Samið við SS Byggi um brú og jöfnunarstöð
Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar ákvað á dögunum að ganga til samninga við SS Byggi ehf. um gerð brúar og stofnstígs yfir Glerá, ásamt jöfnunarstöð fyrir strætisvagna. Verkið hefur tvívegis verið boðið út, án þess að viðunandi tilboð bærust. Ekki var einhugur í ráðinu um ganga til samninga um verkið á þessum tímapunkti.
Jöfnunarstöð fyrir strætisvagna bæjarins hefur um langt árabil verið í miðbæ Akureyrar en vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda við Hofsbót þurfti að finna henni annan stað. Eftir að ýmsir kostir höfðu verið skoðaðir var ákveðið að jöfnunarstöðin yrði við Borgarbraut, norðan Glerártorgs. Auk stöðvarinnar var ákveðið að ráðast í byggingu göngubrúar yfir Glerá, stígagerð fyrir aðliggjandi göngu- og hjólastíga ásamt gangbraut yfir Borgarbraut til móts við Glerártorg.
Verkið var fyrst boðið út árið 2024 en þá barst ekkert tilboð. Aftur var boðið út síðastliðið vor og eina tilboðið sem barst var 55% yfir kostnaðaráætlun. Því tilboði var hafnað og nú hefur ráðið ákveðið að semja við SS Byggi um verkið. Kristín Helga Schiöth, fulltrúi Samfylkingarinnar í ráðinu, greiddi atkvæði á móti.
Ólafur Kjartansson, áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í umhverfis- og mannvirkjaráði, lagði til að hönnun brúarinnar yrði endurskoðuð, meðal annars með það að markmiði að breidd hennar gæti þjónað aðskildri umferð hjólandi og gangandi, en sú tillaga var felld.
Kristín Helga og Ólafur lögðu fram eftirfarandi bókun, eftir að samþykkt var að ganga til samninga við SS Byggi um verkið:
Að mati undirritaðra er mikilvægt að byggja upp viðunandi innviði til almenningssamgangna í Akureyrarbæ og þar skiptir aðgengi, umferðarflæði og aðstæður fyrir farþega og starfsfólk miklu máli. Undirrituð lýsa efasemdum um staðsetningu og útfærslu jöfnunarstoppistöðvar m.t.t. ofantalinna þátta. Ekki er fyllilega ljóst hvernig kostnaðarskipting verður milli ríkis og sveitar og að mati undirritaðra ekki tímabært að ganga til samninga við verktaka fyrr en það fyrirkomulag liggur fyrir.
Treystir Viðreisn þjóðinni í raun?
Hvað þarf að gerast til að stórauka framboð íbúða og lækka verðið?
Braskvæðing almannagæða – fúsk og græðgi
Innflytjendur, samningar og staðreyndir