Fara í efni
Magnaðir mánudagar

Stjórnborð og stillingar

„Magnaðir mánudagar“

3. pistill

Hvernig er ég í samskiptum?

Hvað einkennir þig helst í samskiptum? Hvernig myndu samstarfsfélagar þínir lýsa þér í samskiptum? Þetta eru algengar spurningar til dæmis í atvinnuviðtölum, þannig að ef þú spreytir þig á þessu núna ertu mögulega undirbúin fyrir þetta í næsta atvinnuviðtali. En burtséð frá atvinnuviðtölunum hvað spáið þið mikið í þessu í ykkar fari?

Á þessum magnaða mánudegi í ófærð og óveðri ætla ég að velta vöngum og pæla í samskiptum, og þeir munu örugglega verða fleiri pistlarnir sem snerta á þessu fyrirbæri, þetta er jú svo spennandi.

Dans eða jarðsprengjur?

Góð samskiptafærni er sannarlega gulls ígildi, ég pæli mikið í samskiptum og það er stór partur af starfi mínu að rýna í samskipti, leiðbeina og finna leiðir til að breyta og efla samskipti hjá einstaklingum og hópum. Já og meira að segja þjálfa ég fólk í því að eiga í þeirri tegund samskipta sem við köllum ágreining, og hafa gagn og gaman af ágreiningi, meira um það síðar. Þegar ég held námskeið og vinnustofur um samskipti ræðum við oft um hvað okkur finnst um samskipti og þá heyrast samlíkingar allt frá því að samskipti geti verið eins og að ganga um á jarðsprengjusvæði yfir í það að vera ljúfur, gefandi og fallegur dans í fullkomnum takti. Hver er þín samlíking um samskipti? Svo er það þessi skondna lýsing sem ég held að margir geti tengt við þegar okkur finnst við eitthvað misskilin: „Ég veit þú heldur að þú vitir hvað þér finnst ég hafa sagt, en það er ekki það sem ég meinti. Það sem ég sko í alvörunni meinti var ekki það sem ég sagði heldur það sem ég var að gefa í skyn og finnst að þú eigir að hafa skilið“.

Breytileg og breytanleg

Jú samskipti eru klárlega margbreytileg og mismunandi í takt við aðstæður, persónur og leikendur, samskipti eru persónuleg, persónubundin, tilfinningatengd, það er mismikið í húfi og þau eru breytileg og breytanleg. Já breytanleg, því við getum breytt mjög miklu um samskiptamáta okkar, þjálfað nýja færni, gert minna ef einu og meira af öðru og þjálfað þannig upp nýja samskiptavöðva. En forsenda þess er að kveikja á kastljósinu og kíkja í spegilinn og átta okkur á hvernig samskipta stjórnborðið okkar lítur út og hvernig við erum að vinna með stillingarnar okkar í samskiptum. Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Tengjum við ekki öll við það að hafa mögulega, kannski haft allt of hátt stillt á einhverju í samskiptunum okkar og of lágt á öðru? Algengasta gildran okkar er að stilla orðafjöldann of hátt og dýrmætu hlustunina of lágt, líka meira um það síðar.

Orð, raddblær og líkamstjáning

En samskipti eru ekki bara orðin sem við tjáum, raddblær og líkamstjáning eru líka samskipti. Allt eru þetta verkfærin sem við notum við að koma tjáningu okkar til skila til annars fólks. En það sem mér finnst mjög merkilegt er hvað sum fræði segja um hvernig við meðtökum hvern þessara þátta. Þegar einhver er að tala við okkur þá er 70% þess sem við meðtökum byggt á líkamstjáningu viðkomandi, 20% röddinni og 10% á orðunum sem eru sögð – pælið í því! Samt er eiginlega algengast þegar við undirbúum okkur fyrir fund, atvinnuviðtal eða samtal, að það eru orðin sem flest okkar leggja mesta áherslu á að æfa og raða rétt saman. Nú ætla ég að gera meira en bara það, og nota spegilinn oftar þegar undirbý mig. Deili svo með ykkur hér í lokin tilvitnun sem ég hef oft huggað mig við þegar ég er að bögglast með orðin mín eða hvað er nú réttast að tala um á þessu eða hinu námskeiðinu – og jú auðvitað skipta orðin miklu máli – en fólk gleymir fljótt því sem maður segir, en það man alltaf hvernig maður lét því líða.

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum

Hver er þinn skilningur á því að heimilið eigi að vera „snyrtilegt“?

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
16. maí 2022 | kl. 06:00

SUP, sæla og sálfræðilegt öryggi

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
02. maí 2022 | kl. 06:00

Forvitni og faldir fjársjóðir

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
04. apríl 2022 | kl. 06:00

Fresta því að fresta

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
21. mars 2022 | kl. 06:00

Nei eða já? Þá veistu svarið

Sigríður Ólafsdóttir  skrifar
07. mars 2022 | kl. 06:00

Hvaða ég mætir í atvinnuviðtalið?

Sigríður Ólafsdóttir skrifar
21. febrúar 2022 | kl. 06:00