Fara í efni
Tré vikunnar

Af hverju hanga greinar hengibjarka?

TRÉ VIKUNNAR - 149

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Í góðri bók stendur: „Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá“. Það verður þó að segjast eins og er að það á ekkert endilega vel við um margar þeirra trjátegunda sem vaxa á Íslandi. Í sumum tilfellum væri hægt að segja: „Af greinunum skulið þér þekkja þau“.
 

Í þessum stutta pistli veltum við fyrir okkur hvað kunni að hafa ýtt undir þá þróun að greinar á mörgum hengibjörkum hanga niður og gefa þeim þetta sérstæða útlit sem einkennir þær. Fyrst skoðum við ættkvíslina aðeins og veltum fyrir okkur hvort og hvernig eiginleikar, eins og hangandi greinar, geta færst á milli skyldra tegunda.

Hengibjörkin frú Margrét er eitt glæsilegasta tréð í Kjarnaskógi og er í kortasjá Skógræktarfélags Eyfirðinga. Skógræktarfélag Íslands valdi það sem tré ársins árið 2009. Myndir: Sig.A.

Birkiættkvíslin

Hengibjarkir, Betula pendula, tilheyra birkiættkvíslinni, Betula. Á Íslandi tilheyra tvær villtar tegundir ættkvíslinni. Það eru ilmbjörkin, B. pubescens, sem oftast er bara nefnt birki og fjalldrapi, B. nana. Nokkrar aðrar tegundir hafa verið reyndar í garð- og skógrækt á Íslandi og er hengibjörkin þeirra algengust. Hún hefur tvö fræðiheiti. Annað þeirra er algengara og talið hið rétta. Það er B. pendula. Hitt fræðiheitið er svokallað samheiti og er B. verrucosa. Fyrra heitið vísar augljóslega í þann eiginleika að greinarnar hanga niður eins og pendúll. Seinna fræðiheitið vísar í það að á greinunum vaxa ekki hár eins og á ilmbjörkinni (pubescens vísar í það) heldur eru á þeim litlar vörtur. Vörtubirki er ekki mjög söluvænlegt heiti og að auki eru nokkrar aðrar tegundir birkis með svipaðar vörtur á árssprotum. Því er fyrra heitið af mörgum talið miklu betra en það seinna. Ekki er þó endilega víst að svo sé því til eru hengibjarkir sem hafa ekki þetta drjúpandi vaxtarlag. Sérstaklega á það við eftir því sem austar er komið á útbreiðslusvæðinu.

 
 

Litningar og erfðaflæði

Komið hefur í ljós að litningafjöldi hengibjarka og fjalldrapa er sá sami. Báðar tegundirnar eru ferlitna en ilmbjörkin er tvílitna. Samt er það svo að fjalldrapi og ilmbjarkir mynda auðveldlega blendinga á Íslandi. Erfðaflæði á milli þessara tegunda er algengt eins og sjá má á íslensku birki. Reynslan sýnir að erfðaflæði getur einnig orðið milli ilmbjarka og hengibjarka en í sumum tilfellum verða þá til ófrjóir einstaklingar eins og algengt er þegar til verða blendingar milli tegunda. Í öðrum tilfellum geta blendingarnir orðið frjóir (Ashburner & McAllister 2013). Hér er grein um tré sem virðist vera ófrjór blendingur ilmbirkis og hengibirkis.

 
Ilmbjörkk með slútandi greinar í Síðuhverfi á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Ilmbjörk með slútandi greinar í Síðuhverfi á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Hengibjörk í janúarsól í Skotlandi. Greinarnar hanga niður, rétt eins og á íslenska birkinu í Síðuhverfi hér að ofan. Hvernig stendur á því? Mynd: Sig.A.
Hengibjörk í janúarsól í Skotlandi. Greinarnar hanga niður, rétt eins og á íslenska birkinu í Síðuhverfi hér að ofan. Hvernig stendur á því? Mynd: Sig.A. 

Svo er að sjá sem ákveðnir eiginleikar hafa erfst á milli tegunda og borist í íslenska birkið. Hugsanlegt er að í einhverjum tilfella geti fjalldrapinn virkað sem eins konar erfðabrú og flutt erfðaefni frá hengibirki yfir í ilmbirki, því litningafjöldi fjalldrapa og hengibjarka er sá sami. Þannig geta frjó borist frá Norðurlöndum til Íslands og lent á fjalldrapa og hugsanlega laumað erfðaefni inn í erfðamengi birkis á Íslandi.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
 

Meira á vef Skógræktarfélagsins. Smellið hér til að sjá allan pistilinn

 

ʻŌhiʻa Lehua

Sigurður Arnarson skrifar
21. janúar 2026 | kl. 10:00

Runnkennt elri til landgræðslu - Seinni hluti: Tegundir

Sigurður Arnarson skrifar
14. janúar 2026 | kl. 09:45

Runnkennt elri til landgræðslu - Fyrri hluti: Almennt

Sigurður Arnarson skrifar
07. janúar 2026 | kl. 10:00

Skógarpöddur

Sigurður Arnarson skrifar
31. desember 2025 | kl. 06:15

Hástig líffjölbreytni: Skóglendi

Sigurður Arnarson skrifar
24. desember 2025 | kl. 06:00

Gamla-Gróðrarstöðin og garðyrkjuskólinn sem aldrei varð

Sigurður Arnarson skrifar
17. desember 2025 | kl. 10:00