Evrópuævintýri ÍBA 1970 endaði ekki vel

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 89
Lið Íþróttabandalags Akureyrar tók þátt í Evrópukeppni í knattspyrnu, fyrst akureyrskra liða. ÍBA varð bikarmeistari 1969 – sjá upprifjun hér – með sigri á liði Skagamanna og tók þátt í Evrópukeppni bikarhafa haustið 1970. Upplagt er að rifja upp það ævintýri í tilefni þess að KA er í eldlínunni þessa dagana; KA gerði jafntefli við Silkeborg í Danmörku í vikunni og fær danska liðið í heimsókn næsta fimmtudag.
ÍBA dróst gegn FC Zürich frá Sviss og fóru báðir leikirnir fram ytra; ÍBA seldi sem sagt heimaleikinn eins og kom fyrir á árum áður. Óhætt er að segja að ÍBA hafi mætt ofjörlum sínum. Svisslendingarnir unnu fyrri leikinn 7:1 þar sem Kári Árnason gerði mark ÍBA á 69. mínútu og seinni leikinn vann lið Zürich 7:0.
Fyrri leikurinn fór fram í Zürich en sá seinni í St. Gallen sem er um 90 km frá fyrrnefndu borginni. Skv. fréttum voru um 15.000 áhorfendur á fyrri leiknum en um 2.000 manns mættu á þann seinni.
Myndin er tekin í Sviss í Evrópuferðinni.
Aftari röð frá vinstri: Aðalsteinn Sigurgeirsson, Gunnar Austfjörð, Pétur Sigurðsson, Viðar Þorsteinsson, Skúli Ágústsson, Magnús Jónatansson, Númi Friðriksson, Valsteinn Jónsson og Hermann Gunnarsson, þjálfari og leikmaður.
Fremri röð frá vinstri: Steinþór Þórarinsson, Þormóður Einarsson, Kári Árnason, Árni Stefánsson, Samúel Jóhannsson, Sævar Jónatansson, Eyjólfur Ágústsson og Árni Gunnarsson.