Runnkennt elri til landgræðslu - Fyrri hluti: Almennt
TRÉ VIKUNNAR - 146
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Jú, það er hægt. Reyndar eru ættkvíslirnar fleiri en ein. Við höfum meira að segja sagt frá heilli ættkvísl nú þegar sem getur þetta. Það er elriættkvíslin eða Alnus.

Í þessum pistli skoðum við hóp runna sem tilheyra elriættkvíslinni og geta vaxið þar sem fá tré ná einhverjum þroska. Ástæðan er fyrst og fremst þetta sambýli við örverur sem vinna nitur. Um þessa ættkvísl setti Philip Vogler saman þessa vísu:
Þar sem lítum svarta sanda,
sorfið grjót og áfoksvanda
virðist Alnus öflug planta
og ennþá meir á Fróni vanta.
Við skiptum pistlinum í tvo hluta. Í þeim fyrri, sem hér má sjá, fjöllum við almennt um þessa runna eða þetta kjarr og hvar kjarrið er að finna en í þeim seinni segjum við frá helstu tegundum og undirtegundum. Við komumst samt ekki hjá því að nefna fáeinar tegundir í þessum pistli en þó enn frekar undirtegundir og við vonum að okkur fyrirgefist það.

Elriættkvíslin
Í fyrri elripistlum okkar sögðum við frá því að elri er náskylt birki. Þó er sá meginmunur á að elrið lifir í sambýli við gerla sem vinna nitur beint úr andrúmsloftinu og breyta því í form sem elrið getur nýtt sér. Gerlar þessir heita Frankia alni og mynda sérstök hnýði á rótunum þar sem vinnslan fer fram. Það er þessi niturbinding sem gerir að verkum að elri getur vaxið ljómandi vel á mjög rýru landi. Elritegundir eru því gjarnan frumbýlingar sem í fyllingu tímans víkja fyrir stærri og kröfuharðari tegundum. Þetta er eiginleiki sem gerir elritegundir mjög áhugaverðar í landgræðslu og skógrækt. Í þessum pistli, sem fjallar almennt um elritegundir, sögðum við frá því að nánast allt elrikjarr tilheyrir undirættkvísl sem kallast Alnobetula. Innan hennar er ein stórtegund, Alnus alnobetula, sem skipt er í margar undirtegundir. Þetta er sá hópur ættkvíslarinnar sem talinn er skyldastur birkinu. Þegar við tölum um runnkennt elri til landgræðslu er það að mestu leyti þessi safntegund sem átt er við. Ekki liggur að fullu fyrir hvar ein tegund, fjallaelri, Alnus maximowiczii, lendir því hún tilheyrir ekki safntegundinni A. alnobetula en er þó skyld henni. Við höfum hana með í þessari umfjöllun enda myndar hún gjarnan runna og kjarr.

Elrikjarr
Ensk tunga geymir marga orðstofna úr norrænu. Diana Wells (2010) nefnir dæmi af orðinu carr. Orðið er notað um þykkni trjástofna sem vaxa þétt án þess að ná endilega mikilli hæð. Helst er þetta notað um elri og kallast það aldercarr. Hér er komið norræna orðið kjarr sem við þekkjum vel. Samkvæmt Wells getur elrikjarr vaxið þar sem fátt annað vex. Þrátt fyrir að Wells sé fyrst og fremst að tala um trjátegundina Alnus glutinosa, sem hefur ýmist verið nefnd svart- eða rauðelri á íslensku, passar lýsing hennar mjög vel við þær lýsingar sem finna má í erlendum bókum um það runnkennda elri sem hér er fjallað um. Orðið er notað almennt yfir elritegundir sem mynda kjarr þar sem það vex á erfiðum stöðum. Þetta minnir okkur á hversu algengt það er í heiminum að elri myndi kjarr á stöðum sem reynast öðrum tegundum erfiðar. Það getur viðhaldist árutugum saman þar sem önnur tré ná ekki rótfestu.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn
Hástig líffjölbreytni: Skóglendi
Gamla-Gróðrarstöðin og garðyrkjuskólinn sem aldrei varð
Gráþröstur
Helstu elritegundir