Íþróttir
Fjörutíu ár frá fyrstu torfæru á Norðurlandi
23.08.2025 kl. 06:00

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 93
Íslandsmótinu í torfæru lauk fyrir viku þegar síðasta keppni ársins, Motul-torfæran, fór fram á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Svo skemmtilega vill til að á morgun eru nákvæmlega 40 ár síðan fyrsta torfærukeppni á Norðurlandi fór fram. Það var sunnudaginn 24. ágúst árið 1975 sem Bílaklúbbur Akureyrar efndi til torfæru við bæinn Glerá; uppi í Krúsum, eins og svæðið var gjarnan kallað á þeim tíma.
„Keppnin er fyrsta sinnar tegundar á Norðurlandi og er búist við þó nokkurri þátttöku jeppaeigenda af svæðinu. Keppnin hefst klukkan tvö síðdcgis á sunnudag og er öllum heimilt að fylgjast með keppninni,“ sagði í Akureyrarblaðinu Íslendingi fimmtudaginn 21. ágúst. „Aðgangseyrir er 100 kr. Að sögn Steindórs G. Steindórssonar, formanns Bílaklúbbsins, verður keppnin bæði torfærukeppni og þá ekki síður góðaksturskeppni, þar sem keppendur eiga að leysa ákveðnar akstursþrautir. Sigurvegari í keppninni hlýtur fagran bikar í verðlaun.“
Svo fór að Steindór formaður sigraði í keppninni. Íslendingur frá torfærunni
Íslendingur fjallaði um keppnina 28. ágúst. Umfjöllunin hefst með þessum orðum:
„Á annað þúsund áhorfendur fylgdust með torfæru- og góðaksturskeppninni, sem Bílaklúbbur Akureyrar efndi til sl. sunnudag við bæinn Glerá. Keppendur voru 8 jeppaeigendur, en sigurvegari varð Steindór G. Steindórsson, sem er formaður Bílaklúbbsins. Hlaut hann 163 stig, en hann ók bifreiðinni A-2537; Jepster, árg. ’67.“
Meðfylgjandi mynd er úr safni Íslendings, tekin á upphafsárum torfæru norðan heiða en ekki er ljóst hvort hún er frá fyrstu keppninni 1975 því engar myndir birtust með umfjöllun um hana. Gaman væri að vita hvort bílaáhugamenn beri kennsl á jeppann, geti upplýst um hver ökumaðurinn er og helst hvaða ár myndin er tekin.