Fara í efni
Orri Páll

Heldurðu að mig langi að lenda í þér?!

ORRABLÓT - IV

Ég var svo gæfusamur að alast upp í fjölbýlishúsi, eða bara blokk, eins og við alþýðufólkið úr Þorpinu köllum það, Smárahlíð 16, íbúð F, eða var það f? Hvernig stendur á því að ég man þetta ekki?

Þar bjó margt merkilegra manna. Ég hef lengi haft dálæti á sjaldgæfum nöfnum og þess vegna gladdi það mig þegar inn í stigaganginn flutti maður að nafni Sigurlinni. Hann mun hafa verið sá eini með því nafni á landinu. Hann og faðir hans. Sigurlinni var nefnilega Sigurlinnason. Nú er ég kominn á miðjan aldur en á enn eftir að hitta annan mann sem heitir Sigurlinni. Hvað þá Sigurlinni Sigurlinnason!

Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalæknir, bjó líka í Smárahlíð 16 um stutt skeið. Hann var á þeim tíma unglæknir á Akureyri. Þórólfur var kurteis, eins og við þekkjum hann og alltaf til friðs en sonur hans, sem þá var barn að aldri, var á hinn bóginn tápmikill og varð frægur á einni nóttu í stigaganginum þegar hann fyllti skó íbúanna, sem stóðu í röðum niðri í sameigninni, af vatni. Meinfyndið uppátæki þegar maður hugsar til þess í dag en menn höfðu misjafnan smekk fyrir því á þeim tíma.

Svo var það unglingurinn sem hafði mikið yndi af því að skvetta í sig um helgar. Sá glaumur endaði iðulega á einn veg, hann lenti í útistöðum við póstkassana í sameigninni svo stórsá á þeim á eftir; það er póstkössunum en ekki unglingnum. Þetta þýddi að faðir unglingsins var fastagestur í gættinni hjá okkur á sunnudagsmorgnum til að biðjast afsökunar á framferði sonar síns. Pabbi tók honum iðulega vel enda vanur böldnu og styggu ungviði úr kennslunni.

Til allrar hamingju var faðirinn handlaginn og náði því alla jafna að laga póstkassana í tæka tíð áður en sonur hans gekk aftur í skrokk á þeim. Svona gekk þetta, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Það er ekki tekið út með sældinni að vera póstkassi í blokk.

Þarna bjó líka maður sem kallaður var Gummi og lagði óvenju mikla rækt við geymsluna sína á jarðhæð hússins. Reif að minnsta kosti einu sinni og stundum tvisvar í viku allt út úr henni til þess eins að raða því inn aftur. Og Gummi var vel haldinn af allskyns dóti, þannig að þetta tók dágóðan tíma í hvert skipti.

Einu sinni var Gummi staddur í annarri geymslu, ruslageymslunni, en íbúar hússins skiptust á að hafa umsjón með henni. Hann var að bogra yfir sorpinu, alveg grunlaus karlanginn og bara helvíti léttur, þegar ég og æskuvinur minn Ingólfur Jónsson, iðulega kallaður Ingólfur fóstri á mínu heimili, komumst að þeirri niðurstöðu að það væri góð hugmynd að fara í keppni um það hvor okkar yrði á undan að hæfa karminn fyrir ofan opna hurðina með snjóbolta.

Ég spreytti mig á undan og auðvitað flaug boltinn þráðbeina leið inn í ruslageymsluna, leystist upp í frumeindir sínar á veggnum svo snjórinn sáldraðist yfir aumingja Gumma. Skreið ískaldur inn um hálsmálið og niður eftir bakinu. Þið fáið ábyggilega hroll við lesturinn.

Til að gera langa sögu stutta fraus ég á staðnum. Fæturnir breyttust á augabragði í blý. Það sást á hinn bóginn undir iljarnar á Ingólfi fóstra sem staðnæmdist ekki fyrr en á þar þarnæsta bílaplani og þegar Gummi kom froðufellandi upp tröppurnar á ruslageymslunni hlaut hann að draga þá ályktun að þar færi ódæðismaðurinn. Hann gargaði því á eftir Ingó, á einhverju tungumáli sem ég hafði aldrei heyrt og hef ekki heyrt síðan. Augun skutu gneistum, nasavængir þandir. Hann skipaði Ingó að koma hið snarasta til baka, svo hann gæti veitt honum ærlega ráðningu. Ingó hélt nú ekki og rökstuddi það að mínu mati afskaplega vel: „Heldurðu að mig langi að lenda í þér?!“

Gummi fór á endanum aftur inn í geymsluna, bölvandi eins og skepnan sem forðum sökk í hafrótið. Ingó kom ekki nálægt Smárahlíð 16 lengi á eftir.

Ykkur að segja þá hefur þetta setið í mér allar götur síðan og Gummi, ef þú ert að lesa, þá máttu til með að fyrirgefa Ingólfi fóstra mínum. Það var ég sem henti snjóboltanum!

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

Orri Páll Ormarsson skrifar
20. september 2024 | kl. 06:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30

„Ertu ennþá að redda stráknum?“

Orri Páll Ormarsson skrifar
23. ágúst 2024 | kl. 11:30

„Heimurinn er að farast, sjáið þið það virkilega ekki!?“

Orri Páll Ormarsson skrifar
09. ágúst 2024 | kl. 08:45

Þræll þeirra Dufgussona?

Orri Páll Ormarsson skrifar
26. júlí 2024 | kl. 11:00