | kl. 16:30

Danstímar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. október 2024 | kl. 11:30

Heljarstökk í lestri

Jóhann Árelíuz skrifar
06. október 2024 | kl. 11:30

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00