Fara í efni
Umræðan

Umhverfismálin – ég hef áhyggjur

Ég hef oft skrifað og rætt það ógæfusama skref að vista umhverfismálin á Akureyri í mannvirkjanefnd. Óttaðist að það hefði hefði í för með sér minni áherslur og minni áhuga á að taka þessi mikilvægu mál af festu. Að gera þau að hornkerlingu í óskyldum málaflokki eru mistök. Síðan hafa loftslagsmálin bæst við af fullum þunga og því enn mikilvægara að taka þennan málaflokk föstum tökum og koma umhverfis- og loftslagsmálum út mannvirkjaráði og stofna um hann sjálfstæða nefnd sem sinnir þessum mikivæga málaflokki, bæði hugmyndafræðilega og framkvæmdalega.

En af hverju þessar áhyggjur?

Hefur utanumhald um þennan málaflokk dalað og er allt í sóma á Akureyri? Því miður má sjá þess merki að svo er ekki. Endalaus barátta Heilbrigðisnefndar við einstaklinga hvað varðar lausadrasl og bílflök. Þó svo tugir og hundruð bílflaka sé fjarlægð á hverju ári sér varla högg á vatni. Númerslaus bílhræ eru í miklum mæli á einkalóðum þar sem erfiðara er að eiga við að fjarlægja. Lóðir allt of margra fyrirtækja eru einn allsherjar ruslahaugur og metnaður virðist víða vera af skornum skammti að hafa málin í góðu lagi. Ef áhugi og utanumhald um þessi mál væru í góðum höndum hjá sérstakri umhverfisnefnd sem ekki aðeins beitti sér í hinum daglegu viðfangsefnum heldur stæði jafnframt fyrir fræðslu um þessi mál og með því að breyta hugarfarinu sem er full þörf á. Ég hef áhyggur af því tómlæti sem ég upplifi þegar kemur að því að fylgja málum eftir í bæjarkerfinu. Þó er auðvitað ljós í myrkrinu og mörg fyrirtæki og einstaklingar hafa mikin metnað í að hafa umhverfi sitt vel hirt og tíl sóma. En hin eru of mörg að mínu mati.

Og svo er það ásýnd bæjarins. Í dag er 17. júni og þá ætti bærinn að taka á móti gestum og gangandi með sínu bliðasta brosi. Víða hefur eitthvað gerst en þegar liðinn er nokkur hluti sumars blasa við tóm blómaker og blómabeð í almannarými, þau skarta víða arfabreiðum og engin blóm. Þar má t.d. nefna Eiðsvöllinn sem hefur verið án nokkurra blóma þó nú sé komið langt fram á sumar. Þetta er ekki í lagi og ég er sannfærður um að ef væri sérstök umhverfisnefnd sem bæri á þessu ábyrgð, væri þetta ekki svona. Myndin af Eiðsvelli var tekin seinni partinn í gær. Myndin af blómakerjunum við Torfunef var líka tekin þá, en þar voru komin blóm í gærkvöldi, á síðustu stundu fyrir þjóðhátíð.

Ég skrifaði smá pistil um lúpínuna í Krossanesborgum og nauðsyn þess að hún væri slegin í tíma. Fór þar í gær og ekkert hefur gerst. Sama má segja um Hrísey, þar er lúpínu og kerfilssláttur ekki hafinn. Það er tómlæti og langt frá því ásættanlegt.

Ég er nokkuð viss um að einhverjum finnist þetta vera nöldur. Kannski er það það en ég er svo bjartsýnn að bæjaryfirvöld sjái þessar staðreyndir og endurskipuleggi þennan málaflokk í takt við nútímalegar kröfur í umhverfismálum. Því miður óttast ég að svo verði ekki og þess vegna er ég að „nöldra“ í þeirri von að eitthvað gerist og undið verði ofan af þeim mistökum, þegar umhverfismálum á Akureyri var troðið inn á alls óskyldan málaflokk öllum til tjóns, því verður að breyta.

Við verðum að sinna umhverfismálum hér í bæ af meiri festu og athygli, bærinn okkar er ekki nógu snyrtilegur og tómahljóð er í umræðunni um loftlagsmál.

Vilja ekki allir breyta því ?

Jón Ingi Cæsarsson er fyrrverandi formaður umhverfisnefndar Akureyrar

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15