Fara í efni
Magnaðir mánudagar

SUP, sæla og sálfræðilegt öryggi

„Magnaðir mánudagar“

8. pistill

Eins og ljóst er orðið miðað við fyrri pistla mína þá hef ég hvoru tveggja; óbilandi trú á möguleikum okkar fólksins til að efla okkur og magna upp það sem í okkur býr sem og mikinn áhuga á því hvernig við erum, bregðumst við og virkum. Hvernig virkum við þegar við erum í samskiptum og samvistum við aðra? Við erum jú hluti af margs konar hópum í mismunandi aðstæðum og með mismunandi tilgang. Hvort sem er í tengslum við fjölskyldu, vini, nám eða starf, og jú tengsl okkar við aðra og þá sér í lagi góð, sterk og uppbyggileg tengsl við annað fólk vinnur með okkur þegar kemur að andlegri og líkamlegri heilsu.

Ég er í námi sem fjallar um samskipti og virkni hópa og teyma á vinnustað, einkar áhugavert og gagnlegt nám sem færir mér einföld og góð verkfæri til að nota með viðskiptavinum mínum. Lykilatriði þessara fræða er það sem er kallað sálfræðilegt öryggi – sem er klárlega ein af okkar lykilþörfum þegar kemur að samskiptum við aðra, hvar sem við erum og á hvaða æviskeiði sem er. Það að upplifa nægjanlegt öryggi í hverjum þeim aðstæðum sem við erum til að geta verið við sjálf, gefið af okkur og tjáð hugmyndir okkar og skoðanir án þess að óttast það að vera dæmd eða niðurlægð fyrir. Að geta gert tilraunir með orð og hugsanir og gera mistök, meðtaka þau, læra af þeim og deila því opinskátt með öðrum. Í stað þess að óttast það að segja eða gera eitthvað rangt. Því nei, það er nefnilega ekki svo að þetta sé til staðar alltaf og alls staðar, ekki einu sinni í okkar nánustu fjölskyldum, því miður.

Þegar sálfræðilegt öryggi er til staðar þá upplifum við það að vera meðtekin eins og við erum og það sem við höfum fram að færa og einkennir okkur er viðurkennt, við upplifum öryggi og stuðning til að læra, spreyta okkur, gera tilraunir og leggja okkar af mörkum. Að það megi og eigi að ögra því sem fyrir er og að það má spyrja krefjandi og rýnandi spurninga.

Eitt áhugamála minna er að róa út á sjó á SUP bretti, sem sumum finnst merkilegt vitandi það að ég er óstjórnlega vatnshrædd. Þegar ég nota þessa samlíkingu út frá þessu sálfræðilega öryggi, verandi jú sannarlega vatnshrædd, en velja að treysta á sjálfan mig, búnaðinn minn og fólkið sem ég vel að róa með. Þannig fæ ég að taka áhættuna og takast á við krefjandi aðstæður vitandi það að ég hef það öryggi sem ég þarf í kringum mig, fæ að upplifa sæluna, árangurinn og stoltið af því að taka áskoruninni – þó að jú ég vissulega komi mis þurr í land, en alltaf lifandi og alltaf geggjað glöð.

Eins þegar ég hugsa um lán mitt með alla mína vinahópa og verandi einmitt núna í 5 daga ferðalagi erlendis með einum slíkum. Þar sem öllu er tekið af jafnaðargeði, forvitni, skilningi, húmor og gleði að leiðarljósi, líka þegar við erum þreytt, svöng og rammvillt. Þessi tiltekni hópur er á breiðu aldursbili, með ólíkan bakgrunn og klárlega ólík á alla mögulega enda og kanta. En við meðtökum og fögnum hvert öðru eins og við erum.

Í gær tók þessi hópur upp á því að æfa sig í því að standa á haus, sem er reyndar verkefni sem ég hef nokkrum sinnum spreytt mig á með svo gott sem engum árangri, verandi ekki með gott jafnvægi, takmarkaðan vöðvastyrk og já nokkurn fjölda kílóa sem í þessu verkefni þarf að snúa á hvolf. En ég skoraðist ekki undan þessari áskorun, með pepp og vinsamlegri hvatningu þessa góðu vina og það sem mestu skipti, að þau röðuðu sér í kringum mig til að styðja og aðstoða – tja nema þau sem voru með símana á lofti til að mynda afrekið. Þarna skipti engu hvort mér hefði tekist tignarleg að standa á haus eða ekki, það sem mestu skipti var að takast á við áskorunina vitandi að ég væri örugg, með rétta fólkið í kringum mig.

Munum það að fæstir fá góðar hugmyndir á hlaupum undan tígrisdýri, tja eða kannski á betur við að segja á hlaupum undan ísbirni á okkar slóðum.

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum.

Hver er þinn skilningur á því að heimilið eigi að vera „snyrtilegt“?

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
16. maí 2022 | kl. 06:00

Forvitni og faldir fjársjóðir

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
04. apríl 2022 | kl. 06:00

Fresta því að fresta

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
21. mars 2022 | kl. 06:00

Nei eða já? Þá veistu svarið

Sigríður Ólafsdóttir  skrifar
07. mars 2022 | kl. 06:00

Hvaða ég mætir í atvinnuviðtalið?

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
21. febrúar 2022 | kl. 06:00

Stjórnborð og stillingar

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
07. febrúar 2022 | kl. 06:00