Skógarpöddur
TRÉ VIKUNNAR - 145
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Skógarvistkerfi eru ofin úr mörgum þáttum. Á þessum vettvangi höfum við mest talað um tré, enda eru þau mest áberandi í skógum. Að auki höfum við fjallað um vatnið í skóginum, jarðveginn, runna og aðrar plöntur, sveppi, bakteríur, skógarfugla og önnur dýr svo fátt eitt sé nefnt. Nú ætlum við sérstaklega að skoða pöddur í skóginum. Þetta umræðuefni hefur áður borið á góma. Við viljum benda áhugasömum á þennan pistil um lífið í skógarmoldinni, tvo pistla um skaðvalda á birki sem sjá má hér og hér og pistil um sitkalýs. Í þessum stutta pistli er meiningin að skoða skordýralífið og annað pöddulíf almennt án þess að kafa djúpt í þessi fræði. Okkar helsta heimild er kafli sem heitir Skógarvistkerfið sem Edda Sigurdís Oddsdóttir (2014) skrifaði í bókina Heilbrigði trjágróðurs. Að sjálfsögðu notum við einnig afganginn af bókinni og við getum vel mælt með henni fyrir áhugafólk um skógarvistkerfi og pöddur.

Skógarvistkerfi
Vistkerfi er hugtak sem nær yfir lífverur hvers svæðis (stundum kallað líffélag) og lífvana umhverfi þeirra. Auk trjáa er skógurinn heimkynni fjölda annarra lífvera og þar má finna skjól, raka og næringu. Lífrænu efnin, sem trén og annar gróður mynda fyrir tilstilli ljóstillífunar, eru ekki bara í lífverum, jarðvegi og stofnum, greinum og rótum trjáa, heldur mynda þau rotnandi lag ofan á jörðinni. Allt þetta myndar undirstöður fyrir flókna fæðuvefi í skóglendinu. Þar gegna allskonar pöddur lykilhlutverki.

Fyrsta stigs neytendur (stundum kallaðir grasætur), bæði úr hópi hryggdýra og hryggleysingja éta börk trjáa, fræ, ber, lauf og annan gróður í skóginum. Þessar lífverur geta svo verið fæða fyrir annars stigs neytendur (stundum kallaðir afræningjar eða kjötætur) í vistkerfum. Annars stigs neytendur eru fæða fyrir þriðja stigs neytendur sem aftur mynda fæðu fyrir þau dýr sem eru ofar í fæðukeðjunni. Þannig verða til fjórða- og jafnvel fimmta stigs neytendur og svo koll af kolli. Ef við fetum okkur frá frumframleiðendum til fyrsta stigs neytenda, þaðan til annars stigs neytenda og svo áfram er talað um fæðukeðju. Hægt er að sýna fleiri leiðir orku og næringar í gegnum líffélagið og er þá talað um fæðuvef. Svo verður það hlutskipti allra þessara lífvera að hrörna og drepast, að hluta eða í heild. Þá kemur að sundrendum sem koma næringarefnunum aftur í hringrásina.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn
Gamla-Gróðrarstöðin og garðyrkjuskólinn sem aldrei varð
Gráþröstur
Helstu elritegundir
Strandrauðviður