Fara í efni
Íþróttir

Margrét gulldrottning á Íslandsmótinu 1973

Akureyringar voru sigursælir á Skíðalandsmótinu sem fram fór á Siglufirði um páskana árið 1973. Fulltrúar höfuðstaðar Norðurlands hlutu alls 9 gullverðlaun, 6 silfur og 4 brons – 19 verðlaun alls. Næstir komu Siglfirðingar með 12 verðlaun, þar af fern gullverðlaun.

  • Akureyrsku konurnar á myndinni voru í aðalhlutverkum, skipuðu sér í öll möguleg verðlaunasæti á mótinu! Frá vinstri: Guðrún Frímannsdóttir, Margrét Þorvaldsdóttir, Margrét Baldvinsdóttir og Margrét Vilhelmsdóttir.
  • Tvær þær síðarnefndu eru bræðradætur; feður þeirra voru tvíburarnir Vilhelm og Baldvin Þorsteinssynir, kunnir skipstjórar á árum áður og Vilhelm síðar lengi forstjóri Útgerðarfélags Akureyringa.

Margrét Baldvinsdóttir var fremst í flokki allra keppenda á Siglufirði 1973; sannkölluð gulldrottning mótsins. Hún sigraði fyrst í stórsvigi með miklum yfirburðum, nafna hennar Þorvaldsdóttir varð önnur og þriðja Guðrún Frímannsdóttir.

Sigur Margrétar Baldvinsdóttur í svigi var einnig öruggur, Margrét Þorvaldsdóttir varð önnur og Guðrún Frímannsdóttir nældi í önnur bronsverðlaun sín, varð þriðja eins og í stórsviginu.

Margrét Baldvinsdóttir sigraði vitaskuld einnig í alpatvíkeppni og varð Íslandsmeistari í flokkasvigi. Það gefur auga leið hverjar skipuðu sveit Akureyrar ásamt henni: Margrét Vilhelmsdóttir, Margrét Þorvaldsdóttir og Guðrún Frímannsdóttir.

Haukur Jóhannsson fékk þrenn gullverðlaun á mótinu; sigraði í svigi, varð annar í stórsvigi og sigraði alpatvíkeppni. Þá var Haukur í sigursveit Akureyrar í flokkasvigi ásamt Árna Óðinssyni, Viðari Garðarssyni og Jónasi Sigurbjörnssyni.

Annar Akureyringur, göngugarpurinn Halldór Matthíasson, varð tvöfaldur Íslandsmeisti, sigraði bæði í 15 og 30 km göngu.