Hvor var betri, Tommi eða Kóki?
ORRABLÓT - 58
Frá því að ég var níu til tólf ára var ég vakinn fyrir allar aldir á virkum dögum á veturna. Ekki til að mæta í skólann, heldur til að fara með pabba, Ormari Snæbjörnssyni, sem leið lá niður á Teríuna í Hafnarstrætinu, þar sem hann hitti félaga sína yfir kaffibolla og spjalli, þar sem málefni líðandi stundar voru brotin til mergjar. Þeir sátu við stórt hringborð úti í horni og gott ef þeir kölluðu sig ekki hreinlega Riddara hringborðsins. Á miðju borðinu var alltaf sama spjaldið, sem á stóð „Frátekið”. Þegar var pláss fékk ég að sitja við borðið, án þess að leggja neitt til málanna, en oftast var ég þó settur á næsta borð með djöflatertusneið og stútfullt mjólkurglas; einskonar áheyrnarfulltrúi sem mátti hlusta en alls ekki taka til máls nema að ég væri ávarpaður með beinum hætti og milliliðalaust. Það gerðist sjaldan.

Blaðamaður Dags mætti í morgunkaffi á Teríuna haustið 1986 og ræddi við kallana sem Orri Páll hlustaði á virka morgna yfir vetrartímann nokkrum árum áður með föður sínum – Riddara hringborðsins eins og þeir eru kallaðir í Degi, og Orri nefndi líka.
Allt voru þetta karlar, á býsna breiðum aldri, minnir mig, og flestir mættu á hverjum morgni áður en þeir fóru í vinnuna. Hálftími til þrjú korter dugðu yfirleitt til að leysa lífsgátuna og eftir að hafa hlustað á þessa höfðingja leið manni alltaf eins og að heimurinn væri aðeins öruggari og betri staður. Hvar eru þeir nú?
Að spjalli loknu brunuðum við pabbi út á Þelamörk, þar sem hann kenndi og ég stundaði nám. Fyrsta kennslustundin byrjaði ábyggilega ekki fyrr en klukkan 9, eða jafnvel klukkan 10 hjá mér. Í minningunni hófum við bekkjarfélagarnir alla daga á því að spila blok eða einspark á malbiksvellinum fyrir framan skólann. En það er allt önnur saga.
Meðal fastagesta við hringborðið voru bræðurnir Steindór og Sigbjörn Gunnarssynir, og Gunnar bróðir þeirra, Gassi, lét stundum sjá sig líka, kornungur. Nói í Örkinni hans Nóa lét sig sjaldan vanta, eins Herbert Ólason hestamaður með meiru, kallaður Kóki, og bílasalarnir Gunnar Berg og Gunnar Haraldsson, aldrei kallaður annað en Gunni sót. Brautryðjandinn var einnig þaulsætinn við borðið, það er gaurinn sem ruddi flugbrautina á veturna. Minnir að hann hafi heitið Örn. Þá tilheyrði Sturla Snæbjörnsson föðurbróðir minn hópnum.

Úr greininni í Degi: Iðnaðarmanna-roundtable – Gunni Berg –Gassi og Óli Ásgeirs.
Þetta var fyrsta og lengi vel eina upplifun mín af veitingahúsum. Ég snæddi ekki kvöldverð á Teríunni fyrr en löngu seinna. Bautinn var þarna ská á móti, eitt helsta kennileiti bæjarins, en samt fór maður aldrei þangað. Það tíðkaðist bara ekki að fara út að borða á þessum árum; það var að ég held engin sérviska í minni fjölskyldu. Menn borðuðu bara heima hjá sér, eða þá að farið var í mat til vina eða ættingja. Á Þorláksmessu eldaði mamma skötuna heima í blokkinni og enginn í stigaganginum kveinkaði sér undan því. Sennilega hafa flestir hinir íbúarnir líka verið að elda skötu og lyktin því jafnast út.
Túristar hljóta að hafa haldið Bautanum gangandi.
Það næsta sem ég komst því að fara á veitingahús var að heimsækja föðurbróður minn Sigurð Snæbjörnsson á Höskuldsstöðum og hans góðu konu, Rósu Árnadóttur. Þegar maður kom þangað, iðulega óboðinn, svignuðu borð gjarnan undan veitingum og alla vega tíu gestir höfðu komið sér makindalega fyrir í eldhúskróknum – og gúffuðu í sig. Rósa sá um að uppfarta gestina ásamt móður sinni og móðursystur, milli þess sem hún hugaði að skepnunum. Rósu féll aldrei verk úr hendi. Munurinn á Höskuldsstöðum og öðrum veitingastöðum var þó augljós – þar var enginn maður rukkaður.

Fleiri Riddarar hringborðsins úr Degi: Stjáni Grant og Marri Gísla – Bjössi Gunnars.
Það voru mikil tíðindi þegar hamborgarastaður með orðspor var opnaður á Akureyri árið 1982, Tommaborgarar á horni Skipagötu og Ráðhústorgs, en hann hafði áður slegið rækilega í gegn í bæði Reykjavík og Keflavík, jafnvel víðar, og þótti ofboðslega hipp og kúl. Gott ef menn sáu ekki hreinlega glitta í 21. öldina gegnum staðinn.
Fyrsta opnunardaginn gaf Tómas A. Tómasson, eigandi Tommaborgara, hverjum hamborgara, sem hafa vildi, og komu hundruð bæjarbúa til að fá sér í svanginn. Fá dæmi eru um slíka örtröð í sögu Akureyrar og ég þekki menn sem óttuðust hreinlega um líf sitt í röðinni.
„Mér finnst gaman að vera kominn til Akureyrar, það fólk sem ég hef hitt hefur verið mjög þægilegt í viðmóti og gefur mér tilefni til að ætla að ég sé ekki á röngum stað. Ég fíla Akureyri mjög vel,“ sagði Tommi hamborgarakóngur í samtali við dagblaðið Dag, skömmu eftir að hann opnaði staðinn.

Tommi var reyndar ekki fyrstur til að opna hamborgarastað á Akureyri en rétt á undan hafði Kóki, sem áður var nefndur, opnað Kókaborgara í Hafnarstrætinu, við hliðina á Sporthúsinu. Þar var meðal annars boðið upp á „einfaldan Kóka“ og „tvöfaldan Kóka“. Kvöldið áður en staðurinn opnaði kom ég í heimsókn á Kókaborgara með pabba, þar sem eigandinn var að gera allt klárt, og sá þar stærsta kassettutæki sem ég hafði nokkru sinni augum litið. Kom ekki upp orði, frekar en við hringborðið. Ég hét því að verða fastagestur á Kókaborgurum, ekki út af borgurunum, heldur kassettutækinu.
Ýmsir voru vantrúaðir á að Akureyri væri nógu stór bær til þess að þar gætu þrifist sérstakir hamborgarastaðir, en Kóki var á öðru máli. „Með tilkomu svona staða breytast neysluvenjur fólks. Á þessum stöðum er hægt að fá ódýran mat sem afgreiddur er á mjög stuttum tíma. Þá er verðinu haldið niðri, en hjá mér er það stefnan að hafa verðið lágt en byggja söluna upp á magninu,“ sagði Kóki í samtali við Dag.
Og Kóki var hvergi smeykur við Tomma. „Ég er mjög ánægður með að sá andstæðingur sem ég á eftir að glíma við hér á Akureyri er Tommi en ekki einhver annar. Ég vil berjast við einhvern sem má sín einhvers, mér finnst það eðlilegra heldur en að berjast við einhvern minni máttar,“ sagði hann við Dag.

Tommi var ekki síður vingjarnlegur í garð Kóka. Spurður í Degi hvort hans borgarar væru eitthvað frábrugðnir þeim borgurum sem Akureyringum buðust þá þegar, svaraði hann: „Ég er ekkert viss um að þeir séu svo mikið frábrugðnir, ég held t.d. að Kókaborgarar séu alveg sambærilegir við Tommahamborgara. Við leggjum áherslu á að vera með úrvals hráefni, ný brauð og sérkennilega sósu.“
Samt lifðu Kókaborgarar ekki lengi. Og Tommaborgarar ekki heldur.
Kannski hitti blaðið Alþýðumaðurinn naglann á höfuðið í dálki sínum „amen”: „Er sammála Íslendingi [blaðinu] um ágæti Kókaborgara og vafalaust verða Tommaborgarar engu síðri. Hins vegar telja næringarfræðingar þessar fæðutegundir ekkert sérstaklega hollar, enda er þetta hvorutveggja víst sama íhaldið, enda ættað úr Ameríkunni.“
Það kann líka að hafa haft áhrif að skömmu síðar var nýjum skyndibitastað ekið inn á mitt Ráðhústorgið. Sá átti eftir að njóta fáheyrðra vinsælda, Pésa pylsur.
„Þetta er hörku fín vinna. Maður spjallar við fullt af fólki á hverjum degi,“ sagði hinn lauflétti pylsusali Pétur Bjamason er DV stakk höfðinu inn um gatið á pylsuvagni hans sumarið 1983, „og svo sér maður líka allar sætu stelpurnar sem fara um Ráðhústorgið, og það skal ég segja þér að er ekki neitt smáræði.“
Kallaði einhver þetta vinnu?
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.
Litasjónvarp, gelgjubókmenntir og ægileg hlussa
Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík
Úrillt og ráðvillt trippastóð
Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi