Fara í efni
Sverrir Páll

Frístundamálin komin inn í grunnskólana

Oddeyrarskóli er eini skólinn sem enn hefur ekki ráðið í nýja stöðu deildarstjóra forvarna- og frístundamála. Mynd: RH

Fyrirkomulagi á forvarna- og frístundamálum hjá Akureyrarbæ var breytt síðastliðið vor, þegar samþykkt var í bæjarstjórn að leggja niður FÉLAK, Félagsmiðstöðvar Akureyrar, og færa félagsmiðstöðvastarfið inn undir hatt skólanna sjálfra. Breytingarnar hafa verið mjög umdeildar, og fagfólk á sviði frístundamála hefur gagnrýnt þær og bent á skort á samráði við undirbúning þeirra. 

Nú eru skólarnir hafnir, og nýja fyrirkomulagið komið í gagnið. Tvö ný störf í hverjum skóla voru auglýst í vor til þess að sjá um frístundamálin; starf deildarstjóra og félagsmiðstöðvafulltrúa. Búið er að ráða deildarstjóra í alla skólana nema Oddeyrarskóla, þegar þetta er skrifað. Einnig vantar félagsmiðstöðvafulltrúa í Brekkuskóla og Naustaskóla. Þessi störf eru enn auglýst til umsóknar á vef Akureyrarbæjar.

Nýr stýrihópur fylgist með innleiðingu

Til þess að sjá um innleiðingu og eftirfylgni breytinganna, hefur verið settur saman stýrihópur á vegum bæjarins, en hópurinn fundaði í fyrsta skipti í byrjun vikunnar. Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, situr í stýrihópnum fyrir hönd meirihlutans í bæjarstjórn. Blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn til hans.

„Við byrjuðum á því að funda með nýja starfsfólkinu innan skólanna, áður en hópurinn kom saman,“ segir Heimir, en einhverjir af þeim sem fengu þessi störf voru áður starfsmenn FÉLAK. „Það hjálpar okkur gríðarlega að fá þau inn, þau hafa mikla reynslu og vita hvernig starfið á að vera. Deildarstjórar skólanna vinna þétt saman og munu funda tvisvar til þrisvar í mánuði. Stýrihópurinn ætlar svo að hittast átta sinnum út þetta kjörtímabil, en ég tel það alveg nauðsynlegt svo að þetta verði gert vel. Fyrsti fundur lofaði mjög góðu.“

Ungmennaráði loks boðið til samtals

Sem barnvænt sveitarfélag skuldbindur Akureyrarbær sig til þess að leyfa ungmennaráði að koma að ákvörðunartöku allra mála sem tengjast börnum og ungmennum. Hluti af gagnrýni á skipulagsbreytingarnar var að svo var ekki í þessu ferli. Í frétt á vef Akureyrarbæjar um fyrsta fund stýrihópsins, er tekið sérstaklega fram að til að tryggja rödd barna í sveitarfélaginu verði vinnu stýrihópsins reglulega vísað til umsagnar í ungmennaráði.

„Skipulagsbreytingar eru alltaf erfiðar, en nú fá þau þetta til umsagnar til sín og eru að fara að móta þessi störf með okkur,“ segir Heimir, aðspurður um þetta atriði. „Nú taka þau þátt og við náttúrulega vísum til þeirra ýmsum málum á hverjum einasta fræðsluráðsfundi sem fer fram.“

„Tíminn verður bara að leiða það í ljós hvernig gengur, eftir ár verður þetta tekið saman og kostir og gallar metnir,“ segir Heimir. „Ég hef fulla trú á því að þetta gangi vel. Ég skil mjög vel að breytingarnar hafi verið erfiðar fyrir fólk, og ég skil líka gagnrýnina. Númer eitt, tvö og þrjú fyrir okkur núna er að gera þetta vel og ég tel að þessi stýrihópur sé vel settur saman.“

 

Mikil gagnrýni úr ólíkum áttum

Starfsfólk FÉLAK lýsti miklum áhyggjum af skipulagsbreytingunum þegar þær voru boðaðar í vor. Í aðsendu bréfi sögðu þau meðal annars að fræðilegar rannsóknir undirstriki mikilvægi þess að félags- og frístundastarf sé aðskilið frá skólastarfi. Sérfræðingar á sviði frístundamála hafa líka lýst yfir áhyggjum á breytingunum, meðal annars Vanda Sigurgeirsdóttir og félagsuppeldisfræðingurinn Árni Guðmundsson, en hann sendi síðast frá sér bréf vegna málsins í byrjun vikunnar.

Telja framkvæmd breytinganna ámælisverða

Einnig gagnrýndi starfsfólk FÉLAK framkvæmd breytinganna í bréfinu, og sögðu hana hafa verið með þeim hætti að mörg hefðu misst starfið án aðkomu að ákvörðuninni eða faglegs samtals um framtíð þjónustunnar, en öllu starfsfólki var sagt upp með litlum fyrirvara. Jafnframt var gagnrýnt að uppsagnir hefðu í raun átt sér stað áður en að skipulagsbreytingar voru formlega teknar fyrir í bæjarráði.


Greinar, fréttir og fleira um málið:

Mendelssohn á Akureyri

Sverrir Páll skrifar
12. júní 2025 | kl. 12:45

Menntun eða próf II

Sverrir Páll skrifar
18. október 2024 | kl. 14:00

Menntun eða próf I

Sverrir Páll skrifar
17. október 2024 | kl. 16:00

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Framhaldsskóli fyrir nemendur

Sverrir Páll skrifar
08. mars 2024 | kl. 06:00

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00