Saga elris

TRÉ VIKUNNAR - 132
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Ættin
Elri telst til bjarkaættar, Betulaceae. Innan þeirrar ættar eru meðal annars birkitegundir eins og ilmbjörk, Betula pubescens, og fjalldrapi, B. nana. Birkiættkvíslin og elriættkvíslin eru taldar náskyldar en aðrar ættkvíslir ættarinnar, svo sem hesli, Corylus, og agnbeyki, Carpinus, eru fjarskyldari. Nokkur atriði eru mjög lík á meðal tegunda innan allrar ættarinnar en í þessum pistli berum við fyrst og fremst saman birkiættkvíslina og elriættkvíslina, enda eru þær meira ræktaðar hér á landi en aðrir fjölskyldumeðlimir ættarinnar. Fyrst nefnum við samt að blöð trjáa í öllum þessum ættkvíslum eru nokkuð lík. Þau eru alltaf stakstæð, einföld og hjá flestum tegundum eru þau áberandi sagtennt.

Hjá öllum tegundum innan ættarinnar eru blómin einkynja en bæði kynin birtast á sömu trjánum. Stundum finnast þess dæmi að sum tré myndi mjög mikið af annarri tegundinni en sáralítið af hinni. Karlreklar elris eru nauðalíkir birkireklum og því miður er sami ofnæmisvaldur í birkifrjói og elrifrjói. Þó er sá munur á reklum birkis og elris að reklar elrisins eru að jafnaði lengri. Oftast eru þeir gulir eða gulbrúnir en hjá sumum tegundum þekkjast rauðir frjóreklar.

Flestar tegundir elris er með allra fyrstu trjátegundum til að blómgast á vorin. Á Íslandi hanga útsprungnir karlreklarnir stundum á trjánum strax í mars. Þeir eru ekki langlífir en mjög áberandi. Þótt nær allar tegundir elris blómgist snemma getur verið nokkur munur milli tegunda. Runnakennda elrið á Íslandi blómgast um leið og það laufgast á meðan gráelri og skyldar tegundir blómgast mjög snemma. Sú tegund sem talin er blómgast fyrst heitir A. subcordata. Hún er sennilega of suðræn fyrir okkar loftslag enda vex tegundin sunnan við Kaspíahaf. Hún á það til að opna karlreklana strax í desember þar sem hún er ræktuð í Evrópu, samkvæmt vefsíðunni Trees and Shrubs Online.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Blásitkagreni

Svartþröstur

Arnold Arboretum

Elri. Hjálplegt, gagnlegt og fallegt
