Fara í efni
Minningargreinar

Haukur Jóhannsson

Það er komið að kveðjustund sem í mínum huga er óraunveruleg og mjög erfið.

Við Haukur vorum sannir vinir og miklir félagar í fimmtíu og átta ár. Aldrei varð okkur sundurorða og ávallt virtum við skoðanir og vilja hvors annars. Við fundum hvorn annan í Hlíðarfjalli, á unglingsárum, þar sem við vorum við æfingar og keppni á svigskíðum. Við áttum eftir að vera samferða frá þeim tíma og raunar til þess dags er Haukur kvaddi okkur.

Haukur hafði einstaka nærveru, hann var tilfinninganæmur, glaðlyndur, jákvæður og skemmtilegur.

Æfingar og keppni heima og erlendis var ráðandi hjá okkur frá 1970 til 1976 og sumar ferðirnar eru eftirminnilegri en aðrar. Það sem upp úr stendur, hjá mér, er dvöl okkar í Bandaríkjunum, Sun Valley, Idaho, veturinn 1971 til 1972. Þar var leiðbeinandi okkar Magnús Guðmundsson sem þá var skíðakennari í Sun Valley og bjó þar í mörg ár. Hann reyndist okkur í alla staði vel, tveir ungir menn, að læra á lífið án foreldra og vina. Heima áttum við okkar kærustur sem af einhverjum ástæðum biðu eftir okkur félögunum og urðu síðan eiginkonur okkar.

Veturna þar á eftir dvöldum við víða í Evrópu við æfingar og keppni. Við kepptum meðal annars á heimsmeistaramóti í St. Moritz, 1974 og tókum þátt í Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd í Innsbruck 1976. Haukur tók líka þátt í heimsmeistarakeppni í Garmisch Partenkirchen, 1978.

Á vetrar Ólympíuleikunum 1976 kepptu átta Íslendingar, tveir karlar í skíðagöngu, tvær stúlkur í alpagreinum kvenna og síðan fjórir í alpagreinum karla. Það voru Haukur Jóhannsson, Sigurður Jónsson, Tómas Leifsson ásamt undirrituðum, Árna Óðinssyni.

Það tókst með okkur fjórum mikill vinskapur, Sigurður féll frá ungur og nú Haukur. Við Tommi stöndum eftir og gleðjum okkur við frábærar minningar um góða félaga og vini.

Ef fólk fær skíðabakteríuna þá er það til lífstíðar. Við Haukur vorum þar engin undantekning og náðum að smita konur okkar og fjölskyldumeðlimi.

Eftir að við hættum að keppa og fyrstu börnin komin, tók við þetta hefðbundna, gifting, eignast heimili og fleiri börn. Alltaf var vináttan til staðar, mikill samgangur, mikið ferðast, fjallaferðir og útilegur. Í gegnum árin var farið í skíðaferðir erlendis, bæði til Evrópu og Bandaríkjanna. Þessi ár eru ógleymanleg, endalaust fundið upp á nýjum stöðum til að skoða og í minningunni bara gleði og hamingja.

Við fylgdumst með börnum okkar stækka og dafna, gera okkur að öfum og ömmum, við verða eldri og reyndari en alltaf sönn vinátta til staðar.

Það er mín gæfa að hafa átt Hauk sem samferðamann og einstakan vin.

Við Laufey sendum Ragnheiði, Hörpu, Völu, Hauki Heiðari ásamt tengdabörnum og fjölskyldunni allri innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði kæri vinur.

Árni Óðinsson

Haukur Jóhannsson

Gulló, Möggurnar þrjár, Tommi, Siggi og Geiri skrifa
23. janúar 2026 | kl. 10:00

Haukur Jóhannsson

Skíðafélag Akureyrar skrifar
23. janúar 2026 | kl. 06:00

Haukur Jóhannsson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
23. janúar 2026 | kl. 06:00

Haukur Jóhannsson – lífshlaupið

23. janúar 2026 | kl. 05:50

Jóhannes Sigurjónsson

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
16. janúar 2026 | kl. 06:00

Jóhannes Sigurjónsson

Sólveig, Sigrún og Þórdís Sævarsdætur skrifa
16. janúar 2026 | kl. 06:00