Meistaramót Íslands í víðavangshlaupi 1958

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 97
Heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum lýkur um helgina í Japan og því er tilvalið að dusta rykið af gamalli frjálsíþróttamynd að þessu sinni. Hér má sjá keppendur á Íslandsmótinu í víðavangshlaupi sem fram fór á Akureyri í maí 1958; víðavangshlaupi Meistaramóts Íslands, eins og það var kallað.
Kapparnir hlupu 3100 metra; keppni hófst á Akureyrarvelli, íþróttavellinum við Hólabraut, hlaupið þvers og kruss um Eyrina út undir Slippstöðina og þaðan aftur upp á völl. Sigurvegari varð hinn landskunni hlaupagarpur Kristján Jóhannsson úr ÍR, margfaldur Íslandsmeistari og methafi í langhlaupum á þessum tíma.
Kristján fór vegalengdina á 10 mínútum og 3 sekúndum. Annar varð Jón Gíslason UMSE á 10,34,0 mín., þriðji KA-maðurinn Guðmundur Þorsteinsson á 10,40,2 mín. og fjórði Guðmundur Hallgrímsson UÍA á 10,56,0 mín.
Keppendur voru sjö og eru á myndinni ásamt Stefáni Gunnarssyni ræsi. Frá vinstri: Stefán Gunnarsson, Jón Gíslason UMSE, Kristján Jóhannsson ÍR, Stefán Árnason UMSE, Matthías Gestsson KA, Guðmundur Þorsteinsson KA, Ingólfur Hermannsson Þór og Guðmundur Hallgrímsson UÍA.