Fara í efni
Umræðan

Rætur Verkmenntaskólans á Akureyri

Verkmenntaskólinn á Akureyri, sem tók til starfa haustið 1984, varð til úr mörgum menntaeiningum sem allar fengu betri sess í nýjum, sameinuðum skóla. Hann stendur á mörgum rótum og ég lít á hann eins og stórt og laufmikið tré.

Ég hef stundum sagt að tvennt sem ég tók þátt í sem skólameistari Verkmenntaskólans hafi skipti verulegu máli.

Annars vegar það þegar við fengum vélarrúmshermi, þann fyrsta á Íslandi. Vélarrúmshermirinn gerði okkur mögulegt að fjölga námsstigum. Við gátum kennt tvö stig en það þriðja og fjórða bættist þarna við og þá var loks kominn fullgildur vélskóli á Akureyri.

Hitt var þegar félögum mínum, séra Hauki Ágústssyni og Adam Óskarssyni, datt í hug að bjóða upp á fjarkennslu í gegnum tölvu. Verkmenntaskólinn varð þá fyrstur framhaldsskóla á Íslandi til að bjóða fjarnám. Haukur hafði haldið ræður yfir mér og fleirum um hve bréfaskóli SÍS hefði verið merkilegur og segja má að þetta hafi verið bréfaskóli SÍS í tölvukerfi. Nemendur skiptu hundruðum þegar mest var.

Vélarrúmshermirinn var tölvukerfi sem líkti eftir vél í togara, smíðað fyrir okkur í Noregi. Við nutum stuðnings yfirvalda til að kaupa hann og buðum bæjarstjórn og fleira fólki að vera viðstatt þegar Sigfús Jónsson bæjarstjóri, fyrrverandi nemandi minni í landafræði, ýtti úr vör.

Norðmaðurinn sem setti vélina upp var búinn að fá beiðni um að setja villur inn svo bæjarstjórinn lenti í vanda eftir að hann ýtti á takkann! Vélin fór í gang og siglt var út úr dokkinni en hann var ekki kominn nema fimm eða sex skipslengdir þegar viðvörunarbjalla hringdi. Sigfús ýtti á takka en þá heyrðist í fleiri viðvörunarbjöllum og í lúðri. Sigfús var þá munstraður af, þótt hann væri doktor í landafræði!

Vélstjórn

Um aldamótin 1900 koma fyrstu vélar í báta og skip og á sama tíma nýtt viðhorf til veiða og útgerðar. Menn gátu sótt lengra og farið víðar, þurftu ekki að treysta á segl eða árar. Þá kom þörf fyrir að kenna fólki að nota þessi tæki og gera þau sér að gagni. Farið var að búa til námskeið handa verðandi vélstjórum á vegum Fiskifélags Íslands. Þau voru haldin víða um land og smám saman kom meiri festa í námið. Í Eyjafirði voru haldin mótoristanámskeið, eins og þau voru kölluð, frá 1919 til 1965 eða þar um bil og alls voru um 500 nemar brautskráðir. Húsnæði fékkst niðri á Tanga þar sem settar voru settar inn vélar. Ég fékk bréf frá manni sem lýsti því fyrir mér hvernig var að vera nemandi þar, sem var í sjálfu sér mjög gott, en hann sagði um tækin að mörg voru farin að togast við aldur – voru orðin gömul og svöruðu ekki þróuninni.

Síðar var námið tengt Iðnskólanum þar sem var sérstök vélskóladeild sem féll svo inn í Verkmenntaskólann þegar hann var stofnaður. Það var nauðsynleg framför. Margir lærðu meira í kjölfarið en sumir þeirra fóru aldrei á sjó að gagni því að líka er þörf fyrir vélstjóra í landi. Þetta var atvinnuvegamiðað nám, vísir að því að sem seinna varð.

Stýrimannanám

Hákarlaveiðar voru stundaðar á opnum bátum, átta eða tíu manna förum, og siglingatæki engin nema sólin ef hún sást. Ótalmargir harmleikir urðu á 19. öldinni; dæmi eru um mikið tjón á skipum og ungum mönnum. En svo höfðu menn pata af því að þetta þyrfti að læra og um miðja 19. öld byrjuðu menn að fara utan, einkum til Kaupmannahafnar, og læra þar til stýrimanns, siglingafræði og annað sem til þurfti.

Þá óx vegur sjómennskunnar.Þarna voru komnir vélstjórar og menn sem kunnu siglingafræði, stýrimenn og skipstjórar. Það gjörbreytti sjómennskunni. Þegar síldveiðar Íslendinga hófust snemma á 20. öldinni voru bátar eða skip stærri en áður og þau voru vélknúin, gufuknúin eða með mótor. Það þýddi meiri burðargetu, meiri sókn og menn þoldu verra veður.

Stýrimannanám var haldið í námskeiðum eins og vélstjórnin.Stýrimannaskólinn á Dalvík hóf göngu 1981. Hann tengdist þá gagnfræðaskólanum í bænum og gerði nokkuð lengi en komst svo í umsjá Verkmenntaskólans á Akureyri. Deildarstjórinn þar heyrði undir Verkmenntaskólann.

Í fyrstu var hægt að taka tvö stig á Dalvík en það þriðja bættist við síðar. Þetta var gott nám sem margir sóttu. Rúmlega 300 skipstjórnarmenn voru brautskráðir með fyrsta og annað stig á Dalvík, 190 með fyrsta stig og 134 héldu áfram og tóku annað stigið. Ég veit um nemendur úr þessu námi á Dalvík sem síðar urðu skipstjórar á stærstu skuttogurunum okkar. Námið á Dalvík fjaraði út og það var lagt niður 1989.Þetta var bæði atvinnutengt nám og öryggistengt. Að því loknu áttu menn að kunna að sigla og bregðast við bæði veðri og vindum.Þarna voru komnir menn með vélamenntun og skipstjórnarmenn, sem var líka öryggisatriði.

Tækniskólinn

Hugmyndir um að setja á stofn tækniskóla á Íslandi kviknuðu upp úr 1960. Skólinn var settur á fót í Reykjavík en nokkur átök höfðu verið um hvar hann ætti að vera. Bæði þingmenn og ýmsir aðrir valdamenn reyndu að fá hann norður til að auka menntunarmöguleikana þar því að mikil þörf var fyrir tæknimenntun á ýmsum sviðum á þessum tíma sem endranær. Miklar tilraunir voru gerðar af hálfu Akureyringa til að fá skólann norður en af því varð ekki. Akureyringar fengu í staðinn að kenna fyrir norðan eitt stig í Tækniskólanum og nokkrum árum seinna kom möguleiki á öðru stigi. Þetta voru undirbúnings- og raungreinadeildir og mjög miðaðar að tæknilegri hugsun og vinnu. Við áttum ekkert húsnæði svo að þeir voru fyrst í gamla Búnaðarbankanum við Geislagötu en fluttu upp í Iðnskóla eftir að húsið við Þingvallastræti hafði verið byggt.

Margir verkfræðingar og tæknifræðingar önnuðust kennslu í sérstökum greinum en kennarar úr Gagnfræðaskólanum og Iðnskólanum sáu um aðrar greinar. Þetta nám varð síðar hluti af Verkmenntaskólanum.

Sjúkraliðar

Stúlkur höfðu verið menntaðar til aðstoðarstarfa á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Steingrímur Matthíasson, sem var hér læknir lengi, frá 1907 til 1936, tók stúlkur og kenndi þeim í nokkrar vikur, en þetta var var fyrst og fremst tilraun. Upp úr 1960 koma fram hugmyndir um að auka þetta nám hér á Akureyri. Sú kennsla var á Fjórðungssjúkrahúsinu og þar útskrifaðist einn karlmaður, Jóhann Konráðsson – Jói Konn. Hann var fyrsti karlinn sem hlaut sjúkraliðaréttindi, þremur vikum á undan þeim fyrsta í Reykjavík, var mér sagt.

Síðar varð sjúkraliðanámið hluti af framhaldsdeildunum í Gagnfræðaskóla Akureyrar og fór svo upp í Verkmenntaskólann þegar hann var stofnaður 1984. Einhver hundruð sjúkraliða hafa verið útskrifuð, margir héldu áfram og luku stúdentsprófi og fóru svo í hjúkrun á eftir. Þetta var þrep til meiri menntunar.

Sjúkrahúsið brautskráði um 200 sjúkraliða og eftir að námið kom í Gagnfræðaskólann voru brautskráðir um 100 þaðan þangað til Verkmenntaskólinn var stofnaður og námið fluttist þangað.

Húsmæðraskólinn

Þegar rætt er um húsmæðramenntun verður að horfa til þess hvernig heimilishaldið var á venjulegu heimili til sveita eða við sjávarsíðuna. Hvert heimili átti að vera sjálfbjarga, þar var bæði matvælaframleiðsla og fatagerð.

Á seinni hluta 19. aldar var farið að stofna til húsmæðraskóla. Þá urðu til Kvennaskólinn í Reykjavík og skóli á Ytri-Ey í Austur Húnavatnssýslu.Enn fremur var stofnaður skóli á Laugalandi í Eyjafirði 1874 en var fyrst settur 1877. Nemendur voru tólf fyrsta árið, allar nema ein úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Skólinn óx og dafnaði og varð stór stofnun.

Félög kvenna skoruðu seinna á yfirvöld að stofna fleiri húsmæðraskóla og árið 1941 voru sett lög um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum. Bæjarstjórn Akureyrar sótti um að mega stofna til húsmæðraskóla hér í bænum og reist var undir hann sérstakt hús sem menn þekkja.

Þetta nám fjaraði út um miðjan sjöunda áratuginn. Þá breyttist skólinn í námskeiðaskóla þar sem haldin voru ýmis námskeið, til dæmis í vefnaði, prjónaskap og matreiðslu. Sá námskeiðaskóli gekk inn í Verkmenntaskólann 1984.

Iðnskólinn

Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur stofnaði 1873 iðnskóla sem var sunnudagaskóli. Prentarafélagið, fyrsta félagið sem var launþegafélag, gekk mjög snemma inn í þennan skóla.Iðnaðarmannafélagið á Akureyri var stofnað 1904. Það setti sér það markmið að efla og ala upp iðnaðarmenn og stofnaði skóla. Félagið benti á þörfina, fækkun var byrjuð í sveitum og þjóðfélagið að breytast.Vinnuhjúin voru ekki lengur bundin að einhverjum lögum og reglu heldur gátu farið hvert sem þau vildu og fengið sér vinnu.

Annað markmið félagsins var að eignast hús en fyrst fékk hann inni í gamla barnaskólanum innan við Samkomuhúsið. Allar nýjungar taka tíma og aðsókn að skólanum jókst og þar kom að félagið eignaðist hús við Lundargötu árið 1928. Það hús stendur enn og utan á því er mikill skjöldur til minningar um skólahald þar. Í húsinu var Fíladelfía lengi.

Jóhann Frímann tók við stjórn Iðnskólans í Lundargötunni en þegar Gagnfræðaskólahúsið var tekið í notkun 1943 fluttist Iðnskólinn að einhverju leyti þangað. Þá var hann fyrst og fremst kvöldskóli. Jóhann var yfirkennari í Gagnfræðaskólanum og skólastjóri Iðnskólans og margar kennarar í Gagnfræðaskólanum kenndu í Iðnskólanum. Þegar Iðnskólahúsið (sem nú er hótel) var risið varð hann sjálfstæð stofnun.

Framhaldsdeildir Gagnfræðaskólans

Stærsti hluti þess náms sem fór inn í Verkmenntskólann kom úr Gagnfræðaskólanum.Menntun á sem flestum sviðum atvinnulífsins er mikilvæg en seint á sjöunda áratugnum staðnæmdust margir við landspróf eða gagnfræðapróf.Þeir sem vildu meira nám áttu fáa möguleika. Menn sóttu í Samvinnuskólann og Verslunarskólann en þar sem fólk á Akureyri og nærsveitum sat ekki við sama borð og þeir sem bjuggu á suðvesturhorninu var ákveðið árið 1969 að mæta þörfinni með því að stofna framhaldsdeildir við Gagnfræðaskóla Akureyrar með stuðningi bæjarstjórnar sem tók hraustlega á málinu.

Mjög skammur aðdragandi var að þessu námi og nemendahópurinn var ekki stór, á annan tug, og kennt var í herbergi sem Íþróttabandalag Akureyrar hafði til umráða á efri hæð íþróttahússins við Laugargötu. Boðið var upp á nám á tæknisviði, uppeldissviði og viðskiptasviði, sem varð snemma mjög öflugt svið. Áhugi og metnaður fyrstu árganganna var mikill, bæði hjá nemendum og kennurum, vegna þess að nemendur fögnuðu þessum nýja möguleika og kennarar lögðu sig í framkróka um að standast þær kröfur sem gerðar voru og þeir gerðu til sjálfra sín.

Framhaldsdeildunum óx mjög fiskur um hrygg og námsbrautirnar lengdust. Þegar viðskiptasvið var orðið þrjú ár vaknaði sú trú að Gagnfræðaskólinn mætti bæta fjórða árinu við og útskrifa nemendur með stúdentspróf. Ekki fékkst leyfi til þess og nokkur ár fóru þriðju bekkingar yfir í Menntaskólann, luku prófi þar og teljast stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri þrátt fyrir að hafa aðeins verið einn vetur þar.

Framhaldsdeildir kostuðu aukna aðsókn að Gagnfræðaskólanum og þegar íþróttahöllin var vígð og tekin í notkun á túninu ofan við skólann fengum við stofur þar. Þá hófust hlaup á milli húsa, sem átti síðar eftir að einkenna fyrstu árin í Verkmenntaskólanum. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem allir nemendur gátu verið undir einu þaki suður á Eyrarlandsholti. Byrjað var að byggja þar 1981 og fyrsta vélsmiðjan var vígð í janúar 1983.

Framhaldsdeildirnar í Gagnfræðaskólanum störfuðu af talsverðum þrótti og búið var að útskrifa nokkur hundruð þaðan þegar þær voru sameinaðar Verkmenntaskólanum 1984.

Tré sem stendur eitt og sér

Verkmenntaskólinn á að vera sjálfstæður, tré sem stendur eitt og sér og laufgast. Því verður ekki plantað í annarra manna garð. Framtíð skólans á ekki að ráðast af einhverjum Excel-skjölum heldur því hlutverki sem honum var og er trúað fyrir, að efla ungt fólk til menntunar, koma því til þroska og gefa tækifæri til að verða það sem það ætlaði sér.

Bernharð Haraldsson var fyrsti skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, frá 1983 til aldamóta.

Náttúrubarnið Katrín Jakobsdóttir

Álfhildur Leifsdóttir, Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir og Sigríður Gísladóttir skrifar
26. maí 2024 | kl. 13:45

Þarf forseti Íslands að vera góð manneskja?

Kjartan Ólafsson skrifar
24. maí 2024 | kl. 16:45

Um orkuöryggi og orkuskipti

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
23. maí 2024 | kl. 10:51

Jákvæð sálfræði

Þóra Hjörleifsdóttir skrifar
23. maí 2024 | kl. 10:00

Vanlíðan barna er stöðugt að aukast

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar
22. maí 2024 | kl. 20:30

Sammála um að taka á neikvæðum áhrifum snjallsíma

Heimir Örn Árnason og Gunnar Már Gunnarsson skrifa
22. maí 2024 | kl. 20:00