Fara í efni
Orri Páll

Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík

ORRABLÓT - 55

Maður stóð varla fram úr hnefa þegar maður áttaði sig á því að maður yrði að verða eitthvað í þessu lífi, eigi síðar en þegar maður yrði stór. Þið kannist við þetta: „Jæja, hvað ætlar þú nú að verða þegar þú verður stór?”

Maður vill hafa svör á reiðum höndum og persónulega gerði ég ungur upp hug minn: Ég ætlaði að verða kúreki. Hafði séð Jón væna, Clint Eastwood og þessa gaura í sjónvarpinu og gerði mér strax grein fyrir því að þetta væri eitthvað fyrir mig, það er kúrekstur. Það var því mikill skellur þegar pabbi settist niður með mér einn daginn og sagði, alvarlegur í bragði: „Þú áttar þig á því, drengur minn, að þú kemur ekki til með að geta dregið fram lífið sem kúreki á Íslandi. Það er borin von.“

Er hann þó fæddur og uppalinn í sveit.

Jæja, ekki var um annað að ræða en að kyngja því og snúa sér að plani B. „Jæja, pabbi minn,“ sagði ég, býsna brattur. „Þá gerist ég bara rithöfundur og skrifa epískar kúrekasögur.“

Nú klóraði pabbi sér lengi í höfðinu enda þessi hugmynd að ævistarfi líklega langsóttari en sú fyrri. Hann hafði þó ekki geð í sér til að kremja hjarta mitt tvisvar í sömu lotunni, þannig að hann horfði gegnum fingur sér með þetta um sinn. Æfingin skapar meistarann og um 10 ára aldurinn byrjaði ég að skrifa „epískar” kúrekasögur í stílabækur, hvenær sem næði gafst. Þær voru flestar í hófstilltum ýkjustíl. Á að giska einu ári og tuttugu stílabókum síðar rann upp fyrir mér ljós – það væri líklega ekki markaður fyrir bókmenntir af þessu tagi á Íslandi.

Þess í stað ákvað ég að verða steypubílstjóri – sem var eftir á að hyggja kannski ekkert ólíkt hinum tveimur störfunum. Pabbi kenndi á veturna og í einhver sumur vann hann sem steypubílstjóri hjá Möl og sandi og ég fékk stundum að vera með honum í bílnum. Svalara starf gat ég ekki hugsað mér. Um tíma.

Á einhverjum tímapunkti ætlaði ég að verða smiður, eins og afi í Reykjavík. En þeim áformum var sjálfhætt enda úthlutaði almættið mér í hótfyndni sinni 10 þumalputtum. Það er ekki heppilegt fyrir tilvonandi smið.

Svo var það auðvitað fótboltinn – sem ég æfði markvisst. Einu sinni tók pabbi kunningja sinn, sem ég bar ekki kennsl á, upp í bílinn. Hann horfði rannsakandi yfir öxl sér á mig í aftursætinu og spurði: „Hvað langar þig að verða? Senter?”

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að það gæti verið starf en veðraðist allur upp við tilhugsunina. Það væri ekki amalegur titill í símaskránni: Orri Páll Ormarsson senter. Draumurinn um að verða senter að atvinnu dó þó snemma enda fór lítið fyrir því á þessum árum að Akureyringar streymdu í atvinnumennsku í fótbolta. Miklu frambærilegri leikmenn en ég áttu ekki breik. Var það ekki Þorvaldur Örlygsson sem ruddi loksins brautina, þegar Brian Clough keypti hann til Nottingham Forest?

Allar frusu þessar hugmyndir mínar um ævistarf í hylnum, eins og sumarið forðum. Og góð ráð voru dýr. Þegar ég var 11 eða 12 ára gerði ég þetta þó endanlega upp við mig – ég skyldi verða gítarleikari. Og ekki bara venjulegur glamrari með vinnukonugrip, heldur alvöru gítarhetja að hætti Eddie Van Halen, Tony Iommi, Randy Rhoads, Dave Murray og slíkra kappa. Málið dautt.

Ég þurfti að vísu að suða óvenjulengi í mömmu og pabba til að fá hljóðfærið, án þess kæmist ég víst ekki langt. Ætli þeim hafi ekki hrosið hugur við yfirvofandi glamri í lítilli blokkaríbúð. En gítarinn kom þó á endanum (eins og flest annað sem ég bað um, maður blóðmjólkaði það að sjálfsögðu að vera einkabarn).

Þessi vegferð hófst á stað sem þið hafið ábyggilega ekki veðjað á. Í ullarverksmiðjunni Gefjun á Gleráreyrum. Þannig er mál með vexti að Birgir Marinósson, kunningi pabba, bauð upp á gítarnámskeið í einum sal verksmiðjunnar og ég var ekki lengi að skrá mig til leiks. Þá var ég kominn með forláta fóðraðan kassa utan um gítarinn enda engin leið að ferðast með hann óvarinn milli staða. Kassinn var listasmíð og svo vandaður að hæglega hefði mátt jarða mann í honum.

Það var kannski 10 manna hópur sem sótti námskeiðið og Birgir kenndi okkur helstu gripin og lét okkur glamra saman meðan ullarlyktin fyllti öll vit. Þetta hefur ábyggilega verið sjón að sjá, hvað þá heyrn að heyra. Hvort Eddie Van Halen hóf sinn feril í svipuðum sal veit ég ekki en millinafn hans var alltént Lodewijk, eða Loðvík. Alls staðar má nú finna tengingar í þessum heimi.

Og pælið í þessu nafni, Játvarður Loðvík. Maðurinn hlaut að verða kóngur af einhverju tagi.

Þetta voru ekki nema nokkrir tímar hjá Birgi og um sumar reif ég dúninn úr eyrum og nefi og reyndi að æfa mig upp á eigin spýtur. Það gekk svona og svona. Um haustið var svo ekkert annað í stöðunni en að færa þetta upp á næsta stig og rita sig inn í Tónlistarskólann á Akureyri sem var til húsa í Hafnarstrætinu. Ég komst inn (eins og ábyggilega allir sem sóttu um) og hófst þá nám mitt í klassískum gítarleik. Kennarinn var ungur maður og fjallhress, Örn Viðar Erlendsson, sem komið hafði, að mig minnir, utan af landi. Ég fór með gítarinn í kassanum með strætó tvisvar í viku og fyrstu önnina fór hálfur tíminn alltaf í að pússa á mér neglurnar með þar til gerðum sandpappír og naglaþjöl en gítarhetjur af gamla skólanum notast við eigin neglur, ekki neitt plastdrasl. Mér fannst ofboðslega óþægilegt að vera með langar neglur á fingrum annarrar handar og krakkarnir í skólanum héldu örugglega að ég væri genginn til liðs við einhvern söfnuð. Skrýtinn þótti ég nú fyrir.

Örn Viðar var mikill hópeflismaður og stefndi nemendum sínum reglulega saman að kvöldlagi, þannig að við gætum borið saman bækur okkar. Við hittumst heima hjá einu okkar og mamma bakaði ófáar terturnar sem ég hafði með mér. Glatt var á hjalla á þessum fundum og gamansögurnar flugu, oftast þó af einhverju allt öðru en gítarleik. Örn Viðar reykti og var spjaldaður fyrir það á hverjum einasta fundi af nemendunum með þeim orðum að með sama áframhaldi næði hann varla að verða fertugur. Hann svaraði því til að það kæmi ekki að sök – það væri hvort eð er ekkert líf eftir fertugt.

Ég fletti kappanum til gamans upp í Þjóðskrá um daginn og hann er enn sprelllifandi – kominn yfir sjötugt. Ekki skilja það samt þannig að ég sé að mæla með reykingum. Það mun ég aldrei gera.

Til að gera langa sögu ofboðslega stutta þá átti þetta klassíska gítarnám alls ekki við mig og er leið á veturinn þurfti ég virkilega að taka á honum stóra mínum til að fara alla þessa leið með gítarinn. Kláraði þó veturinn án þess að ná fyrsta stigi. Tónlistarnám er, eins og við þekkjum, mælt í stigum. Eins og borðtennis.

Gítarinn hef ég varla snert síðan en hann er ennþá til, uppi á háalofti. Í líkkistunni.

Í ljósi þessara brostnu vona þarf ekki að koma á óvart að uppáhaldsbíómyndin mín í bernsku hafi verið vestrinn Johnny Guitar eftir Nicholas Ray frá því herrans ári 1954. Við erum jú að tala um kúreka sem spilaði á gítar. Sterling Hayden, sem seinna var í Guðföðurnum, lék titilhlutverkið af eftirminnilegu listfengi. Joan Crawford fór með hlutverk kvenskörungsins Viennu og Scott Brady var Dansunginn, The Dancin’ Kid. Klassík í öllum skilningi þess orðs.

Og til að botna þetta, þá fékk ég nýja flugu í höfuðið eftir að gítarinn var kominn á hilluna: „Jæja, ætli sé ekki bara best að verða blaðamaður.”

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Úrillt og ráðvillt trippastóð

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. nóvember 2025 | kl. 10:00

Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. nóvember 2025 | kl. 11:30

Losnaði aldrei við höfuðverkinn

Orri Páll Ormarsson skrifar
31. október 2025 | kl. 18:00

Jävla Öxnabrekkan

Orri Páll Ormarsson skrifar
17. október 2025 | kl. 12:00

Stirðastur í mannkynssögunni?

Orri Páll Ormarsson skrifar
03. október 2025 | kl. 15:30

Þegar Þorpið kom suður

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. september 2025 | kl. 10:00