Fara í efni
Tré vikunnar

Vorboðinn ljúfi

TRÉ VIKUNNAR - 136

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Skógarþröstur, Turdus iliacus, hefur löngum verið með vinsælustu fuglum landsins. Um það vitnar meðal annars fjöldi ljóða og vísa þar sem hann kemur fyrir. Í sumum þessara ljóða skipar fuglinn stóran sess en í öðrum er hann nefndur eins og í framhjáhlaupi. Í þessum pistli segjum við frá því helsta sem tengist fuglinum en við reynum að gera það sem mest frá sjónarhorni skálda.
 
Það er við hæfi að fyrsta mynd þessa pistils sýni skógarþröst að hefja sig til flugs þótt óvíst sé að pistillinn nái nokkru flugi. Fuglinn  flýgur af árssprota stafafuru 9. júní 2025. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Það er við hæfi að fyrsta mynd þessa pistils sýni skógarþröst að hefja sig til flugs þótt óvíst sé að pistillinn nái nokkru flugi. Fuglinn flýgur af árssprota stafafuru 9. júní 2025. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Vorboðinn ljúfi

Sennilega er ljóð Jónasar Hallgrímssonar þekktast allra ljóða um skógarþröstinn. Því er rétt að byrja á því.

 

Ég bið að heilsa
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
 

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum 

um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer, 

með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín,

heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

 
Svo orti Jónas Hallgrímsson vorið 1844 og mun þetta vera fyrsta sonnettan sem ort er á íslensku. Löngu seinna samdi Ingi T. Lárusson lag við þetta fagra ljóð sem flestir þekkja. Til er uppkast að þessu kvæði sem sjá má hér. Þar stendur ekki „Vorboðinn ljúfi“ heldur „Söngvarinn ljúfi“. Vissulega er skógarþrösturinn ljúfur söngvari en hvílík breyting á ljóði! Svona gera bara stórskáld. Rétt er að geta þess að Jónas nefnir skógarþresti víðar en í þessu kvæði. Alþekkt vísa eftir hann er hér neðar og í kvæðinu Gunnarshólma segir hann: „Blikar í lofti birkiþrastasveimur“. Meðan einu skógar landsins voru birkiskógar breytti ekki miklu hvort talað var um skógarþresti eða birkiþresti.
 
Ljúfur vorboði í birkitré sem er við það að verða fulllaufgað. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Ljúfur vorboði í birkitré sem er við það að verða fulllaufgað. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Vegna þessa ljóðs Jónasar hefur skógarþrösturinn verið nefndur vorboðinn ljúfi, allt frá miðri 19. öld. Einhverra hluta vegna vilja sumir, sumar og sumt krýna lóuna með þessum titli en skáldin eru því ósammála, þótt hún eigi vissulega sinn stað í hjarta þjóðarsálarinnar. Páll Ólafsson fagnaði komu hennar og sagði:

Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vaka og vinna
vonglaður taka nú sumrinu mót.

Hvernig nútíma Íslendingi getur dottið í hug að kalla svona skipandi fugl vorboðann ljúfa er mikið undur. Vorboðinn ljúfi er skógarþröstur en ekki hin fagra lóa sem vill koma í veg fyrir að við sofum. Það er ekkert ljúft við það. Þetta er ekki eina dæmið um tilraun lóunnar til að yfirtaka sess skógarþrastarins. Þótt furðulegt sé hefur hún líka, ef marka má uppskrift ljóða, reynt að stela af honum tungumálinu. Meira um það hér neðar. Rétt er þó að geta þess, lóum og skáldum til varnar, að þegar rétt er farið með er lóan blásaklaus af þessum meintu glæpum. Það er almannarómur sem drýgir þá.

Fleiri skáld en Jónas vita að þrösturinn er vorboði. Þannig orti Guðjón Sveinsson, skáld og skógræktarmaður á Austurlandi, ljóð sem kallast Vorkoma. Það hefst á orðunum: Þrestirnir eru komnir/þreyttir að sjá.

Skógarþröstur í berjaveislu í reynitré 20. október 2024. Þrestir hafa öðruvísi litasjón en við. Þeir greina útfjólublátt ljós sem við gerum ekki. Þeim líkar hreint ekki við rauð eyniber en þeim mun betur kunna þeir að meta þegar þau taka á sig útfjólubláan lit. Þann lit sjáum við ekki og höldum því að berin séu enn þá bara rauð. Þetta mun vera meginástæða þess að þrestir velja sum tré á undan öðrum. Berin hafa annan lit en við greinum hann ekki. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Skógarþröstur í berjaveislu í reynitré 20. október 2024. Þrestir hafa öðruvísi litasjón en við. Þeir greina útfjólublátt ljós sem við gerum ekki. Þeim líkar hreint ekki við rauð eyniber en þeim mun betur kunna þeir að meta þegar þau taka á sig útfjólubláan lit. Þann lit sjáum við ekki og höldum því að berin séu enn þá bara rauð. Þetta mun vera meginástæða þess að þrestir velja sum tré á undan öðrum. Berin hafa annan lit en við greinum hann ekki. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Líffjölbreytileiki í skógum

Sigurður Arnarson skrifar
22. október 2025 | kl. 20:00

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

Sigurður Arnarson skrifar
15. október 2025 | kl. 10:00

Hin einmana eik eyðimerkurinnar

Sigurður Arnarson skrifar
08. október 2025 | kl. 15:00

Saga elris

Sigurður Arnarson skrifar
01. október 2025 | kl. 10:00

Haust- og vetrarundirbúningur trjáa

Sigurður Arnarson skrifar
24. september 2025 | kl. 07:30

Blásitkagreni

Sigurður Arnarson skrifar
17. september 2025 | kl. 08:30