Fara í efni
Íþróttir

2000 manns á leik Þórs og KA í 20 stiga hita

Jafnt í Akureyrarslag. Frá vinstri: Gunnar Gíslason, Árni Þór Árnason og Bjarni Sveinbjörnsson.

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 78

Knattspyrnumenn bæjarins fara víða þessa dagana enda Íslandsmótið í fullum gangi. Gamla íþróttamyndin þessa helgina er úr viðureign Þórs og KA í efstu deild – sem þá kallaðist Samskipadeild – 8. júní árið 1992. Þetta var heimaleikur Þórs og fór fram á Akureyrarvelli. Jafntefli varð, 2:2.

KA-maðurinn Gunnar Gíslason er lengst til vinstri á myndinni, Árni Þór Árnason leikmaður Þórs í miðjunni og lengst til hægri annar Þórsari, Bjarni Sveinbjörnsson. Gunnar hafði leikið erlendis um nokkurra ára skeið en kom heim og þjálfaði KA auk þess að leika með liðinu.

Sigmundur Ó. Steinarsson, þrautreyndur íþróttafréttamaður Morgunblaðsins, brá sér norður og fjallaði um leikinn í blaðinu daginn eftir. Hann skrifaði meðal annars: 

  • 1.908 áhorfendur borguðu sig inn á leik Þórs og KA á aðalleikvanginum á Akureyri, en með árs- og boðsmiðum hafa áhorfendur verið um 2.200. Stór hluti áhorfenda kom rétt fyrir leikinn og varð það til að hundruð áhorfenda stóðu í biðröðum þegar leikurinn hófst og enn voru menn í biðröðum þegar 20 mín. voru búnar af leiknum.“
  • Sigmundur sagði síðan: „Það var eins og leikmenn liðanna vildu bíða eftir að áhorfendur kæmu allir inn á völlinn, áður en þeir færu að skora. KA skoraði á 23. mín. og Þór á 28. mín.“
  • Það var Gunnar Már Másson sem kom KA yfir á 23. mínútu eftir að hann fékk sendingu inn fyrir vörnina og komst einn gegn markverðinum, en Halldór Áskelsson jafnaði fyrir Þór á 28. mín. með glæsilegum skalla eftir aukaspyrnu Sveinbjarnar Hákonarsonar.

Markið er reyndar skráð á Bjarna Sveinbjörnsson á leikskýrslu á vef KSÍ. Dómarinn hefur þar gert mistök og tímabært að KSÍ lagi þá 33 ára gömlu villu! 

  • Árni Þór Árnason náði svo forystu fyrir Þórsara á 36. mín. með föstu skoti utan vítateigs.
  • Gunnar Már Másson skoraði aftur fyrir KA á 57. mín. eftir glæsilegan undirbúning Ormars Örlygssonar. Þar við sat, liðin skildu jöfn, 2:2.

Sigmundur – SOS – birti ýmsa skemmtilega punkta í Morgunblaðinu eftir leikinn:

  • Leikurinn var í þriðju umferð mótsins og Gunnar Már var sá fyrsti sem skoraði hjá Þór í deildinni. Lárus Sigurðsson markvörður Þórs var þá búinn að halda markinu hreinu í 203 mín.
  • „Svo skemmtilega vill til að þeir Gunnar Már og Lárus léku saman hjá Val frá því að þeir voru smápollar, þar til þeir gengu til liðs við  Akureyrarliðin fyrir þetta keppnistímabil,“ skrifaði hann.
  • „Það var ekkert sárt að horfa á eftir knettinum fara framhjá Lárusi - og það í tvígang,“ sagði Gunnar Már eftir leik og bætti við: „Við höfum verið eins og bræður í gegnum árin. Það eiga ekki margir eftir að skora tvö mörk hjá Lárusi, sem er mjög góður markvörður ... “ 
  • Lárus Sigurðsson er sonur Sigurðar Dagssonar, fyrrum landsliðsmarkvarðar úr Val. Sigurður var meðal áhorfenda. Vert er að geta þess að 
  • Hitinn var mikill á Akureyri á meðan leikurinn fór fram, eða um 20 gráður. Leikmenn liðanna notuðu því tímann í þau skipti sem leikurinn var stöðvaður til að fá sér vatnssopa, eða að kæla á sér höfuðið.