Valur Sæmundsson skrifar
01. desember 2025 | kl. 21:30
Ragnar Óli, Ýmir Már og Sigfús Fannar voru allir í byrjunarliði Þórs þegar liðið vann Þrótt í lokaumferð Lengjudeildarinnar í haust og tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni. Mynd: Ármann Hinrik.
Knattspyrnudeild Þórs tilkynnti um helgina að Atli Sigurjónsson og Ágúst Eðvald Hlynsson væru á leið til félagsins á ný, eins og akureyri.net sagði frá, og í dag var greint frá því á vef Þórs að þrír leikmanna liðsins hefðu framlengt samning við félagið, framherjinn Sigfús Fannar Gunnarsson, markahæsti og besti leikmaður næst efstu deildar Íslandsmótsins í sumar, og varnarmennirnir Ragnar Óli Ragnarsson og Ýmir Már Geirsson.
Ragnar Óli skrifaði undir framlengingu á samningi sínum út keppnistímabilið 2028. Hann er 22ja ára varnarmaður og uppalinn Þórsari. Alls hefur hann leikið 108 leiki í meistaraflokki fyrir Þór, þar af 21 leik í Lengjudeildinni síðastliðið sumar.
Ýmir Már framlengdi sinn samning út keppnistímabilið 2026. Ýmir lék 19 leiki í Lengjudeildinni í sumar og hefur leikið alls 55 leiki í Þórsbúningnum. Hann hefur einnig leikið með Magna, KA og Dalvík/Reyni á meistaraflokksferli sínum.
Sigfús Fannar skrifaði undir framlengingu á samningi sínum út keppnistímabilið 2028. Hann lék 21 leik í Lengjudeildinni í sumar og var bæði markahæsti og besti leikmaður deildarinnar, þar sem hann skoraði 15 mörk. Alls hefur Sigfús spilað 82 leiki fyrir Þór í meistaraflokki en þessi 23 ára gamli sóknarmaður fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og hefur einnig leikið eitt tímabil með Dalvík/Reyni í meistaraflokki.