Fara í efni
Mannlíf

Halli gengur og gengur enda gengur honum vel

Halli gengur og gengur enda gengur honum vel

Haraldur Ingólfsson, liðsstjóri kvennaliðs Þórs/KA í fótbolta, vakti athygli fyrri hluta ársins þegar hann tók sig til og hljóp mörg hundruð kílómetra í tilefni fjáröflunarverkefnis liðsins. Að því loknu gat hann ekki hætt, og er enn á ferðinni - nú gangandi!

„Eins og fólk man kannski hófst þetta með því að stjórn Þórs/KA og Hamranna setti af stað sokkasölu til fjáröflunar og ég asnaðist til að segjast ætla að hlaupa einn kílómetra fyrir hvert sokkapar sem stelpurnar seldu. Lengi vel leit út fyrir að þetta yrði létt verk, en svo streymdu auðvitað inn sölutölur rétt fyrir pöntunardag og á endanum voru þetta 310 sokkapör. Ég þurfti því að standa við stóru orðin og hlaupa 310 kílómetra,“ segir Haraldur þegar hann rifjar upp hvernig ævintýrið hófst.

„Formið var ekki frábært og ég var seinn af stað að undirbúa mig, en smátt og smátt mótaðist þetta í kollinum á mér og endaði þannig að ég ákvað að hlaupa þessa vegalengd í aprílmánuði einum. Það kom eiginlega til út af auglýsingagildinu því mér fannst hljóma vel að kalla verkefnið Halli hleypur apríl. Smá tvíræðni og orðaleikur, sem þarf kannski ekki að koma á óvart.“

Kalt bað og heit sturta ...

Eftir nokkra æfingadaga í mars þegar nánast öllu hafði verið skellt í lás í fyrstu covid-bylgjunni var komið að alvörunni. „Ég braut eiginlega allar reglur, tók þetta af meiri krafti og fór hraðar af stað en skynsamlegt var miðað við formið, notaði ekkert sérstakan skóbúnað, hvíldi mig ekki mikið á milli hlaupa og svo framvegis. En einhvern veginn náði ég að þrjóskast í gegnum þetta með því að fara í kalt bað og heita sturtu eftir hvert hlaup, horfa á lokatakmarkið og hugsa eiginlega eingöngu um það að ég mætti ekki bregðast því ég væri að gera þetta fyrir stelpurnar í liðunum. Ég gleymdi að nefna að ég gerði þetta að áheita- og söfnunarhlaupi því meðfram því að hlaupa og leggja saman kílómetrana fór drjúgur tími í að setja inn myndir, myndbönd og hugleiðingar á samfélagsmiðla (Facebook, Instagram, Twitter og Wordpress-síður). Stóra markmiðið var auðvitað að vekja athygli á því hve mikið stelpurnar í liðunum leggja á sig til að afla fjár fyrir rekstur liðanna. Ég vildi styðja við það starf og fá fólk til að styrkja liðin, annað hvort með því að leggja inn á reikning Styrktarfélags Þórs/KA eða með beinu framlagi til mín sem ég myndi koma áfram til félagsins. Söfnunin gekk ágætlega, en á sama tíma gekk einnig bylgja yfir Facebook þar sem fólk hét ákveðinni upphæð til síns félags út frá þeirri athygli sem færsla þeirra fékk og skoraði um leið á nokkra vini. Safnast þegar saman kemur.“

Þúsund mílna þrautin

„Ég náði að klára 310 kílómetrana í apríl, en ákvað þá að halda áfram og bjó til Þúsund mílna þrautina með vísun í lagið I‘m gonna be (500 miles) með The Proclaimers. „I would walk 500 miles, and I would walk 500 more…“ Það gekk ágætlega í fyrstu og ég hélt áfram að hlaupa í maí. En svo þegar fótboltinn fór loksins aftur af stað hafði ég minni tíma fyrir hlaupin og það fjaraði dálítið undan þessu. Aftur þegar fótboltinn stöðvaðist í ágúst tók ég smá kipp. Í apríl hjálpaði það mér líka til að klára þetta að þá var allt lokað vegna covid-19 og ég hafði meiri tíma aflögu en venjulega. Það má eiginlega segja að lokanir vegna covid-19 hafi gefið mér meiri tíma til að hreyfa mig.

Ég var reyndar svo skynsamur þegar ég kláraði hlaupin í apríl og opinberaði Þúsund mílna þrautina að tala ekki beinlínis um að „hlaupa“ og þegar leið á sumarið ákvað ég að nýta mér smáa letrið. „Hlaupa, skokka, ganga…“ varð því að innihaldinu í Þúsund mílna þrautinni. Þegar ég kláraði aprílhlaupið gáfu stelpurnar mér snjallúr og það nýttist mér þegar ég gerði upp Þúsund mílna þrautina.“

Haraldur hafði ákveðið að „fara“ þúsund mílur – 1.609 kílómetra – áður en Íslandsmóti kvenna lyki. Þegar leið að lokum Íslandsmótsins, sem eftir ítrekaða endurröðun, voru á dagskrá 17. október, ákvað hann að nýta sér tæknina og skoða hve mikið hann hafði gengið í daglegum verkefnum þá daga sem hann hafði ekkert hlaupið. „Kveikjan að því var meðal annars að ég var gerður að sóttvarnafulltrúa í kringum leikina hjá Þór og Þór/KA. Ég tók eftir því að á leikdegi gekk ég 15-18 kílómetra samkvæmt fína úrinu mínu. Ég fór ekkert skipulega út að ganga, en alls konar stúss í kringum fótboltaliðin og margt fleira sem tengist Þórssvæðinu, varð að nokkurra kílómetra göngu flesta daga.“

Þegar grannt var skoðað kom í ljós kom að frá 1. apríl til 17. október hafði Haraldur hlaupið 760 kílómetra, en þá daga sem hann hljóp ekkert hafið hann gengið samtals um 850 kílómetra. „Þarna er allt talið með, salernisferðir, búðarölt, stúss í kringum leiki og annað… bara öll hreyfing. Þannig lauk ég Þúsund mílna þrautinni þó það hafi ekki verið alveg eins og ég hugsaði í upphafi.“

Gengur allar götur bæjarins

„Um leið og þúsund mílurnar voru komnar inn í excel-skjalið fór ég að huga að næsta verkefni. Mér finnst það nefnilega auðvelda mér að hreyfa mig og halda mér við efnið að hafa eitthvað svona markmið eða mælanlegt verkefni til að vinna að. Allar götur Akureyrar (AgA) varð niðurstaðan. Fyrst hafði ég í huga að hlaupa allar götur Akureyrar, en eftir að hafa tognað smávægilega í kálfa í hádegisfótbolta ákvað ég að ganga allar götur Akureyrar. Tognunin er ekki lengur til staðar, en ég ætla að klára þetta gangandi.

Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá verkefnisstjóra mælinga á tæknideild Akureyrarbæjar er samanlögð lengd gatna bæjarins – malbik, möl, hellur – rúmlega 143 kílómetrar. En gangan verður heldur lengri því oft geng ég sömu göturnar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Samkvæmt excel-skjali sem ég fékk eru skráðar götur og götuspottar Akureyrar 348. Inni í því eru hesthúsahverfin tvö samtals 14 götuheiti, en ég býst við að sleppa þeim. Á listanum eru líka nokkrir spottar heim að stökum húsum sem ég geri ráð fyrir að sleppa. Þetta eru því um 330 götur, en mögulega er ég einnig búinn að ganga nokkrar götur í Hagahverfi sem eru ekki komnar inn í kerfið enn.“

Verkefninu hyggst Haraldur ljúka á sunnudaginn, 15. nóvember

„Af hverju 15. nóvember? Af því að núna er aftur í gangi sokkasala og síðasti pöntunardagur er 15. nóvember. Þá veit ég hve mikið stelpurnar hafa selt af sokkum og hugmyndin er að gera eins og í vor, hlaupa einn kílómetra fyrir hvert selt par og klára það fyrir jól. Vonandi verður svo aftur sokkasala á nýju ári svo ég geti aftur hlaupið apríl.“

_ _ _ _ _

Götur Hagahverfis, þriðja og síðasta áfanga Naustahverfis, eru nefndar eftir kunnum bæjarbúum. Myndin af Haraldi er tekin við Wilhelmínugötu, eins og sjá má. Wilhelmína Lever var fyrsta konan sem kaus í bæjarstjórnarkosningum á Íslandi, 31. mars 1863, nítján árum áður en konur fengu kosningarétt.

Á vef Héraðsskjalasafnsins á Akureyri segir m.a. um Wilhelmínu að hún hafi verið einkar vel gáfuð og í mörgu tilliti fágæt afbragðskona, „framkvæmdar- og starfssöm, veglynd og fús til hjálpar og velgjörðarmóðir margra fátækra og munaðarlausra.“

Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarréttindi 1862 og skv. nýrri reglugerð var kosið til bæjarstjórnar 31. mars 1863. Skv. reglugerðinni höfðu kosningarétt allir fullmyndugir menn („alle fuldmyndige Mænd“), sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borguðu a.m.k. 2 ríkisdali í bæjargjöld. Vilhelmína var með sjálfstæðan rekstur, féll undir öll þessi ákvæði og er efst á blaði á fyrstu síðu í kjörbókinni. Í danska textanum átti orðið „Mænd“ örugglega að þýða karlmenn en vegna þess að í íslenska textanum stóð „menn“ en ekki „karlar“ fékk Vilhelmína að kjósa.