Fara í efni
Íþróttir

Búið að nafngreina alla ungu KA-strákana

Ljósmynd: Páll A. Pálsson

Þessi stórskemmtilega mynd birtist á Akureyri.net í lok síðasta mánaðar sem 11. gamla íþróttamyndin, og ekki leið á löngu þar til búið var að nafngreina alla strákana. 

Í aftari röð eru, frá vinstri, Arnar Einarsson þjálfari, Kristján Kristjánsson, Hreinn Þormar, Erlingur Kristjánsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Jakob Jóhannsson, Ólafur Harðarson og Jóhannes Gunnar Bjarnason. Fremri röð frá vinstri: Pétur Ólafsson, Jón Árni Jónsson, Jakob Kristinsson, Friðfinnur Hermannsson og Ormarr Örlygsson.

Myndin er að öllum líkindum tekin haustið 1972 þegar strákarnir voru í 6. flokki, níu og 10 ára gamlir, nýbúnir að sigra Þórsara 2:0 á gamla moldarvellinum austan við Akureyrarvöll, í leik um Akureyrarmeistaratitilinn, að því er einn þeirra telur.

Þarna eru margir kunnir kappar. „Það má segja að eitthvað hafi orðið úr þessum litlu drengjum!“ sagði einn úr hópnum þegar hann skoðaði myndina.

Erlingur Kristjánsson varð Íslandsmeistari með KA bæði í knattspyrnu og handknattleik og var meira að segja fyrirliði beggja liða. Hann lék nokkrum sinnum með A-landsliðinu í knattspyrnu og það gerði Ormarr Örlygsson einnig. Friðfinnur Hermannsson, sem lést langt fyrir aldur fram, lék einnig lengi með knattspyrnuliði KA og Kristján Kristjánsson, kunnur útvarps- og sjónvarpsmaður, kom þar einnig við sögu.

Guðmundur Baldvin lék lengi handbolta með KA en er kunnastur í seinni tíð sem bæjarfulltrúi á Akureyri um árabil. Jakob Jóhannsson er yfirlæknir á Landspítalanum

Ólafur Harðarson var kunnur skíðamaður á árum áður, Jóhannes Gunnar Bjarnason lék handbolta með KA, sat lengi í bæjarstjórn Akureyrar en er án efa þekktastur sem handboltaþjálfari – hann er sigursælasti yngri flokka þjálfara í sögu KA.

Pétur Ólafsson lék blak með KA á sínum tíma og varð Íslandsmeistari. Hann er nú hafnarstjóri á Akureyri. Jón Árni Jónsson keppti í landsliðsflokki í skák og Jakob Kristinsson spilaði bridge í landsliðsflokki.