Öruggt hjá Þórsurum – áttundi í röð
Þór vann Selfoss með 48 stiga mun í 1. deild kvenna í körfuknattleik í gær. Þetta er áttundi sigur liðsins í átta leikjum það sem af er tímabili.
Þórsstelpurnar sigu fljótlega fram úr í fyrsta leikhlutanum, unnu hann með 13 stiga mun. Þær héldu síðan áfram að bæta í forskotið, skoruðu 15 fyrstu stigin í 2. leikhlutanum á meðan gestunum gekk ekkert að hitta ofan í körfuna. Staðan breyttist því úr 25-12 í 40-12 áður en fyrsta karfa Selfyssinga í 2. leikhluta leit dagsins ljós, en þá voru nær sjö mínútur liðnar án þess að þeim tækist að skora. Forskot Þórs var komið í 31 stig áður en fyrri hálfleiknum lauk.
Þriðji leikhlutinn var jafnari en tveir þeir fyrstu og hélst munurinn í kringum 30 stigin. Selfyssingar unnu þriðja leikhlutann með einu stigi og skoruðu sjö stigum meira en samanlagt í fyrri hálfleiknum. Þórsliðið tók svo aftur á rás í lokafjórðungnum, vann hann með 18 stiga mun og leikinn með 48 stiga mun.
Emilie Ravn var stigahæst í liði Þórs með 26 stig, en Chloe Wilson var með athygliverðar tölur, 24 stig, 25 fráköst og 49 í framlag. Hjá gestunum var það Jessica Tomasetti sem skoraði flest stig, 19, og Mathilde Boje Sörensen 15.
Þór - Selfoss (25-12) (24-6) 49-18 (24-25) (26-8) 99-51
Helstu tölur Þórsliðsins, stig/fráköst/stoðsendingar:
- Emilie Ravn 26/5/4
- Chloe Wilson 24/25/6 - 49 framlagspunktar
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 19/1/3
- Yvette Adriaans 12/11/2
- Iho Lopez 6/11/4
- María Sól Helgadóttir 6/4/4
- Hjörtfríður Óðinsdóttir 6/0/1
Þór er því áfram í efsta sæti deildarinnar, hefur unnið alla átta leiki sína til þessa, en Aþena og Fjölnir fylgja fast á hæla þeirra með sjö sigra, Aþena með eitt tap og Fjölnir tvö.
Eflaust verður næsti leikur Þórsliðsins sá erfiðasti á tímabilinu hingað til því eftir viku er komið að bikarleik gegn Tindastóli á Sauðárkróki, í 16 liða úrslitum VÍS-bikarsins. Tindastóll er í 8. sæti Bónusdeildarinnar að loknum tíu umferðum.
Opið bréf til stjórnvalda
Fundur á Akureyri um hættulega úrelta stjórnarskrá Íslands
Jákvæð áhrif millilandaflugs til Akureyrar eru miklu meiri en þú heldur
Opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar