Fara í efni
Tré vikunnar

Slútbirkið í Minjasafnsgarðinum

TRÉ VIKUNNAR - LXXXIV

Við Minjasafnið á Akureyri er ljómandi fallegur garður sem á sér merka sögu. Vel má halda því fram að hann sé safngripur í sjálfu sér og í raun ein af perlum safnsins. Ræktun hófst þar um þarsíðustu aldamót. Í fyrstu var garðurinn trjáræktarstöð og þar voru ýmsar trjátegundir reyndar. Við vitum hvaða tré er þar að finna en við vitum ekki hvaðan einstök tré komu upphaflega, því þarna voru reynd bæði innflutt og innlend tré. Seinna munum við segja meira frá þessum merkilega garði en nú fjöllum við fyrst og fremst um eitt ákveðið tré í honum.

 

Horft til birkisins innan úr Minjasafnsgarðinum.

Til að setja hlutina í samhengi verðum við að nefna tvö önnur tré í garðinum, svona í framhjáhlaupi. Títt er um tré að þau nái mestum þroska í brekkurótum. Þar er að jafnaði ferskur jarðraki og gott aðgengi að næringarefnum. Það vill svo til að í garðinum er nokkuð stór brekka. Árið 2000 mældist í garðinum hæsta birkitré landsins sem þá var 14,7 metrar á hæð og einnig hæsta reynitréð. Það var 14,3 metra hátt. Árið 2012 var birkið orðið 15,1 m Þessi tré standa nokkuð þétt við brekkuræturnar en eru ekki endilega fegurstu trén í garðinum.

 

Við Þórunnarstræti á Akureyri er hljóðmön. Þar hefur greni verið plantað. Þar má sjá að eftir því sem grenið er ofar í möninni, þeim mun minni vöxtur að jafnaði. Þar er þurrara en neðar í brekkunni. Sama fyrirbæri má sjá víða, til dæmis við brekkuræturnar í Minjasafnsgarðinum. Mynd: Sig.A.

Nálægt aðalhliðinu að garðinum stendur glæsilegt birki með hangandi greinar. Það er lægra en stóra birkið í brekkurótunum og mældist 12 metrar á hæð veturinn 2024. Þótt það sé ekki hæsta birkið í garðinum er það eitt af glæsilegri birkitrjám bæjarins.

Öll þessi þrjú tré má finna í kortasjá Skógræktarfélags Eyfirðinga en þessi pistill fjallar um tréð við innganginn. Það er sett í 1. flokk á kortasjánni, en hin tvö í 2. flokk.

Vetrarmynd og vormynd af þessu glæsilega tré.
Lýsing
 

Þetta er glæsilegt birkitré, Betula pubescens Ehrh., með hangandi greinar. Svona slútandi greinar eru algengari á hengibjörkinni, B. pendula Roth., en þetta er ekki hengibjörk, heldur venjuleg ilmbjörk. Það sést á stofninum, lögun laufblaða og smágreinum. Þær eru hærðar á ilmbjörkinni en með litlar vörtur á hengibjörkinni. Svona vaxtarlag á birki er samt ekkert einsdæmi í bænum eins og sagt verður frá hér aðeins neðar.

 

Horft upp í krónu birkisins. Fallegar skófir vaxa á berkinum. Þær er fyrst og fremst að finna á hliðinni sem snýr í vestur.

Stofninn er einn og beinn upp í tæplega 3,5 metra hæð. Eftir það myndar tréð tvo stofna. Á milli þeirra er kjörið hreiðurstæði fyrir skógarþresti og má sjá þá þarna nánast á hverju vori. Þar má einnig oft sjá litlar reyniplöntur sem þrestirnir hafa sáð þarna í tréð. Þær verða ekki mjög langlífar en það er nánast árvisst að sjá þarna tré uppi í trénu, en vorið 2024 voru þar tveir dauðir sprotar.

Þar sem þetta birki stendur stakstætt eru engin önnur tré sem aflaga vöxt þess. Því breiðir það vel úr sér og hefur stóra og mikla krónu. Áður fyrr þrengdu önnur tré að birkinu en eftir að þau voru felld nýtur þetta tré sín mun betur.


Enn er hægt að fá sér tesopa í laufskjóli greina í Minjasafnsgarðinum eins og tíðkaðist snemma á síðustu öld. Fremst til vinstri er stofninn á tré vikunnar. Ummál stofnsins í brjósthæð mældist 125 cm veturinn 2024.
 
Slútbirki
 

Í gögnum frá árdögum garðsins sést að þar var bæði ræktað innflutt birki og birki af íslenskum uppruna. Þetta tré hefur sennilega verið gróðursett nálægt aldamótaárinu 1900 en ekki kemur fram í eldri gögnum hvaðan þetta tiltekna tré er ættað. Vel kann að vera að það sé ættað úr Vaglaskógi en þar þekkist þetta vaxtarlag á birki. Hér í bænum má finna ilmbjarkir með þetta vaxtarlag og höfum við meðal annars sagt frá einu svona slútbirki sem gengur undir nafninu Sniðgötubirkið og er algerlega einstakt. Í þessum pistli er fjallað um svona slútbirki á Eiðsvelli og til eru enn fleiri með slútani greinar. Vel kann að vera að þessar bjarkir á Akureyri, sem og nokkrar aðrar með slútandi greinar, eigi ættir að rekja til sérvaldra trjáa í Vaglaskógi.

 

Þetta fagra birki stendur við hliðið að garðinum.

Svo getur vel verið að þetta tré hafi vaxið upp af norsku fræi sem ef til vill var sérstaklega valið vegna þessa vaxtarlags. Við vitum þetta ekki. Tvenn rök mæla með því að birkið sé innflutt. Í fyrsta lagi má nefna að þrátt fyrir háan aldur er birkið enn mjög unglegt. Íslenskt birki er að jafnaði orðið fremur hrörlegt þegar nálgast fer aldarafmælið. Þetta tré sýnir aftur á móti engin ellimerki. Hitt atriðið er að þetta tré fer fremur seint í haustliti. Það gæti bent til suðlægari uppruna en Vaglaskógar. Þess vegna hallast sá er þetta ritar frekar að því að þetta tré sé innflutt.

 

Mynd af Minjasafnsgarðinum frá því snemma í október 2017. Þarna er birkið fyrir miðri mynd og skilti ber í krónu þess. Það er enn fagurgrænt þótt flest önnur tré séu komin í haustliti. Meðal annars má sjá heiðgult birki í hólmanum til vinstri á myndinni. Þetta gæti bent til suðlægs uppruna slútbirkisins.

Stundum hefur komið til tals hvort markaður kunni að vera á Íslandi fyrir svona slútandi vaxtarlag á ilmbjörk. Vel má reyna að safna fræi af slútbirki og sá því og kanna hvort einhverjir afkomendanna fái þennan vöxt. Það er samt alveg óvíst að það komi í ljós fyrr en eftir um tvo áratugi og þá verður ef til vill aðeins hluti trjánna með vaxtarlagið sem sóst var eftir. Því getur verið vandkvæðum bundið að rækta svona tré upp af fræi fyrir íslenskan markað. Aftur á móti kemur vel til greina að græða greinar af svona trjám á stofna af venjulegu birki. Þá ætti að verða tryggt að trén fái þetta vaxtarlag. Tíminn leiðir í ljós hvort þetta verður reynt og hvort almenningur vill eignast svona tré.

 

Þetta er óneitanlega glæsilegt tré. Hvort það óx upp af íslensku eða innfluttu fræi breytir engu um það.

Birkið í árdaga 
 

Talið er að þetta birki geti verið allt að 120 ára gamalt. Það sýnir samt engin ellimerki. Það stendur á áberandi stað og vekur athygli. Þannig hefur það ekki alltaf verið. Sem dæmi má nefna í ljómandi góðri grein um garðinn eftir Bjarna E. Guðleifsson í Skógræktarritinu árið 2002 var þessa trés að engu getið. Þess er heldur ekki getið í bæklingnum Merk tré á Akureyri sem gefinn var út árið 2005. Samt eru innan við tveir áratugir frá því að hann var prentaður og tréð var því að nálgast 100 ára afmæli sitt á þeim tíma. Rétt er að geta þess að áðurnefnd kortasjá Skógræktarfélagsins er hugsuð sem lifandi arftaki þessa bæklings.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Fundarafmæli falinna furðutrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
25. september 2024 | kl. 10:00

Skógar sem vatnsdælur

Sigurður Arnarson skrifar
18. september 2024 | kl. 10:30

Lífviður frá Asíu

Sigurður Arnarson skrifar
11. september 2024 | kl. 09:45

Fyrr og nú við vatnsleiðslu

Sigurður Arnarson skrifar
04. september 2024 | kl. 08:50

Þyrniættkvíslin

Sigurður Arnarson skrifar
28. ágúst 2024 | kl. 10:10