Fara í efni
Íþróttir

Fimm fræknir bræður ýmist í KA eða Þór!

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – IX

Níunda gamla íþróttamyndin birtist á Akureyri.net í dag lesendum til skemmtunar. Þarna eru fimm fræknir bræður á Akureyri fyrir 43 árum.  Sá sem þetta skrifar tók myndina, 17 ára fréttaritari íþróttadeildar Morgunblaðsins og hún birtist fyrst í blaðinu 8. janúar árið 1980. Einn bræðranna, Alfreð Gíslason, sú mikla handboltagoðsögn er í eldlínunni þessa dagana á Evrópumótinu í handbolta í Þýskalandi sem landsliðsþjálfari gestgjafanna.

Allir voru bræðurnir landsliðsmenn í íþróttum og tveir þeirra meira að segja í tveimur greinum! Foreldrar þeirra voru þekktir íþróttamenn í bænum og ekki er síður skemmtilegt að ekki var einhugur í fjölskyldunni þegar kom að því að velja sér íþróttafélag. Foreldrarnir voru báðir Þórsarar, tveir sonanna sömuleiðis en þrír í KA! Lilja, eina systirin, er Þórsari.

Í aftari röðinni eru, frá vinstri:

Hjörtur Gíslason landsliðsmaður í ólympískum lyftingum og spretthlaupum. Hjörtur er Þórsari og stundaði lyftingar í nafni félagsins en hljóp hins vegar undir merkjum Knattspyrnufélags Akureyrar, enda voru frjálsíþróttir á Akureyri einungis stundaðar á vegum KA á þessum tíma.

Alfreð Gíslason, þarna upprennandi handboltastjarna með KA, einn efnilegasti leikmaður Íslands og síðar mikill afreksmaður í íþróttinni, bæði sem  leikmaður og þjálfari. Hann var á sínum tíma atvinnumaður bæði í Þýskalandi og á Spáni og hefur náð stórkostlegum árangri sem þjálfari, með KA, Magdeburg og THW Kiel í Þýskalandi. Þá stýrði hann íslenska landsliðinu um tíma og er nú þjálfari Þýskalands sem fyrr segir. Alfreð er eini Akureyringurinn sem kjörinn hefur verið Íþróttamaður ársins á Íslandi og annar tveggja Akureyringa sem  útnefndir hafa verið í Heiðurshöll ÍSÍ. Hinn er glímukappinn Jóhannes Jósefsson (1883 - 1968).

Gunnar Gíslason sem á þessum tíma lék bæði með handknattleik og knattspyrnu með KA og var síðar landsliðmaður í báðum greinum. Hann lék sem atvinnumaður í knattspyrnu bæði í Noregi og Svíþjóð, þar sem hann er nú búsettur.

Fyrir framan:

KA-maðurinn Garðar Gíslason, til vinstri, og Þórsarinn Gylfi Gíslason, báðir unglingalandsliðsmenn í ólympískum lyftingum á þessum tíma og síðar landsliðsmenn í fullorðinsflokki, margfaldir methafar og meistarar.

Sumir í KA, aðrir í Þór!

Móðir bræðranna, Aðalheiður Alfreðsdóttir, lék handbolta með Þór á yngri árum og Gísli Bragi Hjartarson stundaði margar íþróttir en keppti einkum í frjálsíþróttum og á skíðum. Síðar meir stunduðu hjónin bæði golf af miklum krafti.

Það hefur ætíð þótt skemmtilega athyglisvert að hluti fjölskyldunnar skyldi vera í KA en aðrir í Þór. Gísli Bragi var spurður um þetta í tilefni birtingar myndarinnar nú. „Ég var í stjórn Þórs og öll börnin voru skráð í Þór,“ segir hann. Bætir við að Aðalheiður kona hans hafi verið af Eyrinni; „úr Fjólugötunni, sem var sterkasta vígi Þórs.“

Þau hjón byggðu sér síðan hús á Brekkunni. „Þegar við byggðum í Hamragerðinni var ansi erfitt að segja þeim að fara í Þorpið til æfinga. Gunni lét sig hafa það í ein tvö ár en sótti svo um að mega ganga í KA!“ segir Gísli Bragi og bætir við að Páll frændi strákanna hafi gefið Gunna fótboltaskó fyrir vikið!

Ef lesendar luma á skemmtilegum íþróttasögum af þessari frábæru íþróttafjölskyldu má gjarnan senda þær á netfangið skapti@akureyri.net. Tilgangurinn með birtingu þessara gömlu íþróttamynda er ekki bara að gleðja lesendur heldur einnig að safna upplýsingum af öllu tagi um sögu íþrótta á Akureyri.