Fara í efni
Umræðan

Byggingarlist fyrir aldraða

Hvað er byggingarlist? Góð byggingarlist felst í samþættingu þriggja þátta; notagildi, tæknilegum gæðum og fegurð. Þetta sagði Vitrúvíus í 10 bókum um byggingarlist 15-30 árum fyrir Krist.

Íbúðarhús sem byggð voru í íslenskum bæjum undir lok nítjándu aldar og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu voru að mestu klassísk byggingarlist sem bar með sér einkenni hefðbundinna timburhúsa í Skandinavíu og áhrif frá herragörðum og heldrimannahíbýlum í Danmörku og Þýskalandi. Þessar íbúðir hafa ákveðna jákvæða eiginleika hvað snertir notagildi og eru eftirsóttar.

Á uppgangsárum eftirstríðsára og síldarára þegar stóru árgangarnir svo kölluðu sem fæddust frá miðjum sjötta áratugnum og fram á þann sjöunda uxu úr grasi, var byggingarlistin á Íslandi og í Norður-Evrópu komin undir áhrif fúnksjónalisma (nytjastefnunnar) og módernisma, nútímabyggingarlistar, þar sem flokkun og aðgreining allra þátta voru ær og kýr hönnuða. Gömlu klassíkinni var fórnað fyrir meinta hagkvæmni. Fram kom það sem kalla má kjarnafjölskylduíbúð þar sem öll rými íbúðarinnar voru sérhæfð miðað við ætlaða notkun. Í stað íbúða með áþekkum herbergjum (algildum) eins og byggðar voru á fyrstu áratugum 20. aldar komu íbúðir með sérhæfðum og sérsniðunum rýmum. Íbúðagerðin miðast við barnafjölskyldur eftirstríðsáranna og byggðist á hugmyndafræði funksjónalismans (die wohnung für das existenzminimum).

  • Í dæmigerðri kjarnafjölskylduíbúð er notkun rýma/herbergja ákveðin fyrirfram með stærð, staðsetningu og tengslum. Íbúðarherbergi í dæmigerðri kjarnafjölskylduíbúð eru stór stofa, eldhús (sér eða í stofu), eitt hjónaherbergi og eitt eða fleiri lítil barnaherbergi. Herbergin tengjast yfirleitt ekki sín í milli. Íbúðirnar eru deildarskiptar í göngudeild og legudeild, sem eru sitt hvor botnlanginn.

Við sleppum frávikum, flækjum og flóknum bónusfjölskyldum og búum okkur til dæmi um fjölskyldu með hjónum sem búa saman í ca. 60 ár frá 20/25 ára aldri til 80/85 ára. Smábörn gætu verið á heimilinu í 15-20 ár og börn/unglingar í 20-30 ár. Fjölskyldan gæti því verið barnlaus í um helming af „líftíma” fjölskyldunnar. Kjarnafjölskylduíbúðin er hugsanlega hentug og hagkvæm í ca. 15 ár af þessum 60. Meirihluta tímans er leitast við að nýta herbergiskytrurnar fyrir eitthvað annað en þær voru hannaðar fyrir. Það er auk þess umhugsunarefni hvort þessi litlu herbergi séu yfirleitt heppileg sem barna- eða unglingaherbergi.

  • Íbúðir með rúmgóðum, algildum, rýmum sem nýst geta á fjölbreyttan hátt og tengjast jafnvel innbyrðis mæta betur þörfum fólks/fjölskyldna á öllum aldurskeiðum en kjarnafjölskylduíbúðin. Rúmgóð fjölnýtanleg rými geta nýst sem svefnherbergi, vinnuherbergi, bókastofa, borðstofa, setustofa, unglingaherbergi, barnaherbergi, tveggja manna herbergi, gestaherbergi o.s.frv. Tengsl rýma skipta einnig máli fyrir nýtingarmöguleika þar sem tengingar milli rýma og hringleiðir innan íbúðar hafa jákvæð áhrif á rýmisskynjun og notkunarkosti. Skemmtilegur mælikvarði á þessa eiginleika gæti verið að pæla í því í hvaða herbergjum (öðrum en í stóru stofunni) borðstofan eða alrými fjölskyldunnar gæti verið. Dæmi um nothæfar herbergjastærðir eru t.d. 3,5x3,9 m, 3,6x3,6 m og 4x4 m. Á móti getur stofa verið minni (4x5 m).

Allar fjölbýlishúsaíbúðir, sem byggðar hafa verið á Akureyri undanfarna áratugi eru kjarnafjölskylduíbúðir eða afsprengi þeirra í mismunandi stærðum og af mismunandi gæðum. Hvers vegna eru ekki framleiddar aðrar íbúðagerðir? Er það vankunnátta húsateiknara, hugsunarleysi hönnuða, metnaðarleysi byggjenda/framleiðenda eða stjórnleysi/stefnuleysi byggingaryfirvalda? E.t.v. allir þessir þættir samanlagðir. Í íbúðarhúsum, sem byggð hafa verið sérstaklega fyrir aldraða, eru íbúðirnar einnig af þessari gerð í grunninn.

Það þarf að bjóða upp á fjölbreytni í íbúðagerðum, þ.e. að ekki verði einungis framleiddar íbúðir fyrir eitt skeið í lífi fjölskyldna, þ.e. þegar börn eru á heimilinu, sem í mörgum tilvikum er einungis um 1/3 af „líftíma“ fjölskyldunnar.

  • Fjölmennir (og nú barnlausir) árgangar eftirstríðsáranna eru enn á húsnæðismarkaði; markaði sem sinnir illa þörfum þeirra fyrir hentugar íbúðir. Íbúðir með rúmgóðum rýmum með fjölbreyttum nýtingarmöguleikum henta öllum, einnig barnafjölskyldum, og styðja þar með við almenn umhverfismarkmið með fjölbreyttu notagildi og auknum líkum á löngum endingartíma.

Notagildi er grundvallaratriði góðrar byggingarlistar, auk fegurðar og tæknilegra gæða. Nú ættu þeir sem vinna að skipulagi íbúðarbyggðar, undirbúningi, hönnun og byggingu „íbúða fyrir aldraða“ eða „íbúða fyrir eldra fólk“ eða hverju nafni sem við nefnum það að pæla í eiginleikum og notagildi íbúðanna þannig að þær henti sem flestum og verði ekki sérhæfðar með takmörkuðu notagildi. Eðli máls samkvæmt skiptir þetta meira máli fyrir barnlausar fjölskyldur, t.d. fullorðin hjón eða sambýlinga, en fyrir yngri barnafjölskyldur.

Vönduð bygging með góðum íbúðum mun nýtast mörgum kynslóðum. Í því felst ákveðin og raunhæf „umhverfisvottun“. Hagsmunafélög aldraðra, hönnuðir, framkvæmdaaðilar og sveitarfélög: Leggjum áherslu á góða byggingarlist fyrir roskið fólk og aldraða. Það kemur öllum vel.

Árni Ólafsson er arkitekt

Drenglyndi kvartar til Persónuverndar

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
30. september 2025 | kl. 10:00

Háskólinn á Bifröst – Öflugur og sjálfstæður fjarnámsskóli

Sólveig Hallsteinsdóttir skrifar
26. september 2025 | kl. 14:00

Lýðræðið og kirkjan

Auður Thorberg skrifar
25. september 2025 | kl. 09:30

Við vorum líka með plan

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
22. september 2025 | kl. 12:00

Greinin vex í þá átt sem hún er beygð

Guðmundur Ævar Oddsson skrifar
19. september 2025 | kl. 16:00

Áskorun vegna menntastefnu Akureyrarbæjar

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir skrifar
19. september 2025 | kl. 12:00