Fara í efni
Íþróttir

Handboltaslagur KA og Þórs í Skemmunni 1976

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 92

Handboltamenn eru komnir á ferðina, æfingamóti sem kennt er við KG sendibíla lauk í KA-heimilinu í dag, og Íslandsmótið hefst snemma í næsta mánuði. Upplagt er af því tilefni að gamla íþróttamyndin að þessu sinni sé úr leik Akureyrarliðanna sem fram fór í Íþróttaskemmunni á Oddeyri – Skemmunni, eins og hún var gjarnan kölluð – í desember árið 1976 þegar bæði liðin léku í 2. deild, næstu efstu deild Íslandsmótsins. Svo gleðilega vill til að þau leika bæði í efstu deild í vetur.

KA sigraði með fimm marka mun í umræddum leik árið 1976, 23:18. Á myndinni tekur KA-maðurinn Guðmundur Lárusson vítakast en Þórsarinn í markinu er Gunnar Jóhannsson. Fyrir aftan eru, frá vinstri, Elías Jónasson sem þjálfaði og lék með Þór, Þorbjörn Jensson og KA-maðurinn Alfreð Gíslason. Þorbjörn og Alfreð voru síðar lengi samherjar með landsliðinu.

Áhorfendur fjölmenntu alltaf í Skemmuna þegar liðin mættust og stemningin var ósjaldan rafmögnuð. Í umfjöllun Akureyrarblaðsins Íslendings sagði einmitt: „Það er alltaf mikil spenna í loftinu þegar þessi lið mætast og úrslitin aldrei ráðin fyrirfram.“ Sigur KA hafi þó verið öruggur í þetta sinn og hefði getað orðið stærri.

Oft var býsna hart var tekist á í Skemmunni á þessum árum og síðari hluti eftirfarandi setningar úr Íslendingi gæti jafnvel fengið einhvern til þess að brosa: „Það óhapp varð í leiknum, að Þorleifur Ananíasson, besti línumaður KA og þó víðar væri leitað, fingurbrotnaði og verður tæplega með á næstunni. Leikurinn var að mestu prúðmannlega leikinn, a.m.k. þegar miðað er við hvaða lið áttust við ...“