Glæsilegur ferill hófst á bronsuðum tunnustöfum
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 110
Haukur Jóhannsson, einn besti skíðamaður Akureyringa, lést í vikunni eftir erfið veikindi. Hann er á gömlu íþróttamyndinni þessa helgina; á fleygiferð í stórsvigi.
Haukur varð fyrst Íslandsmeistari í fullorðinsflokki árið 1972 þegar keppt var á Ísafirði; hann kom heim með þrenn gullverðlaun eftir sigur í svigi, alpatvíkeppni og flokkasvigi. Árið eftir varð hann aftur þrefaldur Íslandsmeistari, 1974 og 1975 varð Haukur Íslandsmeistari í stórsvigi, 1977 og 1978 Íslandsmeistari í flokkasvigi ásamt félögum sínum í sveit Akureyrar, 1979 varð hann Íslandsmeistari í alpatvíkeppni og 1980 í stórsvigi og alpatvíkeppni.
Haukur keppti tvívegis á heimsmeistaramóti, í St. Moritz í Sviss árið 1974 og Garmisch Parenkirrchen í Þýskalandi 1978. Þá tók Haukur þátt í Ólympíuleikunum í Innsbruck í Austurríki 1976.
Haukur steig ungur á skíði fyrsta sinni, fjögurra eða fimm ára. „Pabbi bjó til mín fyrstu skíði þau voru úr tunnustöfum sem voru bronsaðir og bindingarnar voru úr rauðu slöngugúmmíi!“ sagði Haukur í bókinni Skíðakappar fyrr og nú sem Akureyringurinn Haraldur Sigurðsson sendi frá sér árið 1981.
Í bókinni segir Haukur að fyrstu kynni hans af skíðum hafi verið í „Gilinu svokallaða,“ Búðargili í Innbænum, steinsnar frá æskuheimili Hauks. Ólympíufarinn Magnús Brynjólfsson leiðbeindi fjölmörgum ungum bæjarbúum undirstöðuatriði í brekkunum í Gilinu. „Það var hann sem kom mér á bragðið að fara að stunda skíðin fyrir alvöru,“ segir Haukur í bókinni. Maggi Binna keppti á Ólymíuleikunum í St. Moritz 1948.
Haukur tók fyrst þátt í skíðamóti 12 ára gamall, Akureyrarmótinu, í fyrsta skipti sem hann fór í Fjallið. „Ég fékk að vera með fyrir náð og miskunn og var mér bætt aftan við en það voru um 20 keppendur. Mér gekk vel, ég varð númer þrjú og fékk ég þarna minn fyrsta verðlaunapening, og það var mikil gleði þegar ég kom heim með hann,“ segir hann í bók Haraldar.
- Myndin af Hauki er tekin í stórsvigskeppni Hermannsmótsins í Hlíðarfjalli í apríl 1981. Það mót var haldið árum saman, kennt við Hermann Stefánsson, þann mikla íþróttafrömuð á Akureyri.