Fara í efni
Umræðan

Þegar bakarinn er hengdur fyrir smiðinn

Það ætlar allt um koll að keyra í samfélaginu yfir niðurstöðum nýrrar Pisakönnunar. En eftir því sem ég best sé er ekki rætt við fólkið sem ber hitann og þungann í skólakerfinu, kennara. Það er rætt um þá. Það hafa sést yfirlýsingar þess efnis að íslenskt skólakerfi sé handónýtt sem hlýtur þá að þýða í huga þeirra sem gagnrýna að kennarar einir beri ábyrgð á læsi barna og ungmenna á Íslandi. Ég er búin að kenna ungmennum í 35 ár og leyfi mér því að skrifa þessa hugleiðingu með það að leiðarljósi að varpa ljósi á þær breytingar sem hafa orðið á skólakerfinu og samfélaginu á þessum árafjölda.
 
Í fyrsta lagi verðum við að gera okkur grein fyrir því að læsi snýst ekki bara um það að lesa á bók, skilja hana og geta endursagt. Læsi er margþætt. Það snýst ekki síður um hæfnina til að lesa í umhverfi, lesa í aðstæður, lesa í annað fólk, lesa í tilfinningar og lesa í líðan. Ef öllu þessu er sinnt í uppeldi barna þá fara þau keik út í lífið.
 
Það sem ég hef lesið í samfélagið á síðustu árum er að læsi er afar takmarkað. Við erum þjóð í vanda. Við lifum við stjórnvöld sem leynt og ljóst stuðla að stéttaskiptingu en á sama tíma hefur dómstóll götunnar fengið meira vægi með tækninni. Börnin okkar hafa líka óheftan aðgang að tækninni. Á samfélagsmiðlum geta þau lesið hvernig fullorðna fólkið tekur á málum, með vonbrigðin og reiðina að vopni. Á meðan fólk tjáir sig á bak við skjái verður ekkert heilagt og mannorð fólks verður að engu. Það koma börnin með inn í skólana.
 
Frá fyrstu tíð hefur skólakerfinu verið ætlað að sinna fræðslu og það eru allir meðvitaðir um sem sinna kennarastarfinu. Hinsvegar hafa þær breytingar orðið á starfinu að tími kennara fer að mestu leyti í það að ala börn upp og leysa úr vandamálum þeirra og vanlíðan. Það eru áhrif frá breyttri samfélagsgerð. Að sjálfsögðu eru til foreldrar sem sinna hlutverki sínu af ábyrgð en samt sem áður eru alltof mörg börn að glíma við afskiptaleysi, margslungið ofbeldi, fíknir og úrræðaleysi þeirra sem eiga að bera ábyrgð á þeim. Sá vandi allur kemur inn í skólana. Það fæðist enginn vondur, reiður eða fordómafullur. Það er kennt af samfélaginu. Barn sem upplifir vanrækslu tekur sér ekki bók í hönd til að lesa að kappi, allur tími þess fer í að reyna að skilja hina fullorðnu, bera ábyrgð á reiðinni, fordómunum og tilgangsleysinu og passa upp á fullorðna fólkið. Þegar þessi börn koma í skólann fá þau útrás fyrir vanþekkingu sína og vonbrigði, trufla eigið nám og annarra. Við köllum það agaleysi.
 
Í umræðu síðustu daga rak mig í rogastans þegar ég sá yfirlýsingar frá aðstoðarskólastjóra í skóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann gagnrýndi harðlega skólana sem hafa þorað að taka tæknina í sínar hendur til að bæta nám og fylgja eftir þeirri þróun. Tæknin er ekki að fara frá okkur. Við þurfum einmitt að kunna að nýta okkur hana til að gefa fleirum tækifæri til náms. Hann talaði um umbúðanám sem þýðir greinilega að við gefum nemendum tækifæri til að gúggla, setja verkefni í litríkan búning án þess að nokkurt nám fari fram. Til þess að gúggla þarftu að kunna að lesa. Það er algjörlega ofar mínum skilningi að starfsmaður skólakerfisins skuli draga það niður með þessum hætti. Staða skólakerfisins í dag er sú að ungir kennarar flýja af hólmi vegna þess að starfið er mjög erfitt og slítandi og fáránlega illa launað miðað við álag og ábyrgð!
 
Eins og áður sagði þá hef ég sinnt kennarastarfinu í áratugi og stutt í starfslok. Því væri óneitanlega þægilegast fyrir mig að koma mér fyrir í skóla sem kenndi á gamla móðinn. En ég er ekki þannig gerð og vil gjarnan fylgja þróun í skólastarfi. Þess vegna hef ég síðustu ár kennt í ungum skólum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og nú á Reykjanesi, nánar tiltekið í Stapaskóla. Núna er ég starfsmaður í skóla sem hefur leitt tækniþróunina áfram í skólastarfi og margir aðrir skóla líta til starfsins sem við erum að þróa. Ég hafna því algjörlega að þar sé nám einungis umbúðirnar. Sjálf er ég íslenskukennari og ég myndi aldrei leggja verkefni fyrir nemendur án innlagnar og fræðslu. Sama gildir um aðrar námsgreinar. Ég hef hvergi starfað þar sem nemendur eru eins meðvitaðir um hæfniviðmið sem þeir þurfa að vinna með og ná. Það er hinsvegar okkar kennaranna sem fagfólks að fylgjast með að námið sé umbúðalaust. Það er óþolandi þegar starfsmenn skólakerfisins fara að vinna gegn þróuninni. Með breyttum kennsluháttum og fjölbreyttari erum við að gefa fleirum tækifæri - einmitt börnunum sem glíma við allskyns raskanir, áhugaleysi og vanlíðan.
 
Starf á nýjum vinnustað hefur hreint ekki verið auðvelt fyrir mig, komna nærri starfslokum en leiðsögn miklu yngra fólks hefur bætt miklu við hæfileika og reynslu mína sem gamalreynds kennara. Yfirlýsingar Jóns Péturs Zimsen aðstoðarskólastjóra í Réttarholtsskóla eru ekki til þess fallnar að laða nýtt fólk að kennarastarfinu.
 
Það er fátt sem skólakerfinu er ekki ætlað að sinna og í dag las ég viðtal við doktor í sálfræði sem taldi það vera hlutverk skólans að kenna samkennd því í niðurstöðum Pisakönnunar kemur Ísland illa út úr því. Kennarar í íslensku skólakerfi vinna með samkenndina á hverjum einasta skóladegi ársins. Öðruvísi væri ekki hægt að vera umsjónarkennari. En ef það fer ekki saman við það sem gerist úti í samfélaginu þá er ekki hægt að vænta árangurs. Þannig er það líka með lestur og lesskilning.
 
Ef samfélag er helsjúkt af meðvirkni, reiði og beiskju þá hlýtur það að skila sér til næstu kynslóða! Fullorðna fólkið ber ábyrgðina! Árásir á skólakerfið breyta engu um niðurstöður Pisakannana en niðurstöðurnar geta orðið samfélaginu öllu vegvísir að breytingum. Þarna kemur taktur íslensks samfélags berlega í ljós - að hengja bakarann fyrir smiðinn og halda að það breyti einhverju.
 
Hlín Bolladóttir er grunnskólakennari til áratuga, nú í Stapaskóla í Reykjanesbæ

Jöfn tæki­færi til menntunar

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. október 2024 | kl. 22:30

Góð leiksvæði eru gulls ígildi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. október 2024 | kl. 09:30

Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. október 2024 | kl. 06:00

Heil­brigðis­stofnun Norður­lands 10 ára í dag

Jón Helgi Björnsson skrifar
01. október 2024 | kl. 12:20

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
28. september 2024 | kl. 12:00

Hvað segir það um málstaðinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00