Fara í efni
Minningargreinar

Haukur Jóhannsson

Minning og kveðja frá Old boys KA og mökum.

Enn er hoggið skarð í okkar gamla hóp í Old Boys KA og enn þurfum við að sjá á eftir góðum vini og félaga úr þeim hópi. Úr hópi sem hélt saman í yfir 30 ár með vikulegum fótboltatímum á sunnudögum frá því í árdaga KA hússins. Sá tími var festa í lífinu hjá okkur öllum í þau 30 ár. Hópurinn var meira en bara knattspyrnuhópur, hann varð ævilangur vináttuhópur karla og maka sem gerði annað og meira en að spila fótbolta. Hópur sem ferðaðist saman, hélt árshátíðir saman og átti yfir höfuð góðar stundir saman.

Nú kveðjum við enn einn meðlim úr þessum hópi, þann fimmta í röðinni. Þá er svo komið að þeir sem farnir eru ná þeirri tölu að getað skrapað saman í eitt innanhúss lið hið efra ásamt varamanni og vonandi hittast þeir enn á sunnudögum þar.

Haukur var sterkur karakter og mikill gleðigjafi inn í hópinn. Mátti vel heyra ef hann var ekki mættur á æfingu. Fór stundum dálítið fyrir honum og þeir sem ekki þekktu til hans, fannst ef til vill hávaði í kringum hann. En við sem til þekktum skilgreindum þann „hávaða“ekki sem hávaða eða læti enda var þetta ekki eiginlegur hávaða hávaði, „þetta var bara Haukur“. Hlátur og gleði fylgdi honum en hann gat líka verið beinskeyttur og hreinskilinn en það var yfirleitt grunnt á því.

Ef ég gæti dregið upp litla mynd með hljóðupptöku frá típískri sunnudagsæfingu þá mundi þetta glymja um allt KA húsið : Hinni! Tommi! Maggi! Gummi! Jói!, og nafnaruna þegar við átti, úr barka Hauks ef honum þótti menn ekki standa sig í varnar vinnunni fyrir framan sig í markinu. En svo var það bara búið og pottur og öl í góðu bróðerni á eftir.

Við munum virkilega sakna þeirra gleðistunda sem við áttum saman með þeim hjónum, tala nú ekki um Kana kvöldin.

Hann var vinum sínum raungóður, umhyggjusamur og nærgætinn. Það er sárt að kveðja þennan mikla íþróttamann og gleðigjafa svo snemma, því fyrir nokkrum misserum hefði enginn getað trúað því að nokkuð gæti unnið á svona íþróttaskrokki nema sjálf ellin á eðlilegan hátt með tíð og tíma. Það er vel við hæfi að sjálf útförin skuli gerð á sjálfan bóndadaginn.

Við vottum Ragnheiði, Hauki, Hörpu ,Völu og börnum (barnabörnum) okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Old boys KA,

Tómas Lárus Vilbergsson

Haukur Jóhannsson

Gulló, Möggurnar þrjár, Tommi, Siggi og Geiri skrifa
23. janúar 2026 | kl. 10:00

Haukur Jóhannsson

Skíðafélag Akureyrar skrifar
23. janúar 2026 | kl. 06:00

Haukur Jóhannsson

Árni Óðinsson skrifar
23. janúar 2026 | kl. 06:00

Haukur Jóhannsson – lífshlaupið

23. janúar 2026 | kl. 05:50

Jóhannes Sigurjónsson

Sólveig, Sigrún og Þórdís Sævarsdætur skrifa
16. janúar 2026 | kl. 06:00

Jóhannes Sigurjónsson

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
16. janúar 2026 | kl. 06:00