Fara í efni
Íþróttir

Eggert skoraði úr 23 vítaköstum í röð

Mynd: Skapti Hallgrímsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 101

Eggert Tryggvason, tvítugur hornamaður í handboltaliði í KA, vakti mikla athygli veturinn 1986 til 1987 fyrir það hve hann var örugg vítaskytta. Eggert gerði sér þá lítið fyrir og skoraði úr 23 vítaköstum í röð í efstu deild Íslandsmótsins. Hann tók til dæmis níu víti í leik KA og Stjörnunnar í Garðabæ í desember og skoraði úr þeim öllum.

  • Á myndinni svífur Eggert inn af línunni þegar KA vann Val örugglega, 28:23, í Íþróttahöllinni á Akureyri um miðjan nóvember. Markvörður Vals er Elías Haraldsson en útileikmennirnir, frá vinstri, Júlíus Jónasson (Val), Jón Kristjánsson (KA), Eggert, Geir Sveinsson (Val) og Pétur Bjarnason (KA).

Það vakti auðvitað athygli þegar Eggerti brást loks bogalistin eftir frábæra framgöngu, og enn meiri en ella vegna þess að hann gat þá tryggt KA jafntefli gegn toppliði FH á heimavelli eftir að leiktíminn var runninn út en Magnús Árnason varði vítakastið og FH vann, 23:22.

„Yfirleitt ákveð ég ekki hvar ég skýt fyrir fram en núna var ég því miður búinn að því. Ætli 24 verði ekki óhappatala mín hér eftir,“ sagði Eggert við Morgunblaðið eftir leikinn. 

DV spjallaði við Eggert daginn eftir leik og þar sagðist leikmaðurinn ungi „nokkum veginn búinn að jafna [sig] eftir þetta vítakast. Mér leið ekkert sérstaklega illa þegar ég gekk að vítalínunni og það má vera að ég hafi verið of rólegur.“

Blaðamaður DV spurði KA-manninn hvort dagurinn eftir leik hefði ekki verið erfiður. „Voru ekki allir að tala um vítakastið?“ var spurt.

„Ég held að hver einasti maður sem ég talaði við í gær hafi minnst á þetta blessaða vítakast. Nei, ég hef ekki verið skammaður. Það er frekar að menn hafi verið að votta samúð sína.“

Eggert sinni vitaskuld áfram „starfi“ vítaskyttu KA eftir FH-leikinn og hélt sínu striki. Hann skoraði t.d. úr öllum þremur vítunum í næsta leik.