SA-konur langefstar eftir sigur á SR í kvöld
Kvennalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí vann lið Skautafélags Reykjavíkur í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld og þarf aðeins einn sigur í viðbót í síðustu fjórum leikjum sínum til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Lokatölur urðu 3-1. Mótið hefur verið óvenju ójafnt í ár, SA er með 33 stig, SR með 17 stig og Fjölnir eitt stig.
Leikurinn var að mestu nokkuð jafn, en það voru heimakonur í SA sem voru beittari upp við mark andstæðinganna. Sólrún Assa Arnardóttir náði forystunni fyrir SA eftir þriggja mínútna leik og staðan 1-0 eftir fyrstu lotuna. Berglind Rós Leifsdóttir jafnaði á 4. mínútu í annarri lotunni með eina marki SR í kvöld, en Silvía Rán Björgvinsdóttir náði aftur forystunni fyrir SA tíu mínútum síðar. Það var svo Amanda Ýr Bjarnadóttir sem bætti við þriðja markinu þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir af leiknum.
SA - SR 3-1 (1-0, 1-1, 1-0)
- 1-0 - Sólrún Assa Arnardóttir (3:01). Stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Amanda Ýr Bjarnadóttir.
SA komst í hraða sókn, voru komnar þrjár á móti einum varnarmanni og svo tveimur. Silvía Rán fékk sendingu fram miðjuna, skautaði með pökkinn aftur fyrir markið og renndi honum út á Sólrúnu Össu sem skoraði af stuttu færi.
- - - - 1-1 - Berglind Rós Leifsdóttir (23:33). Stoðsendingar: Teresa Snorradóttir, Birta Sól Hafsteinsdóttir.
Atgangur uppi við og aftan við mark SA sem endaði með því að Teresa var óvölduð framan við markið, átti skot sem Shawlee varði, en Berglind Rós náði að stinga kylfunni í pökkinn og koma honum í markið. - 2-1 - Sylvía Rán Björgvinsdóttir (33:15). Stoðsendingar: Anna Sonja Ágústsdóttir, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir.
SR-ingar voru í sókn og nokkur þvaga framan við mark SA, en þær rauðu unnu pökkinn, Silvía Rán slapp ein inn fyrir varnarmenn SR og lék á markvörð SR.
- - - - 3-1 - Amanda Ýr Bjarnadóttir (46:16). Stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Sólrún Assa Arnardóttir.
Dómarakast í sóknarsvæðinu sem Silvía Rán vinnur, Sólrún Assa á misheppnaða skottilraun beint fyrir framan markið, pökkurinn berst til Amöndu sem skorar af stuttu færi.
Helstu tölur úr leiknum:
SA
Mörk/stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/2, Sólrún Assa Arnardóttir 1/1, Amanda Ýr Bjarnadóttir 1/1, Anna Sonja Ágústsdóttir 0/1, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 26 af 27 (96,3%).
Refsingar: 10 mínútur.
SR
Mörk/stoðsendingar: Berglind Rós Leifsdóttir 1/0, Teresa Snorradóttir 0/1, Birta Sól Hafsteinsdóttir 0/1.
Varin skot: Julianna Thomson 27 af 30 (90%).
Refsingar: 4 mínútur.
SA er langefst í deildinni, er með 33 stig úr 12 leikjum og er liðið enn ósigrað það sem af er tímabilinu. Aðeins þrisvar hefur þurft framlengingu til að knýja fram úrslit og hefur SA ávallt tekið aukastigið. SR er í 2. sætinu með 17 stig, en á sex leiki eftir og getur því farið í 35 stig og náð toppsætinu, ef allt gengur upp hjá SR og allt á afturfótunum hjá SA. Þrír af fjórum leikjum sem SA-konur eiga eftir eru reyndar á móti SR, þar af tveir á útivelli. SA á aðeins einn heimaleik eftir í deildinni, áður en kemur að úrslitakeppni, en sá leikur er gegn SR sunnudaginn 8. mars.
Samstaða í ferðaþjónustu aldrei mikilvægari
Ríkisrekinn byggðahalli
35% aukning í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll
Akureyrarflugvöllur - Brú milli Norðurlands og umheimsins