Frjálsíþróttamenn á Akureyrarvelli

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 90
Gamli, góði íþróttavöllurinn við Hólabraut – Akureyrarvöllur – var mörgum kær um árabil en það fallega svæði hefur að mestu verið ónotað síðustu ár. Það iðar hins vegar af lífi í dag og á morgun á meðan fjölskylduhátíðin Ein með öllu stendur yfir. Tónlistarveislan Öll í einu er þar í kvöld og annað kvöld verða þar Sparitónleikar, sem svo eru kallaðir, og að þeim loknum flugeldasýning Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri.
Því er tilvalið að gamla íþróttamyndin að þessu sinni sé tekin á Akureyrarvelli. Þarna er hópur frjálsíþróttamanna saman kominn og á miða sem myndinni fylgdi er ritað Maí boðhlaup. Nokkrir þessara kappa eru auðþekktir; á myndinni eru til dæmis Leifur Tómasson, Einar Helgason, Jón Stefánsson, Stefán Haukur Jakobsson (Dúddisen), Skjöldur Jónsson og Garðar Ingjaldsson. Sumir reyndar þekktari sem knattspyrnumenn, en hér titlaðir frjálsíþróttamenn vegna tilefnisins ...
Kannast lesendur við fleiri á myndinni? Jafnvel hvenær hún gæti verið tekin og af hvaða tilefni? Gaman væri að fá ábendingar á netfangið skapti@akureyri.net.