Fara í efni
Íþróttir

Rúnar – öflug skytta og frábær varnarmaður

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 109

Rúnar Sigtryggsson var um miðjan desember ráðinn þjálfari þýska handboltaliðsins HSG Wetzlar sem leikur í efstu deild þar í landi. Hann er á gömlu íþróttamyndinni að þessu sinni; í leik með Þór í íþróttahúsi Glerárskóla seint á níunda áratugnum, 15 eða 16 ára gamall.

Rúnar fæddist í apríl 1972 og er því á 54. aldursári. Hann er einn besti handboltamaður sem Akureyringar hafa eignast. „Klókur og útsjónarsamur leikmaður sem lék bæði sem skytta og leikstjórnandi. Rúnar las leikinn vel, var skotviss og sækinn,“ sagði íþróttafréttamaðurinn gamalreyndi, Sigmundur Ó. Steinarsson, í grein um Rúnar á handbolti.is sumarið 2023 og má til sanns vegar færa. Sigmundur bætti við: „Þá var hann öflugur varnarmaður, sem var ekki þekktur fyrir að gefa tommu eftir. Þessa hæfileika nýtti Rúnar sér og hann fór að þjálfa. Lét ekki æsing slá sig út af laginu, var yfirvegaður.“

Góð skytta – frábær varnarmaður

Rúnar var mjög öflug skytta á sínum tíma en seinni árin einkum þekktur sem frábær varnarmaður, bæði með landsliðinu og t.d spænska liðinu Ciudad Real þar sem hann varð Evrópubikarmeistari vorið 2003. Rúnar lék með landsliðinu á árunum 1993-2004, sem leikmaður Vals, Göppingen í Þýskalandi, Hauka, Ciudad Real og þýska liðsins Wallau Massenheim; hann tók alls þátt í 121 landsleik og skoraði 105 mörk skv. upplýsingum Sigmundar.


Rúnar steig fyrstu skrefin sem leikmaður í meistaraflokki með Þór en gekk í raðir Valsmenna þegar hann hélt til náms í Reykjavík árið 1993, 21 árs að aldri, og varð Íslandsmeistari á fyrsta ári. Hann hefur einnig leikið með Víkingi og Haukum hér heima og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með Hafnarfjarðarliðinu.

Ungur að árum lék Rúnar einn vetur með Bjerringbro í Danmörku, undir stjórn Jan Larsen sem áður hafði þjálfað bæði KA og Þór á Akureyri. Í Þýskalandi lék Rúnar með Göppingen, Wallau Masseheim og ThSV Eisenach og hóf þjálfaraferilinn þegar hann tók við stjórn þess síðastnefnda haustið 2004 þegar þjálfarinn var rekinn.

Rúnar kom heim árið 2005 til að þjálfa og leika með Þór og var síðan fyrsti þjálfari Akureyrar, sameiginlegs liðs Þórs og KA sem sett var á laggirnar sumarið 2006. Hann lék jafnframt með liðinu. Rúnar hélt utan á ný sumarið 2012 og tók við þjálfun EHV Aue í Þýskalandi. Þar í landi hefur einnig þjálfað Eisenach, sem fyrr segir, Balingen-Weilstetten og Leipzig.

Mikil handboltafjölskylda

  • Faðir Rúnars, Sigtryggur Guðlaugsson, lék á árum áður með Þór við góðan orðstír. Árni, yngri bróðir Rúnars, var einnig mjög góður leikmaður sem lék með Þór, Haukum, Granollers á Spáni, Akureyri, þýsku liðunum Dormagen, TV Bittenfeld, TSG Griesenheim og EHV Aue, Val, Haukum og Stjörnunni.
  • Heiða Erlingsdóttir, eiginkona Rúnars, var mjög góð handboltakona. Hún varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingi í tvígang og tók á sínum tíma þátt í 57 leikjum með A-landsliði Íslands.
  • Í ljósi ættarsögunnar er ekki að undra að synir Rúnars og Heiðu hafi lagt handbolta fyrir sig. Sigtryggur Daði, sá eldri, er nú í herbúðum ÍBV en lék á sínum tíma með þýsku liðunum EHV Aue og Balingen-Weilstetten undir stjórn föður síns og síðan með Lübeck-Schwartau.
  • Yngri sonur Rúnars og Heiðu er Andri Már – sem er nú á leið á fyrsta stórmótið með A-landsliði Íslands. Hann er í leikmannahópnum fyrir EM sem fram fer í Svíþjóð, Danmörku og Noregi og hefst í næstu viku. Andri Már, sem er 23 ára, leikur með Erlangen í efstu deild í Þýskalandi.
  • Þess má að geta að haustið 2023 varð Rúnar fyrsti íslenski þjálfarinn til að stjórna syni sínum í leik í efstu deild í Þýskalandi; Andri Már lék þá undir stjórn pabba síns hjá Leipzig.