Litasjónvarp, gelgjubókmenntir og ægileg hlussa
ORRABLÓT - 56
Jólin, jólin. Þau eru alls staðar, eins og segir í kvæðinu eftir Jóhönnu G. Erlingsson. Mikið til í því. Í mínu tilviki hafa þau þó bara verið á tveimur stöðum – á Akureyri og í Reykjavík. Ég hef aldrei haldið jól í útlöndum, ekki einu sinni á Tenerife. Og haldið ykkur nú fast og spennið jafnvel á ykkur beltin: Ég hef aldrei komið á þá ágætu eyju. Ég get svarið það. Einn örfárra Íslendinga.
Þið hafið heyrt brandarann um erlenda ferðamanninn sem staddur var í miðbæ Reykjavíkur og furðaði sig á því að þar voru bara aðrir erlendir ferðamenn, eins langt og augað eygði. „Hvert á ég að fara til að hitta ósköp venjulegan og guðhræddan Íslending?“ spurði hann í einni lundabúðinni á Laugaveginum. Svarið lá í augum uppi: Til Tenerife!
Mamma er úr Reykjavík og þangað til ég var svona átta ára voru jólin alltaf haldin hjá ömmu og afa á Rauðalæk í Laugardalnum, því dásamlega fólki Kristjönu Bergmundsdóttur frá Látrum í Aðalvík og Magnúsi Skarphéðinssyni úr Skorradal í Borgarfirði.

Fjórar íbúðir voru í húsinu og í risinu, fyrir ofan ömmu og afa, bjó kona sem hét Oddný. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi (það ku vera merkilega algengt að konan á hæðinni fyrir ofan heiti Oddný) nema fyrir þær sakir að hún átti litasjónvarp. Við erum að tala um síðsjöuna og á þeim tíma átti enginn á Íslandi litasjónvarp, alla vega ekki í minni fjölskyldu.
Fyrir vikið voru það stóreflis tíðindi þegar Maggi móðurbróðir, sem bjó í foreldrahúsum, tilkynnti mér í hádeginu á aðfangadag að við værum að fara upp til Oddnýjar að horfa á jólabarnatímann í lit. Takk fyrir, túkall! Oddný tók vel á móti okkur frændum með heitu súkkulaði og smákökum og næstu tvo tímana eða svo sat ég stjarfur og starði á dýrðina. Man ekki betur en að sú mikla kempa Villi spæta hafi verið fyrirferðarmikil í dagskránni og Tommi og Jenni hljóta að hafa komið við sögu. Mín vegna hefði mátt sleppa gjöfunum þessi jólin; þetta yrði ekki toppað.
Mér eru líka í fersku minni jólin þegar ég fékk tindátavirki frá mömmu og pabba. Þá rauk ég beint inn í næsta rými til að stilla upp og beita þurfti mig fortölum til að fá mig aftur að jólatrénu til að opna fleiri pakka. Það er svo merkilegt að þessi ofboðslegi og ástríðufulli áhugi á virkjum hefur ekki elst af mér.

Svo var það myndavélin sem framkallaði myndirnar á staðnum. Þá vorum við farin að halda jólin heima á Akureyri og ég líklega 10 ára. Polaroid var algengasta merkið en mín vél var frá Kodak, ægileg hlussa. Gæði myndanna voru ekkert sérstök en ég man ennþá tilfinninguna sem greip um sig eftir að vélin hafði skyrpt spjaldinu út úr sér og maður beið spenntur eftir að myndin birtist. Og þarna voru ennþá um tveir áratugir eftir af 20. öldinni. Hugsið ykkur.
Mamma og pabbi eru gríðarlegt bókafólk (líkurnar á að sjá þau ekki með skáldsögu í annarri og ævisögu í hinni eru hverfandi) og næstu árin fékk ég aðallega bækur í jólagjöf. Þær voru yfirleitt þrjár og ein alltaf Íslensk knattspyrna eftir Víði Sigurðsson sem seinna átti eftir að verða kollegi minn á Morgunblaðinu. 45. bindið kom út á dögunum og Víðir á mikið lof skilið fyrir ótrúlegt úthald við vandaða skrásetningu sparkmennta í þessu landi. Þegar ég hætti að safna Íslenskri knattspyrnu tók elsti sonur minn við og við eigum ófáa árgangana.

Framan af voru líka myndasögur í jólapakkanum, kollegar mínir Tinni og Svalur, Lukku-Láki og fleiri góðir. Síðan fóru gelgjubókmenntir að láta á sér kræla, eins og bækur Eðvarðs Ingólfssonar, Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð. Það gekk hratt fyrir sig lífið hjá því ágæta pari. Sjálfur á ég sonardóttur sem er 16 ára og ég sé hana ekki fyrir mér í sambúð. Menn bjuggust við að næst kæmi Sautján ára og skilin en sú bók kom alveg áreiðanlega ekki. Hvað ætli sé annars að frétta af þessu pari? Þau hljóta að vera orðin amma og afi, jafnvel langamma og langafi, miðað við tempóið í lífi þeirra. Þarf Eðvarð, sem nú er séra Eðvarð, ekki að fara að dusta af þeim rykið?
Að því kom að ég fór að biðja um plötur með þungrarokksböndum í jólagjöf. Mamma og pabbi létu sem þau heyrðu það ekki enda deildu þau með mér þaki og þurftu sjálf að hlusta á „gargið“. Amma í Reykjavík brást á hinn bóginn ljúfmannlega við (eins og alltaf) og ég sé hana ljóslifandi fyrir mér ganga með slæðuna og veskið inn í Plötubúðina eða Skífuna á Laugaveginum og biðja kurteislega um Yngwie J. Malmsteen, Judas Priest eða Loudness.

Á jóladag stóð tíminn iðulega í stað enda mátti ekkert á þeim ágæta degi á þessum tíma. Varla draga andann. Ræskti maður sig átti maður á hættu að móðga þá himnafeðga og kyn þeirra allt. Allt var lokað og fyrst þegar ég man eftir mér var illa séð að grípa í spil, hvað þá meira. Aðeins slaknaði á því þegar leið á áttuna, áratug trúarlegrar hnignunar, svona eftir á að hyggja. Og þvílík veisla þegar Trivial Pursuit, eða Sparðatínsla, kom fram á sjónarsviðið. Spurningaspil sem svalaði ekki bara keppnisskapi manns heldur stórjók á forvitnina og almenna þekkingu.
Mínir flokkar voru gulur (saga), brúnn (bókmenntir og listir), bleikur (poppmenning) og appelsínugulur (íþróttir) en ég átti í meira basli með grænan (vísindi) og bláan (landafræði).
Á annan í jólum fóru hjólin aftur að snúast, sjoppur opnuðu, eins billjardstofan í Gilinu, og maður fékk aftur á tilfinninguna að maður tilheyrði samfélagi manna. Svo var alltaf heil umferð á dagskrá í ensku knattspyrnunni, gamla góða Boxing Day-veislan. Heimur versnandi fer og í dag, annan í jólum 2025, er bara einn leikur í ensku úrvalsdeildinni, viðureign Manchester United og Newcastle United í Leikhúsi draumanna. Í hvern hringir maður til að kvarta undan þessu?

Á Þorláksmessu var um árabil ómissandi liður í aðdraganda jólanna að fara með félögunum niður í miðbæ; sýna sig og sjá aðra þegar jólaösin náði hámarki. Eitt Þorláksmessukvöldið vorum við á röltinu, fjórir eða fimm saman, þegar einn úr hópnum, Kjartan Guðmundsson, veitti því athygli að hópur manna sem við bárum ekki kennsl á kom alltaf í humátt á eftir okkur. Svona gekk þetta um stund og að því kom að við fórum yfir gangbraut – og mennirnir á eftir. Þá gall í Katta, þeim lúmska húmorista: „Ég er að segja ykkur það, strákar. Þeir elta okkur á röndum!“
Enn þann dag í dag verður mér hugsað til þessara manna þegar ég rölti yfir gangbraut og get svo svarið að þegar ég fór yfir frægustu gangbraut í heimi, við Abbey Road í Lundúnum, fyrir fáeinum árum þá komu þeir í humátt á eftir mér.
Svona getur lífið verið skrýtið.
Gleðileg jól, kæru lesendur, og farsælt komandi ár!
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.
Úrillt og ráðvillt trippastóð
Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi
Losnaði aldrei við höfuðverkinn
Jävla Öxnabrekkan