Gráþröstur
TRÉ VIKUNNAR - 142
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _


Heimkynni
Gráþröstur verpir í skógum og kjarrlendi í Norður- og Mið-Evrópu og í Asíu. Varp hans hefur einnig verið staðfest í Skotlandi og á Grænlandi að sögn Aðalsteins Arnar Snæþórssonar og Jóns Geirs Péturssonar (1992). Engu að síður telst hann ekki til árlegra varpfugla þar.
Þegar gráþrestir koma til Íslands í flokkum á haustin halda þeir gjarnan til í skógum eins og þeir eiga kyn til en stundum má sjá þá í mólendi þar sem skóga vantar. Yfir veturinn má oftast rekast á gráþresti í trjálundum og görðum víða um land. Auk þess sjást þeir stundum í fjörum.


Á Bretlandseyjum er mikill fjöldi trjáa og runna sem myndar ber. Það eru fyrst og fremst þessi fjölbreyttu ber sem gráþrestir éta yfir veturinn á þeim slóðum. Hér á landi duga berin sjaldnast sem fæða yfir allan veturinn. Þegar þrengist um fæðu og snjór hylur jörð sækir fuglinn í fjörur og tekur þar ýmsar pöddur eða að mannabústöðum þar sem fuglum er gefið. Stórir almenningsgarðar þar sem fæðu er að finna, eins og í Lystigarðinum á Akureyri, verða þá vinsælir. Þar hefur mátt sjá gráþresti á hverjum vetri í allmörg ár. Þar sem þeim er gefið verða þeir heimaríkir og verja svæðið af hörku ef þeir telja sig þurfa þess. Flestir smáfuglar víkja fyrir gráþrestinum en svartþrösturinn gerir það ekki enda eru þeir svipaðir að stærð. Upphefjast þá áflog og læti.

Varpheimkynni tegundarinnar er á breiðu belti frá Skandinavíu og austur um Evrópu og Asíu (Jóhann Óli 2025). Fuglinn verpir einnig í Mið-Evrópu þar sem hann er staðfugl eins og sést á kortinu hér að ofan. Í Skandinavíu er varptíminn frá fyrri hluta maí og fram í júní. Algengt er að hann verpi tvisvar á sumri en eftir því sem norðar dregur aukast líkurnar á að hann verpi aðeins einu sinni á hverju sumri. Hann verpir nær alltaf í trjám eða runnum.

Vist
Kjörlendi gráþrastarins er í fjölbreyttu skóglendi. Hann verpir í greni-, furu-, birki- og elriskógum og í allskonar blandskógum. Sérstaklega ef í skógunum er ríkulegur undirgróður. Oft má finna þröstinn við læki og ár en hann er sjaldnar í þéttum og dimmum skógum. Hann verpir nær alltaf í trjám en á það til að ferðast út fyrir skógana eftir varp. Hér á landi finnur hann stundum æti í fjörum og er þá víðs fjarri skógum. Hann er ákaflega hrifinn af hvers kyns berjum en getur einnig tekið fæðu á jörðu niðri eins og frændi hans skógarþrösturinn (Aðalsteinn og Jón Geir 1992).


Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn
Strandrauðviður
Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti
Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun
Ástand lands og landlæsi – Fyrri hluti: Staðan