Fara í efni
Orri Páll

Þeysireið Þarmahláku

(Þ)ORRABLÓT - VI

Tónlistarferill minn varð hvorki langur né litríkur sem er ósköp eðlilegt í ljósi þess að hæfileikar mínir á því sviði liggja einhvers staðar á bilinu sáralitlir til engir. Ég náði þó að starfa um skamma hríð með tveimur hljómsveitum heima á Akureyri í gamla daga og var titlaður söngvari í þeim báðum.

Sú fyrri hét því geðþekka nafni Þarmahláka og var stofnuð í löngufrímínútum í MA snemma árs 1990. Gísli Aðalsteinsson, sem var mjög frambærilegur gítarleikari og er eflaust enn, kom þá að máli við mig á ganginum í Gamla skóla og tjáði mér að nú stæði Viðarstaukur, tónlistarhátíð skólans, fyrir dyrum og að við yrðum að mæta og leika þungarokk.

Nú, jæja, Gísli minn, sagði ég með hægð, og hvenær er Viðarstaukur?

„Í kvöld!“

Mér krossbrá og reyndi strax að telja Gísla ofan af þessu með þeim rökum að ég kynni ekkert fyrir mér í tónlist.

„Það gerir ekkert til, þú bara syngur!“

En ég hef aldrei sungið, ekki einu sinni í sturtu.

„Einu sinni verður allt fyrst!“

Það varð því úr að við héldum strax eftir skóla suður í gamla veganestið á Leirunum en Gísli bjó þar að æfingaaðstöðu. Með í för var öðlingurinn Stefán Gunnarsson, sem margir tengja við Hlíðarfjall. Hann greip með sér bassa. Við æfðum svo í nokkra klukkutíma og á að giska hálftíma áður en Viðarstaukur var flautaður á bættist Ingvi Rafn Ingvason, sem er frábær trommuleikari, í hópinn. Kom beint úr Tónó.

Stefán Gunnarsson bassaleikari og trommarinn Ingvi Rafn Ingvason tróðu upp með „söngvaranum“ Orra Páli Ormarssyni í Möðruvallakjallara MA forðum daga.

Þannig skipuð kom Þarmahláka í Möðruvallakjallara til að sjá og sigra Sigurjón digra og aðra ágæta gesti. Ármann Guðmundsson, síðar kenndur við Ljótu hálfvitana, tók á móti okkur en hann var umsjónarmaður Viðarstauks. Í augum hans dönsuðu þær systur, undrun og vorkunn. „Nú, jæja, strákar mínir. Þungarokk? Já, það er svo sem í fínu lagi svo lengi sem þið takið ekki Johnny B. Goode!“

Það var því með allnokkrum kinnroða sem við töldum í fyrsta lagið um það bil stundarfjórðungi síðar – Johnny B. Goode!

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna Ármann hélt að Johnny B. Goode væri þungarokkslag. Og það sem er alvarlegra, hvers vegna hélt ég það?

Við tókum líka Cult of Personality eftir bandaríska tilraunamálmbandið Living Color og eitt lag enn. Þó ekki Eitt lag enn – sem hefði verið galið. Engum sögum fer af viðtökum enda er þessi uppákoma öll í móðu.

Um leið og seinasti tónninn hvarf út í tómið lagði Þarmahláka upp laupana og hefur ekki komið saman aftur. Enda lítil eftirspurn. Starfsævi bandsins var sumsé hálfur sólarhringur.

Hitt bandið, sem hlaut það hógværa nafn Aðall íslenskrar æsku, var stofnað á Þórsvellinum sama ár, síðsumars. Fyrir dyrum stóð þá mikið húllumhæ hjá 2. flokki karla í knattspyrnu og ekki um annað að ræða en að bjóða upp á lifandi músík. Fyrir bandinu fóru höfðingjarnir Atli Már Rúnarsson og Brynjólfur Brynjólfsson, Bobbi, sem þá þegar voru farnir að láta að sér kveða með hinu goðsagnakennda þjóðlagapönkbandi Helga og hljóðfæraleikurunum en varnarþing þess hefur alla tíð verið í Kristnesi.

Knattspyrnukapparnir Guðmundur Benediktsson – Gummi Ben – og Lárus Orri Sigurðsson koma báðir við sögu í Orrablóti dagsins. Myndin af Guðmundi er tekin þegar hann kom í fyrsta skipti við sögu með meistaraflokki Þórs 19. júní 1990, þá yngstur allra sem leikið höfðu í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu hérlendis, 15 ára og 290 daga.

Bobbi lék á gítar og Atli á trommur. Þarna var ég orðinn sviðsvanur söngvari og fékk því hljóðnema í hönd og aldavinur minn Arnaldur Skúli Baldursson lék á hljómborð. Við fengum svo Jonna, bróður Bobba, Jón Aðalstein Brynjólfsson, lánaðan á bassa og bakrödd. Það var einmitt Jonni sem dró mig að landi þegar ég fór óbærilega langt út af laginu. Takk fyrir það, Jonni minn! Hann kenndi okkur líka að skilja ekki eftir glas ofan á bassamagnara.

Aðall íslenskrar æsku æfði í nokkur skipti í húsnæði í Glerárgötunni, mest samkvæmismúsík eins og Flagarabrag, Komdu í partí, Summer of ´69 og Ofboðslega frægur en Skúli var raunar búinn að snúa textanum í því lagi upp á þjálfarann okkar, Gunnar Gunnarsson, Gassa. Hann verður ekki hafður eftir hér! Við hlóðum líka í The One I Love eftir REM og Run to the Hills eftir Iron Maiden, svo eitthvað sé nefnt.

Hvort sem það var leikur okkar félaga eða eldvatnið, sem menn höfðu um hönd (sem er sennilegra), þá stóð Reynishús, þar sem veislan fór fram, í ljósum logum þetta kvöld. Ég man að varnarbuffið Lárus Orri Sigurðsson, síðar landsliðs- og atvinnumaður, var farinn að dansa upp á borði og gott ef hann byrjaði ekki með konunni sinni, Sveindísi, þetta kvöld. Það fór alla vega mjög vel á með þeim upp á borðinu. Kannski eru þau eina parið á Íslandi sem hefur byrjað saman upp á borði? Hver veit?

Sævar Guðmundsson hóf myndavélina snemma á loft og Atli Már Rúnarsson að leika á trommur.

Þjóðargersemin Gummi Ben var þarna líka, kornungur, kengfeiminn og með gardínuklippingu.

Liðsfélagi okkar, Sævar Guðmundsson, sem í dag er einn helsti heimildarmyndagerðarmaður landsins, tók herlegheitin upp frá A til Ö og ég átti giggið lengi á VHS-snældu. Týndi henni því miður.

Spurning hvort Sævar þurfi ekki að endurútgefa Reynishússgiggið. Eða ekki.

Aðall íslenskrar æsku kom ekki fram aftur en sumarið eftir lékum við okkur stundum í æfingahúsnæði í gamla grunnskólanum á Hrafnagili. Þá hafði Atli fært sig yfir á bassa og annar aldavinur minn, Magnús Ingi Magnússon, lék á trommur. Magnús kom úr líflegri bárujárnssenunni á Akureyri og hafði meðal annars leikið með því gagnmerka bandi It. Við tókum þarna upp einhver lög, meðal annars tvö prýðileg frumsamin eftir Skúla og stífpönkaða útsetningu af Maístjörnunni eftir Jón Ásgeirsson.

Þær upptökur eru vistaðar á kassettu sem ekki hefur týnst. Kannski verður rykið dustað af henni þegar Akureyri.net opnar útvarpsstöð.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Úrgangi hellt yfir árganginn

Orri Páll Ormarsson skrifar
31. maí 2024 | kl. 17:15

Kunningi frænda míns

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. maí 2024 | kl. 14:00

Gangstétt varð gúmmíi að bráð

Orri Páll Ormarsson skrifar
03. maí 2024 | kl. 16:30

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Teipaði sig fyrir dönskutíma

Orri Páll Ormarsson skrifar
05. apríl 2024 | kl. 11:30